Áburðarverksmiðjunni fórnað fyrir innflutta verðbólgu

top augl

Björgvin Harðarson stórbóndi í Laxárdal gerðist spjallvinur Guðna Ágústssonar. Björgvin rekur svínabú í einum efsta bænum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi ásamt konu sinni, Petrínu Þórunni Jónsdóttur. Foreldrar hans hófu svínaræktina árið 1978 en hann gekk inn í búskapinn að námi loknu.

Björgvin telur að innlend framleiðsla bæði á matvælum og hráefnunum sem þarf til búskaparins sé mikilvæg sjálfstæðu ríki. „Þetta er í rauninni það sem þeir gerðu þegar við fengum þessa svokölluðu Marshallaðstoð. Bandaríkjamenn komu með peninga hérna. Þeir skilyrtu þetta, þeir sögðu þið skuluð byggja áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju. Við viljum að þið verðið sjálfstæð þjóð og ekki öðrum háðir. Og við fórnuðum hvoru tveggja.

Nú erum við bara með innflutta verðbólgu í staðinn.

Samkvæmt Björgvini komu svín hingað til lands með landnámsmönnum ásamt öðrum bústofni, máli sínu til stuðnings bendir hann á að hér á landi eru fjölmörg örnefni sem vísa til svínahalds. Svín munu hafa þrifist ágætlega framanaf en þó hefur þeim fækkað umtalsvert þegar líða tók á miðaldir.

Árið 1995 hófu menn að flytja inn erfðaefni svína frá Noregi til að efla stofninn og segir Björgvin að sennilega hefði svínaræktun lagst af ef ekki hefði komið til þess en í dag fást 1800 kíló á hverja gyltu á ársgrundvelli en var áður á að giska um 900 kíló.

Björgvin bendir á að hér á landi sé engin sýklalyfjanotkun, notkun á vaxtarhormónum eða neinu þessháttar. „Allt heilbrigði þarf að vera fyrsta flokks, ekki nein salmonella eða neitt svona.“ Slíkt er þó heimilt annarsstaðar í heiminum og allt aðrar kröfur þar sem skekkir heilmikið samkeppnina, þó sé íslenski svínastofninn með þeim betri í heiminum.

Björgvin og Petrína reka litla kjötvinnslu í Árnesi en Petrína sér mestmegnis um hana með hjálp frá Björgvini. Þau taka til sín kjöt og vinna það undir heitinu Korngrís en þeirra sérstaða er að selja íslenskt svínakjöt sem alið er á íslensku korni.

Eftir að Björgvin gekk inn í búreksturinn áraði þannig að hæpið þótti fyrir tvær fjölskyldur að lifa af búskapnum þannig að þau hjónakornin brugðu á það ráð að opna pizzastað þar sem kona hans hafði unnið við slíkt áður og öllum hnútum kunnug. Þar sem þau búa á strjálbýlu svæði álitu þau svo að þetta þyrfti að vera eitthvað færanlegt þannig að úr varð pizzavagn sem þau keyra um sveitir Suðurlands og hafa gert undanfarin 19 ár. Í fyrstu héldu þau að helsti markhópurinn yrði sumarbústaðaeigendur og ferðamenn en annað kom á daginn. „Þetta eru fyrst og fremst heimamenn. Fyrst og fremst. Það er engu að síður mismunandi milli sveita hvernig pizzamenningin er.“ Inntur eftir því hvort þetta væru sérstakar pizzur þá segir hann „Já og nei, þetta eru náttúrulega bara pizzur eins og við viljum fá sjálf. Það er eitthvað á þessu, það er ekkert verið að spara það neitt. Þetta er gæða hráefni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni