Það er einstaklega fljótlegt og einfalt að baka múffur. Það ætti ekki að taka mikið meira en 30-40 mínútur frá upphafi til enda. En hér koma þrjú góð ráð sem koma sér vel áður en hafist er handa við múffubakstur,
Múffuform eru mjög mismunandi að stærð og gerð og því þarf að taka tillit til þess varðandi baksturstímann. Svört form hitna meira en ljós form. Silíkonform eru einnig mjög misjöfn að gerð og síðan eru til óteljandi stærðir.
Gott ráð þegar kemur að múffudeigi er að hræra það eins lítið og hægt er að komast upp með. Þurrefnum er blandað saman í skál og blautefnum í annarri, síðan er þessu blandað létt saman með sleikju eða sleif í nokkrum handtökum. Gott er að telja í huganum og miða við að hræra ekki oftar en svona tíu sinnum. Það er í fínu lagi þó að deigið sé kekkjótt og ekki alveg fullkomlega samlagað. Kökurnar verða léttari í sér og betri ef deigið er ekki ofhrært.
Hægt er að nota bökunarpappír í staðinn fyrir sérstök múffu-pappaform. Klippið bökunarpappír í ferninga sem passa ofan í formin og standa vel upp úr þegar þeim hefur verið komið fyrir ofan í holunni. Best er að setja pappírinn í formið jafnóðum og deiginu er skipt niður í það því bökunarpappírinn helst ekkert sérstaklega vel á sínum stað án deigsins.
Sjá einnig: Orkumúffur með bláberjum – Gott millimál
Umsjón / Kristín Dröfn Einarsdóttir
Mynd / Íris Dögg Einarsdóttir
Stílisti / Ólöf Jakobína Ernudóttir