Sara dáleiddi Gunnar í beinni: „Svona bati, svona lækning þarf að koma innan frá“

top augl

Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpinu Þvottahúsið er lögmaðurinn, dáleiðarinn og orkuheilarinn Sara Pálsdóttir. 

Sara sem hefur stundað dáleiðslu og orkuheilun samhliða lögmennsku í nokkur ár núna segir að þessi andlega vinna sé farin að taka meira og meira yfir. 

„Það er ekki hægt að dáleiða manneskju nema að hún vilji verða dáleidd, annars er það ekki hægt.“

Sara segir að hver hugsun sé orka þó þessi orka sjáist ekki berum augum.

„Ég nota aðferð, ég tala við undirmeðvitundina mína en undirmeðvitund okkar allra sér inn í orkuheiminn og þessi orka sem er í orkuheiminum er ósýnileg en hún er samt raunveruleg, hver hugsun er orka, hver tilfinning er orka og jafnvel þótt við sjáum ekki þessa orku þá skynjum við hana og finnum fyrir henni.“

Hún hóf þessa vegferð innan dáleiðslu og hugleiðslu í kjölfar mikillar þjáninga sem voru nálægt því að keyra hana alveg í kaf. Hún byrjaði snemma að drekka illa samhliða því að vera alvarlega þjökuð af átröskun. Svo kom að því að hún fór í áfengismeðferð og sótti mikið AA fundi í mörg ár. Í dag segist hún vera hætt AA fundarmennsku en líti alltaf á sig sem AA konu og býr yfir miklu þakklæti í garð AA samtakana fyrir það sem samtökin gáfu henni. 

Eftir að hún hætti að drekka fór hún að upplifa mikla verki í líkamanum, stoðkerfis og bólguverkir sem virtust ekki eiga sér neina rökrétta skýringu. Það var sama hvert hún leitaði, læknar einfaldlega vissu ekkert hvað var í gangi. Undir lokin var ástandið orðið þannig að hún hélt einfaldlega að hún þyrfti að skrá sig á örorku sökum þreytu og verkja. Hún var farin að getað unnið aðeins til hádegis en þá var hún einfaldlega búin á því af verkjum.

„Svona bati, svona lækning þarf að koma innan frá. Þegar að fólk kemur til mín í dáleiðslu og það er ekki bara að glíma við kvíða, það er að glíma við brotna sjálfsmynd, vöðvabólgu, það er kannski að glíma við þreytu og höfuðverki. Það er svona kokteill af allskonar neikvæðum einkennum og þegar við förum að skoða ræturnar sjáum við að þær eru allar samtvinnaðar eða þær sömu.“

Hugleiðsla og ásetningur sem snéri að því að lækna sjálfan sig leiddi Söru inn í upprisu sem með tímanum hefur ekki bara losað hana undan allri þeirri þjáningu sem hrjáði hana heldur virðist hún búa yfir öflugum mætti til að hjálpa öðrum. Hún bíður upp á allskonar hjálp í formi dáleiðslu og orkuheilunar auk þess sem hún heldur námskeið og fyrirlestra tengt því hvernig við getum hreinsað út neikvæða orku sem situr föst í kerfinu okkar og öðlast fyrir vikið stjórn yfir lífi okkar. Til að mynda bíður hún upp á ókeypis fræðslu og dáleiðslu en hér má nálgast það.

„Þetta er það sem kallað er flökkuverkir og það er svona týpískt verkjavandamál sem tengjast því sem kallast neikvæð orka. Þú ert kannski stundum að drepast í bakinu eða stundum að drepast í kjálkanum, stundum í mjóbaki, stundum í öxlunum, þetta flakkar á milli, misalvarlegt og þetta eru klassísk einkenni þess að það sé ekki nein líkamleg orsök.“

Er Gunnar bauð henni Söru að koma í Þvottahúsið stakk hún upp á því að hún myndi dáleiða hann í þættinum. Gunnar tók vel í það en það þýddi að hann þurfti að mæta til hennar í undirbúnig fyrir viðtalið í dáleiðsluhitting. Þar las hún orkuna hans og leiddi hann svo inn í djúpa dáleiðslu. í stólnum hjá Söru sat Gunnar i tæpan klukkutíma grátandi og hlæjandi til skiptis. Hann upplifði meðal annars sterka sorg tengda atburði sem hann lent í fyrir tíu árum þar sem vinkona hans dó í fanginu á honum á Suður Indlandi í leigubíl á leiðinni á spítalan eftir slys. Eftir slysið tók einnig við atburðarrás sem skildi eftir sig gríðarlegar agnir neikvæðrar orku sem hafði með flutning á líki vinkonunar innan um líkhús og krufningaspítala í ókunnugu landi að gera.

Aukreitis kom sterkt til hans fullvissa um að gamall ótti sem hann hafði burðast með væri í raun ekki hans heldur ákveðin eind sem var frá öðrum komið, einskonar erfðasynd.

„Stundum fáum við orku í arf frá foreldrum okkar eða forfeðrum og hún getur farið svona á okkur, við skynjum hana og finnum fyrir henni og svo getur hún líka farið á annað fólk sem er í kringum okkur jafnvel þótt að við viljum það ekki.“

Sara segir að við séum alltaf að skapa okkur sjálf, okkar eigin heilsu og líf með huganum.

„Hugurinn og orkan er alltaf að skapa þetta efnislega, og við bara alltaf að skapa okkur sjálf, heilsu okkar, kringumstæður og líf með því hvernig við hugsum og hvernig við erum að nota hugann. Það er þannig raunverulega og ég er búin að upplifa þetta sjálf í gegnum breytingar á mínu lífi og í gegnum þann bata sem ég fékk.“

Þessi dáleiðsla var svo undirbúningur fyrir dáleiðsluna sem Sara framkvæmdi á Gunnari í lok þáttarins, bæði í hljóði og mynd. Dáleiðslan sem tók um 30 mín er svo hluti af þættinum og í raun með ólíkindum hve dúpt þau Sara og Gunnar náðu að vinna saman miðað við að vera í viðurvist bæði Davíðs og Fúsa tæknimanns sem fylgdust með. Dáleiðslan fór með Gunnar á bólakaf í undirmeðvitund hans þar sem svörin við öllum spurningum búa. Þrátt fyrir það ástand sem hann var í, sem líktist helst transi, var hann hæfur í að greina og koma augu á þá neikvæðu orku sem sátu eftir í vitundinni eftir þetta slys sem gerðist fyrir tíu árum síðan. Með miklum átökum tókst honum að losa orkuna úr kerfinu og taka á móti ljósi og kærleika í staðinn.

Gunnar lýsir því í dáleiðslunni hvernig hann fór alveg úr líkamaum og sameinaðist öllu því sem er, algjört out off body experience. Hann tókst á við alvarleikann, sorgina og sektina og var svo leiddur út úr dáleiðslunni hlæjandi og glaður, í algjörri sæluvímu og laus undan gríðalegum þunga sem hann hafði burðast með í áratugi.

Það skiptir engu máli hver kvillinn er, Sara vill meina að maður komist alltaf lengst með að hreinsa burt neikvæð forrit úr undirmeðvitundinni því þar liggi oftast örsök allra kvilla.

Sara, eins sagt hefur verið bíður upp á námskeið og fyrirlestra ásamt dáleiðslu og orkuheilun. 

https://sarapalsdottir.is

Þáttinn má horfa á í heild sinni á YouTube sem og hlusta á öllum helstu streymisveitum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni