„Við erum búnir að vera hér Póllandsmeginn frá því klukkan fjögur í morgun. Erum komnir í herbergi hjá vinum vina og erum búnir að ná að sofa í nokkra klukkutíma,“ sagði Ingólfur Bjarni Sigfússon, fréttamaður RÚV í viðtali við Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.
Er hann ásamt Ingvari Hauki Guðmundssyni tökumanni, kominn yfir til Póllands eftir að hafa verið staddir í Úkraínu þaðan sem þeir fluttu fréttir.
Tóku þeir þá ákvörðun að fara fótgangandi restina af ferðalaginu og biðu við landamæri Póllands í margar klukkustundir en alls gengu þeir 32 kílómetra í gær.
Sagði Ingólfur að aðstæður hefðu verið furðu góðar miðað við allt saman en sjálfboðaliðar höfðu sett upp súpueldhús á nokkur hundruð metra fresti til þess að reyna að huga að fólkinu í bílunum.
Þegar komið var að landamærunum voru aðstæður þó breyttar og ekki góðar að hans sögn. Fólki er þar skipt niður í tvær raðir en í aðra röðina fara konur, börn, gamalt fólk og erlendir ríkisborgarar en í hina fara úkraínskir karlar á aldrinum 18 til 60 ára sem fá ekki að fara úr landi vegna herkvaðningar.
„Þetta tók allt dágóðan tíma en þegar yfir lauk, frá því að við lögum af stað fótgangandi og þar til við komum yfir til Póllands, þá vorum við búnir að vera í 16 tíma á ferðinni,“ sagði Ingólfur og bætti við að eldra fólk hafði verið orðið mjög þreytt eftir ferðalagið. Tilfinning hans væri sú að áhyggjur fólks á þessari stundu væru hvort að ástvinir þess myndu lifa af stríðið.