Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Hvað mega fjölmiðlar fjalla um? Lögbann á birtingu frétta í einu stærsta sakamáli aldarinnar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Mannlíf fjallaði í gær um ákvörðun Lögreglunnar á Norðurlandi eystra að kalla blaða- og fréttamenn til yfirheyrslu með réttarstöðu sakbornings. Þessi ákvörðun hefur vakið umræður um hvað fjölmiðlar mega og mega ekki fjalla um. Lengi hefur verið tekist á um það hérlendis. Til dæmis neitaði Arnar Páll Hauksson, þáverandi fréttamaður RÚV, að svara spurningum lögmanns forseta Hæstaréttar um heimildarmann sinn þegar hann kom upp um stórfelld áfengiskaup forsetans. Það mál var fyrirmynd áfengiskaupa ráðamanna í þáttaröðinni Verbúðin.

Arnar Páll var krafinn svara um heimildarmenn sína árið 1989 en borgardómur dæmdi að hann þyrfti ekki að upplýsa um heimildarmann sinn. Nokkrum árum síðar krafði lögreglan Agnesi Bragadóttur, þáverandi blaðamann Morgunblaðsins, um upplýsingar um sína heimildarmenn vegna skrifa hennar um endalok Sambands íslenskra samvinnufélaga. Héraðsdómur Reykjavíkur sagði henni skylt að svara. Þann úrskurð nam Hæstiréttur úr gildi í janúar 1996.

Mega blaðamenn byggja fréttir á viðkvæmum gögnum?

Hæstiréttur hefur tvívegis dæmt að blaðamenn megi byggja fréttir á viðkvæmum gögnum. Hæstiréttur dæmdi í bæði skiptin að fjölmiðlar mættu byggja fréttaflutning á gögnum sem þeir fengju í óþökk eigenda þeirra ef umfjöllunin væri hluti af þjóðfélagsumræðu eða sneri að málum sem það hefur þýðingu fyrir almenning að sé upplýst um.

Í samskiptum lögreglunnar við blaðamennina sem um ræðir mun hafa verið vísað til tveggja greina í almennum hegningarlögum. Sú fyrri kveður á um sektir eða allt að árs fangelsi ef einstaklingur „brýtur gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi, hvort heldur sem er á stafrænu eða hliðrænu formi“. Seinni greinin segir að hver „sem í heimildarleysi verður sér úti um aðgang að gögnum eða forritum annarra sem geymd eru á tölvutæku formi“ sæti sektum eða allt að eins árs fangelsi. Í báðum greinum sem vísað er til er þó þann fyrirvara að finna að þær eigi ekki við „þegar háttsemin er réttlætanleg með vísan til almanna- eða einkahagsmuna“. Og þá vaknar spurningin: á það við í þessum tilfellum? Vísbendingar um það má lesa úr dómum.

Þrír dómar Hæstaréttar til hliðsjónar

Ef málið snýst um það að blaðamenn hafi skrifað fréttir upp úr gögnunum verður að hafa þrjá dóma Hæstaréttar til hliðsjónar.

Sá nýlegasti er frá árinu 2019 og snýr að lögbanni sem Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu setti á fréttaflutning Stundarinnar að beiðni Glitnis HoldCo tólf dögum fyrir kosningar 2017. Þá hafði Stundin fjallað um fjárfestingar Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, og fólks sem honum tengdist fyrir hrun. Greinarnar byggðu á gögnum úr Glitni sem voru háð bankaleynd. Bankinn varð gjaldþrota í hruninu og Glitnir HoldCo sá um uppgjör þrotabúsins.

- Auglýsing -

Glitnir HoldCo vildi einnig stöðva umfjöllun sem byggðist á gögnum sem urðu til í bankanum og féllu undir bankaleynd. Hæstiréttur sagði tvenn sjónarmið og réttindi vera til hliðsjónar. „Við það mat vegast annars vegar á réttur stefndu sem fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem fram koma í hinum umþrættu gögnum og hins vegar réttur þeirra sem gögnin fjalla um til að njóta þeirrar leyndar sem kveðið er á um í“ lögum, stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Stundinni og Reykjavík media sem hún var í samstarfi við hefði verið heimilt að vinna og birta fréttir á grundvelli gagna sem heyrt höfðu undir bankaleynd.

Eitt stærsta sakamál aldarinar

Tölvupóstamálið var í hámæli um miðjan fyrsta áratug aldarinnar. Þá hóf Fréttablaðið birtingu á fréttum sem byggðu á tölvupóstum sem blaðið hafði fengið í hendurnar. Þar kom fram hvernig málsmetandi menn sem tengdust Sjálfstæðisflokknum höfðu komið við sögu í aðdraganda þess sem varð Baugsmálið, eitt stærsta sakamál aldarinnar. Eigandi tölvupóstanna fékk samþykkt lögbann á fréttaflutning Fréttablaðsins en tapaði dómsmálum á báðum dómstigum, í héraði og Hæstarétti.

Ef ákvörðun lögreglu að boða blaðamenn til yfirheyrslu snýr ekki að skrifum þeirra heldur að því hvernig blaðamennirnir fengu gögnin sem þeir notuðu má vísa til tveggja dóma. Annars vegar er umfjöllunin hér að ofan um tilraunir Glitnis HoldCo að fá blaðamenn til að upplýsa um heimildarmenn sína. Hins vegar er dómur Hæstaréttar frá árinu 2014 sem snýr að lekamálinu, þegar lögregla reyndi að upplýsa hver hefði lekið upplýsingum til fjölmiðla úr innanríkisráðuneytinu. Síðar kom í ljós að það var annar aðstoðarmanna innanríkisráðherra sem að lokum fékk skilorðsbundinn átta mánaða dóm.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -