Sagnfræðingurinn og rokktröllið Flosi Þorgeirsson á 54 ára afmæli í dag.
Flosi er hvað þekktastur fyrir að vera gítarleikari hinnar goðsagnakenndu rokksveitar Ham. Þá er hann einnig annar tveggja stjórnanda eins allra vinsælasta hlaðvarps landsins, Draugar fortíðar. Þar fjalla þeir fóstbræður, Baldur og Flosi um hina ýmsu kima mannkynssögunnar á sinn einstaka hátt, heyrn er sögu ríkari.
Flosi hefur undanfarin ár verið afar opinskár um glímu sína við hinn svarta hund, þunglyndið og systur hans, kvíðann. Hefur hann tekið á þeim málum af fádæma hugrekki og örugglega hjálpað mörgum með því að hafa þessi veikindi upp á borðinu.
Í fyrra tók Fréttablaðið viðtal við Flosa þar sem hann ræddi um Karolina Fund söfnun sína fyrir fyrstu sólóplötunni, andlegu veikindin og fleira áhugavert. Hvað hlaðvarpsþættina varðar sagði Flosi að skyndilegar vinsældir þeirra væru yfirþyrmandi en stórkostlegt engu að síður. „Þetta er yfirþyrmandi og ég fæ bara kvíða yfir öllum skilaboðunum og þökkunum sem ég fæ send. Þetta er ekki síst út af því að við erum að tala um þunglyndi, kvíða og athyglisbrest. Mjög opinskátt eins og við höfum alltaf gert. Og viðbrögðin eru náttúrlega yfirþyrmandi en um leið stórkostleg.“