Bifreið fór út af veginum á Reykjanesbraut nálægt Kúagerði rétt í þessu. Lögregla er á svæðinu.
Færð er slæm og skyggni nánast blint í nágrenninu. Um það bil kílómetra löng röð hefur myndast á Reykjanesbraut á vesturleið, inn í Hafnarfjörð.
Gul viðvörun er í kortunum á höfuðborgarsvæðinu, suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði suðausturlandi og Miðhálendi.
Mikið hefur snjóað á suðvesturhorninu síðan á hádegi í gær, þar á meðal í Reykjavík. Víða eru miklir skaflar og snjólag orðið nokkuð þykkt. Samkvæmt Veðurstofu er sennilegt að samansafnaður snjór hafi áhrif á færð, til að mynda á Hellisheiði en einnig innanbæjar.
Lægðin fer að gefa sig nokkuð þegar líður á daginn með hlýnandi veðri. Seinni partinn er von á suðaustan hvassviðri með snjókomu eða slyddu á suðurlandi. Viðbúið er að nýfallinn snjór fari á ferð og geti gert skyggni slæmt, til að mynda í höfuðborginni.
Á morgun er von á talsvert hægari suðlægri átt með éljum á suðvesturhorninu. Hinsvegar verður austan hvassviðri á norðausturlandi.