Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Dauði við Dyrhólaey – 26 menn fórust í faðmi ægis

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 1871, þann 20. mars, gerði mikið mannskaðaveður við Dyrhólahöfn sem kostaði 26 sjómenn lífið. Innan við mánuði áður hafði faðmur ægis hrifsað til sín tvo sjómenn á sömu slóðum.

Veður geta skipast skjótt í lofti hér á landi og sú varð raunin þennan örlagaríka dag við Dyrhólaey. Í morgunsárið var veður gott og blítt, en þó engin ládeyða. Um morguninn reru menn alskipa. Úr Dyrhólahöfn voru fjórir bátar á sjó, einn sexæringur og þrír áttæringar.

Um hádegisbil breyttist veður í einu vetfangi og einsýnt að ekki myndi farsælt að dvelja við veiðar. Þegar brima tók leituðu skipin, undir Dyrhólaey, til lands, en sóttist seint róðurinn. Glímdu þau við hvort tveggja einstreymings vesturfall, svonefnt, og allnokkurn kalda.

Þeir sem fremstir fóru, hvor fyrir sínum áttæringnum, Stígur Jónsson á Brekkum og Jón Árnason í Garðakotslandi, lentu heilu og höldnu.

Í kjölfar þeirra kom þriðji áttæringurinn, undir stjórn Sigurðar Sigurðssonar, hins hvíta,, bónda í Skarðshjáleigu. Honum sýndist sem væri lag og hélt til lands. „Kom hann og réttur í sandinn og var búinn að taka stýrissveifina, en í því skipið kenndi grunns, kom slíkt ólag að skipið nærri því fyllti og dróst út.“

Mönnum þeim sem fyrr höfðu komist klakklaust til lands tókst að bjarga þremur mönnum, en Sigurður formaður fórst og með honum fimmtán hásetar.

- Auglýsing -

Af þeim fjórum skipum sem lagt höfðu úr höfn morguninn þann var nú aðeins sexæringurinn eftir úti á sjó. Formanninum á því skipi leist ekki á lendingu við Dyrhólaey og óráð taldist einnig að leggja til Vestmannaeyja „því að báturinn var segllaus og mesti gangstampur“.

Ekki var skjól víða að finna með suðurströndinni en komst skipið loks í var upp við Jökulsá. Þegar leið á kvöldið sýndist skipverjum sem heldur væri að sljákka í sjónum og afréðu að leita lands. Þótti þeim það enda vænlegri kostur en að liggja úti um nóttina „því að hefði hvesst, var ekkert nema opið hafið að reka í.“

Til að byrja með virtist sem lendingin myndi lukkast „því að lagið var gott. En í því að skipið kenndi sandsins, reis upp hnykill, sem dró skipið flatt upp í topp sér og hvolfdi því síðan.“

- Auglýsing -

Þegar þarna var komið sögu voru staddir í flæðarmálinu formennirnir Stígur Jónsson og Jón Árnason og sjö menn aðrir. Hinir voru farnir til bæja, að sumra mati helst til snemma. Tókst þeim, þótt lerkaðir væru eftir daginn, að bjarga sex mönnum en tíu fórust.

Sem fyrr segir fórust daginn þann 26 menn, bændur og vinnumenn.

Heimild: Samvinnan 7. tbl. (1.7. 1955)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -