Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Blaðamannafélag Íslands: „Óverjandi að lögreglan kalli blaðamenn til yfirheyrslu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf fjallaði í dag um mál þar sem þrír blaðamenn hafa verið boðaðir í yfirheyrslu í næstu viku hjá rannsóknarlögreglumanni Lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Þetta eru þeir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni og Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður á Kjarnanum. Þremenningarnir hafa réttarstöðu sakbornings í rannsókn á meintum brotum gegn friðhelgi einkalífs með umfjöllun sinni um „skæruliðadeild“ Samherja. 

Í fyrravor voru birtar fréttir um samskipti fólks sem tengdist Samherja með einhverjum hætti og tilraunir þeirra til að hafa áhrif á umræðu um fyrirtækið í fjölmiðlum. Hópurinn kallaði sig „skæruliðadeildina“ og samanstóð meðal annars af Örnu Bryndísi McClure, yfirlögfræðingi Samherja, Þorbirni Þórðarsyni, almannatengslaráðgjafa fyrirtækisins, Páli Steingrímssyni skipstjóra og Jóni Óttari Ólafssyni, ráðgjafa og fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni. Ekki hefur komið fram á hvaða gögnum umfjöllunin var byggð. Fullyrt var í fyrravor að síma Páls Steingrímssonar hefði verið stolið og Garðar Gíslason, lögmaður Samherja, sagði að þjófnaðurinn hefði verið kærður til lögreglu. Málið nú gegn blaðamönnunum þremur byggir á kæru Páls Steingrímssonar. 

Alvarlegt mál

Þórður Snær segir í samtali við Fréttastofu RÚV að honum hafi komið mjög á óvart að fá símtal fyrir um tveimur tímum þar sem hann var boðaður í yfirheyrslu vegna gruns um brot gegn friðhelgi einkalífs. Hann furðar sig á því að blaðamenn sæti lögreglurannsókn fyrir að hafa fengið gögn og skrifað fréttir upp úr þeim. Það sé alvarlegt mál.

Þórður Snær segir ljóst af viðbrögðum við fréttum Kjarnans og Stundarinnar um „skæruliðadeildina“ að umfjöllunin hafi átt fullt erindi við almenning. Þingmenn, ráðherrar og ýmis hagsmunasamtök, þar á meðal í sjávarútvegi hafi brugðist hart við þeim upplýsingum sem komu fram í fréttunum og hafi fordæmt vinnubrögð Samherja. „Það er löngu búið að eyða öllum vafa um að þetta hafi átt erindi við almenning,“ segir Þórður Snær. „Það er alvarlegt og stórmál að ráðist sé gegn rannsóknarblaðamönnum fyrir það eitt að segja satt og rétt frá,“ segir Þórður Snær.

Gögn sem áttu erindi við almenning

Kjarninn stendur við sína umfjöllun um „skæruliðadeildina“, segir Þórður Snær. „Okkar umfjöllun byggir á gögnum. Við fórum yfir gögnin og skrifuðum upp úr þeim hluta sem við töldum eiga erindi við almenning,“ segir Þórður Snær. Og bætir við að enginn hafi véfengt fréttirnar. Þá hafi enginn þeirra sem átti í þeim samskiptum, sem eru grunnurinn að fréttunum, haft samband og sagt að ekki væri rétt eftir haft. Enginn þeirra gaf kost á viðtali.

Snýst um hlutverk blaðamanna í lýðræðissamfélagi

„Þetta er risastórt mál og snertir miklu fleiri en blaðamennina sem skrifuðu fréttirnar. Þetta snýst um hvernig við skilgreinum rétt blaðamanna til að þjóna sínu hlutverki í lýðræðissamfélagi,“ segir Þórður Snær.

- Auglýsing -

Norðlenskur rannsóknarlögreglumaður kemur til Reykjavíkur í næstu viku til að yfirheyra Arnar og Aðalstein. Þórður verður yfirheyrður viku síðar.

