Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Ragnhildur Alda deilir lífsreynslu eftir að hafa lent á vegg: „Ég var farin að fá ofsakvíðaköst“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Pabbi minn var á þingi. Hann Vilhjálmur Egilsson. Þannig að ég er svolítið fædd og uppalin í þessum bransa, þannig að ég fer inn í þetta alveg með opin augu,“ segir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, fyrsti varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem hefur ákveðið að gefa kost á sér til þess að leiða lista Sjálfstæðismanna í borginni fyrir kosningar í vor.

Ragnhildur Alda er með B.Sc.-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í þjónustustjórnun frá viðskiptafræðideild HÍ. Hún fór í stúdentapólitíkina í Háskóla Íslands þegar hún stundaði þar nám á sínum tíma; hún var í Vöku og var formaður fjölskyldunefndar stúdentaráðs Háskóla Íslands. Hún var á sama tíma kosin varaformaður Heimdalls, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. „Svo eftir Heimdall fór ég í Vörð, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, og var í stjórn Varðar í tvö ár. Þannig að ég er búin að vera virk bæði í innra starfi flokksins og eins í stúdentapólitíkinni. Svo hef ég verið mjög ötul í að starfa í kosningabaráttu. Ég er orðin ansi seig í pólitíkinni.“

Hún ólst upp á heimili þar sem væntanlega var mikið talað um pólitík. Hvað heillaði hana og heillar augljóslega enn við pólitíkina? „Það sem mér hefur alltaf þótt mest heillandi, er að þeir sem eru í stjórnmálum fá ákveðið tækifæri til þess að þjónusta fólk með miklu virkari hætti en venjulega. Við erum öll með mismunandi þarfir og það er hlutverk stjórnmálamanna að koma með lausnir sem henta sem flestum sem best í rauninni.“

Ef stjórnmálamenn hafa ekki áhuga á öllu ókunnuga fólkinu í kringum sig þá eru þeir ekki á réttum starfsvettvangi

Hún segist oft tala mikið við fólk sem hún þekkir jafnvel ekki vel og segist einfaldlega hafa áhuga á því sem fólk hefur að segja. „Ef stjórnmálamenn hafa ekki áhuga á öllu ókunnuga fólkinu í kringum sig þá eru þeir ekki á réttum starfsvettvangi.“

Á hvað vill svo Ragnhildur Alda leggja áherslu? „Ég ætla að vera alda breytinga eins og maður segir.“ Hún hlær. „Leikur að orðum þarna; ég hef svo gaman af svona orðaleikjum. Mér hefur þótt stefnumótun borgarinnar í samgöngu-, húsnæðis- og skólamálum og öllum þessum grunnþjónustustoðum hafa einkennst mikið af forræðishyggju. Og þetta er bara góð leið að mjög lélegri þjónustu. Við erum bara þannig gerð að við getum aldrei séð fyrir nákvæmlega hvað fólk þarf, þannig að við þurfum alltaf að bjóða upp á marga fjölbreytta möguleika. Ég vil láta af þessari forræðishyggju; snúa algjörlega við blaðinu og byggja borgina frekar upp og móta stefnumótun þannig að hún verði raunsæ. Íbúum borgarinnar fer fjölgandi og eins og bent er á í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, þá mun þurfa 27.000 íbúðir á næstu átta árum til þess að mæta þörfinni. Þetta kallar á mikla uppbyggingu í innviðum, þetta kallar á að borgin þurfi að stækka og þetta kallar á að við þurfum að láta af einstrengingslegum skoðunum á því hvernig hlutirnir eigi að vera og bregðast strax við í að bæta umferð. Umferðin mun aukast. Þannig að við þurfum að finna leið til þess að bæta flæði og þjónustu, en ekki reyna að stýra fólki varðandi það hvað á að gera. Fólk á að geta átt val. Og ég vil veita fólki val.“

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

- Auglýsing -

Lenti á vegg

Ragnhildur Alda er gift Einari Friðrikssyni og á hún soninn Vilhjálm. Hún segir áhugamálin vera ferðalög, jóga og hugleiðslu og svo elskar hún kökur og eftirrétti. Þá segist hún vera mikil hundakona og fjölskyldan á hund. Svo nefnir hún hámáhorf.

„Ég geri þetta grimmt um jólin; þá tek ég alla þríleikina og reyni helst að klára nokkrar seríur. Svo er ég sólgin í Agatha Christie-bækur og glæpasögur með flottum kvenhetjum.“ Hún nefndi jóga og hugleiðslu; hún segist stunda jóga aðallega til að halda geðheilsunni í lagi. Ragnhildur Alda segist hafa hlaupið á vegg. Lent á vegg. Það gerðist þegar hún var 21 árs.

