„Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu er raunveruleg ógn við öryggi í Evrópu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, í tilkynningu sem stjórnarráðið sendi frá sér í dag.
Hún segir Ísland standa staðfastlega með bandalagsríkjum sínum og nánustu samstarfsríkjum. Ísland muni taka fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn Rússum sem standi til að útfæra í dag og á morgun.
„Ísland hefur lýst algjörum stuðningi við Úkraínu og fordæmir innrás gegn löghelgi landamæra þeirra. Við tökum heilshugar undir kröfu um að Pútín Rússlandsforseti dragi herlið sitt tafarlaust frá Úkraínu,“ segir utanríkisráðherra.
„Við krefjumst þess að Rússar stöðvi hernaðaraðgerðir sínar sem geta valdið miklum hörmungum. Árásin er alvarlegt brot á alþjóðalögum og kallar á hörð viðbrögð frá alþjóðasamfélaginu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í tilkynningunni.
Í tilkynningu stjórnarráðsins segir að sendiherra Rússa á Íslandi hafi verið boðaður til fundar í utanríkisráðuneytinu í gær og aftur í dag. Þar hafi utanríkisráðuneytið gert sendiherranum grein fyrir afstöðu Íslands og komið hörðum mótmælum á framfæri.
Eins og sakir standa veit borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins af 16 íslenskum ríkisborgurum í Úkraínu og er þjónustan í sambandi við samtals 28 manns.
„Viðbúið er að tölur um fjölda Íslendinga á svæðinu geti breyst. Áfram verður haft náið samráð við borgaraþjónustur Norðurlandanna,“ segir í tilkynningunni.