Maður lést er hann varð fyrir hákarlaárás í dag, miðvikudaginn 16. febrúar við Buchan Point nálægt Little Bay Beach í Sydney, Ástralíu. Þetta er talin fyrsta banvæna árás hákarls í tæp sextíu ár við strendur Sydney en síðast lést maður af völdum slíkrar árásar árið 1963. Um var að ræða eina þekktustu hákarlategund í heiminum, tegund sem iðullega bregður fyrir í bandarískum kvikmyndum undir nafninu „The Great White“ en á Íslandi gengur tegundin undir nafninu Hvíthákarl.
Maðurinn var við sund í sjónum þegar fjöldi strandargesta og sjómenn heyrðu stingandi öskur koma frá sjónum sem varð rauður af blóði þar sem maðurinn barst fyrir lífi sínu við hákarlinn. Að sögn vitna hrifsaði þessi ófrýnilega skepna bjargarlausan manninn undir yfirborðið í nokkrar sekúndur áður en líkami mannsins gaf sig og liðaðist í sundur. Hvíthákarlinn synti örstutta stund í burtu en kom svo aftur og gerði aðra atlögu að manninum á meðan hópur fólks horfði agndofa á frá ströndinni. Hélt svo hákarlinn sína leið út á opið hafið.
Björgunarþyrla var send á vettvang ásamt fjölda annarra björgunarsveita og voru læknar kallaðir út ásamt öðrum viðbragðsaðilum. Það þótti ljóst að ekkert var hægt að gera, maðurinn var látinn. Það sem eftir var af líkamsleifum mannsins skolaði svo upp að ströndinni um klukkustund síðar ásamt rifnum sjógallanum. Eins og áður segir er talið að þetta sé fyrsta hákarlaárásin í Sydney í tæp sextíu ár og því um afar sjaldgæfan atburð að ræða.
Hinn látni átti heima nálægt ströndinni og var þaulvanur að synda á svæðinu og þekkti ströndina vel. Sjónarvottar voru skelfingu lostnir, og eins og gefur að skilja, slegnir yfir atburðinum líkt og aðrir íbúar borgarinnar.
Svæðinu í kringum ströndina var öllu lokað í kjölfarið þar sem leit að frekari líkamsleifum mannsins hélt áfram en samkvæmt fréttamiðlum í Ástralíu stendur lokunin yfir að minnsta kosti næsta sólarhringinn.
Hvíthákarlinn er líklegastur allra hákarlategunda til að ráðast á fólk en hann heldur sig aðallega á opnu hafi, til dæmis við Suður-Afríku, Kaliforníu, Ástralíu og Mexíkó. Þeir sjást þó bregða fyrir nær landi og á ströndum en það er þó sjaldgæft að þeir ráðist á fólk. Þeir geta orðið allt að 6 metrar á lengd og yfir tonn að þyngd og dæmi eru um stærri og þyngri hvíthákarla. Talið er að hákarlinn geti synt á allt að 40 kílómetra hraða á klukkustund; hann hefur flugbeittar tennur og er verulega ógnvekjandi í útliti. Veiðiaðferðir hans eru einstakar en hann syndir undir bráðina, ræðst snögglega að henni og sökkvir flugbeittum tönnunum í kvið hennar. Til að valda bráðinni sem mestum skaða hristir hann hausinn til hliðanna, sleppir henni og lætur hana blæða út þar til hann snýr sér aftur að henni og étur hana.
Þessi hörmulegi dauðdagi er án efa martröð allra þeirra sem strendur sækja víðsvegar um heiminn en kvikmyndir á borð við The Jaws hafa ekki orðið til þess að minnka óttann gagnvart þessum gríðarstóru skepnum.