- Auglýsing -

„Ég var ófrísk þegar ég var 19 ára og byrjaði að upplifa mikinn kvíða á meðgöngunni og þá var allt annað viðhorf en er í dag varðandi slíkt. Ég fór til ljósmóður og talaði um þetta og hún spurði hvort ég væri ekki bara þreytt; ég sagði að svo væri ekki, heldur að mér liði bara illa. Það vissi enginn að það væri eitthvað „thing“ að vera með kvíða á meðgöngu. Það var talað um fæðingarþunglyndi, en allt sem tengdist meðgöngunni; hvað var það? Ég hafði áður farið til heimilislæknisins til að reyna að segja frá þessu og hann mælti með því að ég hlustaði á róandi spólur. Þetta var mjög fínn karl og hann meinti vel; við erum búin að ná stórkostlegum framförum hvað þetta varðar í þessari vitundarvakningu.“

Fólk kannaðist ekki við mig lengur af því að ég var orðin alger hrísla vegna kvíða

Ragnhildur Alda segir að henni hafi á þessum tíma fundist hún vera undir svo mikilli pressu um að standa sig og sýna öllum að það hefði nú engin áhrif á hana að verða ung móðir og það væri ekkert að fara að stoppa hana. „Ég fór svo í algeran yfirsnúning. Svo fór maður í „crash“; ég hljóp allavega á vegg.“ Hún lenti á vegg. „Ég þurfti einfaldlega alveg að draga mig í hlé. Ég var komin með mikinn kvíða og þetta gerði að verkum að ég þurfti algerlega að breyta um hugarfar og þetta er eitt það versta sem ég hef lent í. Kvíðinn var mjög slæmur og þetta var þannig á tímabili að mér fannst orðið erfitt að fara út úr húsi, sem er ólíkt mér. Fólk kannaðist ekki við mig lengur af því að ég var orðin alger hrísla vegna kvíða. Það var samt bæði það versta og besta sem ég hef lent í, vegna þess að þegar maður lendir í því að missa allar undirstöður og byggja sig upp á nýtt þá verður maður miklu sterkari. Ég er ekki frá því að það að hafa lent í þessu 21 árs hafi gert að verkum að ég þoli miklu meira álag í dag heldur en ella.“

Ragnhildur Alda segir að erfiðasta augnablikið á því ári, þegar henni leið sem svona illa, hafi verið þegar hún áttaði sig í raun á hvað hún væri komin með mikinn kvíða. „Þá fór ég til sálfræðings og það var punkturinn; það var þessi botn. Ég hafði ekki stjórn á þessu og ég var farin að fá ofsakvíðaköst. Það var ógeðslega skrýtin tilfinning að geta ekki spyrnt við fótum þegar það gerðist. Ég held að það hafi verið versti dagurinn á þessu tímabili. Ég tók þetta föstum tökum eftir þetta. Ég fór í gegnum sjálfsvinnu í tengslum við þetta og var bara orðin helvíti brött ári síðar.“

Getur hjálpað

Ragnhildur Alda segist eiga vinkonur sem hafi lent í kulnun og fengið áfallastreituröskun og að þar sem hún sé sú fyrsta í vinkvennahópnum til að lenda í andlegum erfiðleikum þá hafi þær getað leitað til hennar. „Það er kostur að þekkja einhvern sem hefur lent í svona og sem hefur komist upp úr svona erfiðleikum og þá getur fólk séð að það er annar kafli eftir. Þannig að ég er svolítið ánægð með að hafa fengið að lenda í þessu frekar snemma og geta verið ljós í myrkri fyrir svo allar hinar sem lenda í þessu síðar á lífsleiðinni. Það er óumflýjanlegt að lenda í áföllum. Það er bara partur af lífinu. En það er eitt sem er svo mikilvægt að muna: Hugrekki er ekki eitthvað sem maður fæðist með; það er eitthvað sem maður lærir af því að taka sénsinn: Mistakast en halda áfram að taka sénsinn.“

Og ég held að það sé gott að hafa einhvern í forsvari sem hefur ekki bara skilning á þessu heldur persónulega reynslu

Ragnhildur Alda er spurð hvernig þessi reynsla geti nýst henni í því starfi sem hún sækist eftir. „Ég held að þetta hafi mjög mikið að segja. Þetta kennir manni ákveðin bjargráð sem eru rosalega góð til þess að nýta þegar streitan kemur. Starfinu sem ég sækist eftir fylgir mikil streita þannig að maður þarf að kunna svolítið að lifa í gegnum hana og jafnvel ná að nýta þessa streitu í eitthvað jákvætt. Ég held þess vegna að þetta muni gagnast mér ótrúlega, fyrir utan það að samfélagið er orðið miklu opnara í að tala um vandamál af þessum toga en áður og við erum aktífari í að fatta hversu mikil áhrif þetta hefur. Það er meira um kulnun en áður og fólk veit meira um kulnun. Og ég held að það sé gott að hafa einhvern í forsvari sem hefur ekki bara skilning á þessu heldur persónulega reynslu. Ég held að það sé í rauninni framtíðin, af því að miðað við prósentuhluta fólks sem hefur lent í svona – hvort sem það er kvíði, kulnun, þunglyndi eða streita – þá er þetta bara eitthvað sem meirihluti landsmanna er að díla við hvort sem er.“

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -