Laugardagur 11. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

UPPRIFJUN – Hvað var í síma Páls Steingrímssonar? „Ég vil stinga, snúa og strá salti í sárið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og alþjóð veit hafa fjórir blaðamenn nú stöðu sakbornings í máli er tengist umfjöllun um „Skæruliðadeild Samherja“. Blaðamennirnir hafa verið sakaðir um að hafa nýtt sér stolið efni úr síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra hjá Samherja og eins meðlima „Skæruliðadeildarinnar“, við skrif á fréttum um Samherja. En hvað var í síma Páls? Hvaða gögn var þar að finna sem mögulega áttu erindi við almenning? Hverjir eru persónur og leikendur í málinu?


Nú þarf að snúa og svo salta í sárið

„Skæruliðadeild Samherja“:

Arna Bryn­dís McClure Bald­vins­dótt­ir lög­mað­ur
Páll Stein­gríms­son skip­stjóri
Þor­björn Þórð­ar­son al­manna­teng­ill

Hvaðan kemur nafnið á þessum hópi? Frá þeim sjálfum. Stundin sagði svo frá í grein sinni um málið:

„Þessi óformlegi hópur sem virðist potturinn og pannan í málsvörn Samherja kallar sig svo skæruliðadeildina. Í samskiptum þeirra á milli er ítrekað vísað til þessa nafns. „Skæruliðadeildin er alltaf á vaktinni 😉“ segir í einum þessara skilaboða. Aðrir samfélagsmiðlanotendur sem hafa talað máli Samherja eru svo sagðir tilheyra „skuggadeildinni“ og að þeir fái reglulega upplýsingar frá Páli til að nýta. Upplýsingar sem virðast gjarnan eiga uppruna sinn hjá Örnu, Þorbirni eða öðrum starfsmönnum Samherja.“

- Auglýsing -

Enn fremur kemur fram í umfjöllun Stundarinnar að orðfæri hópsins megi helst líkja við skæruhernað. Ítrekað sé talað um að stinga og sparka í blaðamenn.

„„Vona að Óskar, Bubbi og Þorbjörn standi við það sem þeir hafa sagt við þig, að gefa ekki eftir. Við erum búin að stinga. Nú þarf að snúa og svo salta í sárið,“ skrifar Arna í skilaboðum. „Ef þið Þorbjörn eruð að spá í að stinga Jóhannes þá er hugmynd hér,“ segir hún í öðrum. Páll notar sama orðfæri líka. „Við verðum allavega klár og munum nota hvert tækifæri til að stinga svo mikið er víst 😇😇“ skrifar hann til Örnu, sem og eftir samtal við Björgólf Jóhannsson, þáverandi forstjóra Samherja: „Komdu með þína hugmynd, var að leggja á Bubba og hann vill stungu“.“

Skjáskot frá Stundinni
Skjáskot frá Stundinni

Færeyskir blaðamenn í sigtinu

- Auglýsing -

Í Stundinni segir að skæruhernaður hópsins hafi helst beinst gegn blaðamönnum sem og uppljóstraranum í málinu, Jóhannesi Stefánssyni. Og ekki aðeins íslenskum blaðamönnum því gögnin sýna samskipti milli Þorbjörns og Örnu þar sem þau reyna að sverta orðspor færeysku blaðamannanna Jans Lamhauge og Barböru Hólm eftir að heimildamynd þeirra Hinir óseðjandi birtist. Fjallaði myndin um meint skattalagabrot Samherja í Færeyjum.

„Myndin, sem unnin var í samstarfi við fréttamenn Kveiks, afhjúpaði hvernig Samherji hafði misnotað heimild í færeyskum lögum til að fá skatta sjómanna sinna endurgreidda. Það gerðu þeir með því að skrá íslenska starfsmenn á verksmiðjutogurum undan Afríkuströndum sem farmenn á fraktskipum. Ólíkt öðrum uppljóstrunum í tengslum við starfsemi Samherja og hugsanleg lögbrot brást Samherji ekki við með tilkynningu á vefsíðu sinni heldur endurgreiddi dótturfélag Samherja – Framherji – færeyska skattinum 17 milljónir danskra króna, jafnvirði um 350 milljónir íslenskra króna. Færeyski skatturinn hefur kært málið til lögreglunnar,“ segir í frétt Stundarinnar.

Þáttur Páls Steingrímssonar

Þáttur skipstjórans Páls Steingrímssonar í „Skæruliðadeildinni“ var aðallega sá að verja Samherja með kjafti og klóm á samfélagsmiðlum og í blöðum, með pistlum sem ýmist voru skrifaðir af honum sjálfum eða af Þorbirni og Örnu, en í nafni Páls. Margrét Ólafsdóttir, ritari Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, sendi Páli tölvupóst þar sem hún segir honum frá viðbrögðum Þorbjörns við tillögu Páls. Kjarninn greinir svo frá:

„Póst­ur­inn var til Páls Stein­gríms­son­ar, skip­stjóra hjá Sam­herja, til að láta hann vita að Þor­björn hefði verið ánægður með til­lögu sem Mar­grét hafði lagt fyrir hann. Til­lagan var eft­ir­far­andi: „Ég fékk skila­boð frá einum af skip­stjór­unum okkar Páli Stein­gríms­syni. Hann hefur verið mjög „aktíf­ur“ að skrifa bæði í blöð og á sam­fé­lags­miðlum og getur svarað fyrir sig. Hann sem sagt býður fram krafta sína ef við þurfum nafn á ein­hver skrif.“

Heiti tölvu­pósts sem Mar­grét hafði sent á Þor­björn, og áframsendi nú á Pál, var „Nafn á skrif“.

Þor­björn svar­aði: „Frá­bært að vita af þessu. Ég vista núm­erið hans og net­fang. Mér finnst mjög lík­legt að þetta nýt­ist“.“

Fjöldi tölvupósta sem Stundir hefur undir höndum sýnir að Þorbjörn ritstýrði og jafnvel skrifaði að öllu leyti margar af þeim greinum sem birtust á Vísi í nafni Páls Steingrímssonar.

„Fjölmörg tölvuskeyti fara á milli Þorbjörns og Páls þar sem Þorbjörn ýmist skrifar heilu greinarnar eða ritstýrir þeim. Páll býður honum til að mynda að „matreiða“ greinar eins og honum „best þyki“; greinar sem eru síðar birtar í nafni skipstjórans. Það boð þiggur Þorbjörn. Ein þessa greina, Saklaus uns sekt er sönnuð, tekur til að mynda svo stórkostlegum breytingum í meðförum hans að í rúmlega 900 orða grein eru aðeins 88 komin frá Páli. Öll hin skrifar Þorbjörn. Það er líka raunin með greinarnar Ritsóðinn Helgi Seljan númer I og II. Þær fær Páll sendar frá Þorbirni fullbúnar, þótt hann fái tækifæri til að hafa skoðun á greinunum sem birtar eru í hans nafni.“

Gekk Þorbjörn svo langt að stinga upp á að Páll ýjaði í pistlum sínum að andlegri vanheilsu Helga Seljan blaðmanns.

„„Hvernig fannst þér síðasti kaflinn um skrif á samfélagsmiðlum almennt? Kannski full dramatískur? Svo erum við þarna aðeins að velta fyrir okkur andlegri líðan Seljan. Það verður áhugavert að sjá viðbrögðin við því,“ skrifar Þorbjörn. Í þessum síðasta kafla er gengið langt í að ýja að því að geðheilbrigði Helga sé ábótavant og að hann glími við vanlíðan og mikla þörf fyrir viðurkenningu. Í greininni segir meðal annars að það sé „kannski verkefni fyrir aðra en skipstjóra sem hefur ekki sérþekkingu á geðheilbrigði“ að velta fyrir sér lundarfari og andlegri líðan Helga. Þetta þykir Páli  ekki of langt gengið, eða eins og hann segir í skilaboðum til Þorbjörns: „Nei, við skulum alls ekki sleppa dramatíkinni, er svo í anda Helga Seljan finnst mér“.“

Teslan hans Hallgríms Helgasonar

Samkvæmt Stundinni virtist hópurinn hafa haft fleiri einstaklinga í sigtinu en blaðamenn, en rithöfundurinn Hallgrímur Helgason var einn þeirra. Hann hafði skrifað grein þar sem hann fjallaði um Samherja.

„Í tölvupóstsamskiptum Þorbjörns við Pál koma fram hugmyndir þess síðarnefnda að svara grein Hallgríms, Skilið þýfinu, sem fjallar um Samherja, með því að spyrja hvort hann hafi „farið í neðstu skúffuna og fundið samviskuna sína eins og Jóhannes, og ætli að skila öllum listamannalaununum sem hann hefur þegið í gegnum árin, fengið samviskubit eftir að hafa bónað Tesluna sína og hlustað á fréttir af rafmagnsleysinu á landsbyggðinni um leið, batnandi mönnum er best að lifa.“ Hann ætti hins vegar eftir að fá „staðfest að Hallgrímur eigi tesluna en ekki nágranni hans, er að bíða eftir svari um það“. Það sagðist Þorbjörn geta gert, verandi með aðgang að fasteigna- og bifreiðaskrá. Eitthvað sem Páli þótti ánægjulegt og tveggja broskalla virði: „Glæsilegt 😀 þú ert rétti maðurinn fyrir okkur hjá Samherja :D“

Niðurstaðan var að Hallgrímur átti ekki Tesluna, heldur nágranninn, og ekkert varð af greininni.“

Með vitund toppanna

Samkvæmt Stundinni virðist allt það sem „Skæruliðadeildin“ gerði hafi verið með vilja og vitund Þorsteins Más forstjóra og Björgólfs Jóhannssonar sem leysti Þorstein af tímabundið. Í samskiptunum er talað um að „mennirnir“ þurfi að gefa grænt ljós og ku Stundin hafa fjölmörg dæmi um að greinar og athugasemdir hafi verið senda þeim til yfirlestrar fyrir birtingu.

„Í samskiptum á milli þessara einstaklinga kemur fram að Þorsteinn og Björgólfur séu ánægðir með hópinn og það sem þau gera. Sjálfur er Þorsteinn í beinum samskiptum við þennan hóp. Vísað er til símtala, samtala og funda með Þorsteini og ánægju hans með það sem fram fer. Hann hefur þó líka sett fótinn niður. Þannig lýsir Arna því að hún sé að skrifa samantekt sem hún viti ekki hvernig Þorsteinn muni bregðast við,“ segir í frétt Stundarinnar.

Þá kemur fram í fréttinni að Páll skipstjóri segist halda Þorsteini upplýstum. „„En ég átti smá spjall við þmb í gærkvöldi,“ skrifar hann og heldur áfram: „Eins ræddum við að ég myndi halda áfram að setja fram þessa pósta af Wikileaks sem við höfum verið að setja fram, ég sagðist bara vera upptekin í vinnunni og þá hló hann bara, svo það liggur vel á honum,“ skrifar hann til Örnu.“

Einnig var Björgólfur í beinum samskiptum við Pál og hvetur hann áfram að sögn Stundarinnar. „Neglum þá,“ skrifar hann til Páls og á við þá sem gagnrýna fyrirtækið og flytja af því fréttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -