Kjartan Sveinsson, píanóleikari er aftur genginn til liðs við félaga sína í Sigur Rós. Kemur það fram á Instagram reikningi þessarar heimsfrægu hljómsveitar.
Kjartan hætti í Sigur Rós fyrir um áratug síðan og trommuleikari hljómsveitarinnar, Orri Páll Dýrason hætti fyrir nokkrum árum eftir ásakanir um kynferðisbrot gegn konu.
„Tvö gömul andlit og eitt nýtt, gamalt andlit. Við þremenningarnir erum ánægðir að vera komnir aftur saman og að vinna að því sem við elskum að gera. Spennandi tímar framundan,“ segir við færsluna en þar má sjá Jónsa, Georg Holm og Kjartan, brosandi út að eyrum í gegnum myndsímtal.
Kjartan kom inn í hljómsveitina árið 1997 og lék með henni til ársins 2008. Hætti hann þá að ferðast með bandinu um heiminn og spila á tónleikum en tók upp efni með þeim til ársins 2012 en þá hætti hann alveg.
Ljóst er að þeir fjölmörgu aðdáendur Sigur Rósar um allan heim taki þessum fréttum með mikilli gleði en alls hafa rúmlega 10.000 manns lýst yfir ánægju sinni með færsluna á Instagram.
View this post on Instagram