Kaupverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu hækkaði að meðaltali um fimm milljónir króna á einungis tveimur mánuðum. RÚV greinir frá þessu.
Fasteignaverð heldur því áfram að hækka hratt, þrátt fyrir vísbendingar um að markaðurinn væri að fara að róast. Samkvæmt nýbirtum tölum frá Þjóðskrá Íslands hækkaði fasteignaverð um 1,7 prósent milli desember og janúar. Hækkunin var örlítið meiri milli nóvember og desember. Síðastliðið ár hefur fasteignaverð að meðaltali hækkað um 20 prósent á höfuðborgarsvæðinu.
Meðalkaupverð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu fór úr 63 milljónum í október upp í 68 milljónir í desember. Íbúðum sem eru til sölu á höfuðborgarsvæðinu hefur fækkað um fjórðung á tveimur mánuðum og er fækkunin veruleg frá árinu 2020. Þær urðu nærri fjögur þúsund í maí 2020 en í byrjun þessa mánaðar voru þær einungis rúmlega þúsund talsins.