Tilkynning frá Blaðamannafélagi Íslands

„Varðandi ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi að kalla þrjá blaðamenn til yfirheyrslu vegna gruns um brot gegn friðhelgi einkalífsins í tengslum við fréttaflutning um skrímsladeild Samherja hef ég þetta að segja sem formaður Blaðamannafélags Íslands:

- Auglýsing -

Á þessum tímapunkti er ekki ljóst nákvæmlega um hvað blaðamennirnir þrír, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, Arnar Þór Ingólfsson, blaðamaður Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hafa unnið sér til saka til þess að verðskulda stöðu sakbornings við rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi.

Þeim hefur verið sagt að þeir séu grunaðir um brot gegn friðhelgi einkalífsins með skrifum á fréttum unnum upp úr gögnum sem sýndu samskipti fólks tengdu Samherja, sem kallaði sig skrímsladeild. Enginn hefur véfengt þessar fréttir og Samherji hefur síðan beðist afsökunar á því framferði sem þar var lýst.

Það er óskiljanlegt og í raun mjög alvarlegt að lögreglan á Norðurlandi hafi ákveðið að kalla þrjá blaðamenn til yfirheyrslu vegna þess eins að þeir skrifuðu fréttir upp úr gögnum sem þeir höfðu undir höndum. Það sé grundvöllur starfs blaðamanna að vinna úr gögnum sem þeim berast. Lögreglan kallar hér blaðamenn til yfirheyrslu með réttarstöðu grunaðs um að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífsins. Hvenær sem gögn eru þess eðlis að þau gætu talist sem brot gegn friðhelgi einkalífsins þarf blaðamaður að meta þau með tilliti til almannahagsmuna og meta hvort vegi þyngra, friðhelgi einkalífsins eða almannahagsmunir.

Þegar almannahagsmunir vega þyngra er það aldrei spurning að slík gögn eigi að nota til grundvallar fréttum, sama hvernig gögnin eru fengin. Alþjóðastofnanir hafa lagt á það grundvallaráherslu að gætt sé fyllstu varkárni þegar blaðamenn eru rannsakaðir. Blaðamenn hafa, samkvæmt dómum Mannréttindadómstólsins, fullan rétt til og ber í raun skylda til þess að vernda heimildarmenn sína, hvort sem upplýsingar sem um ræðir eru fengnar með lögmætum eða ólögmætum hætti.

Af málavöxtum að dæma virðist sem það sé ætlun lögreglu að krefja blaðamenn um að gefa upp heimildarmenn sína. Það er beinlínis frumskylda blaðamanna að standa vörð um heimildarmenn sína, enda er kveðið á um slíkt í lögum og að um það hafi fallið margir dómar fallið. Að auki eru vart dæmi um það á síðustu árum eða áratugum að blaðamaður sé kallaður til yfirheyrslu þar sem hann er krafinn um að veita lögreglu upplýsingar um heimildarmenn sína, endar þykir flestum slíkt fráleit hugmynd og margir áratugir eru síðan slíkt mál fór síðast fyrir dómstóla.

Það sem er einna alvarlegast í þessu máli er að lögreglan á Akureyri virðist ekki átta sig á því að öll afskipti dómsvaldsins af blaðamönnum þurfa að vera vel rökstudd og hafa skýran tilgang og að þörfin sé rík og ganga út frá þeirri ófrávíkjanlegu meginreglu að blaðamenn verndi heimildarmenn sína. Því er óskiljanlegt og nær óverjandi að lögreglan kalli blaðamenn til yfirheyrslu eingöngu til þess að fá þær upplýsingar frá þeim að þeir muni ekki gefa upp heimildarmenn sína. Það má beinlínis túlka sem óeðlileg afskipti lögreglu af starfi blaðamanna sem tefur þá að auki frá öðrum störfum á meðan og hefur þar af leiðandi hamlandi áhrif á störf þeirra.

Evrópuráðið hefur bent á að þessu til viðbótar geti afskipti lögreglu sem þessi af blaðamönnum dregið úr vilja almennings til þess að láta blaðamönnum í té upplýsingar, sem hafi einnig áhrif á rétta almennings til upplýsinga.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -