„Hryggilegt slys varð við höfnina í gær síðdegis. Járnbrautarlestin rendi á litla telpu fyrir framan Sláturfélagshúsin og varð hún undir gufuvagninum.“
Svo hefst dapurleg tilkynning sem birtist í Morgunblaðinu, þann 23. ágúst árið 1916. Á þessum tíma var járnbrautarlest notuð til þess að flytja efni úr Öskjuhlíð í hafnarmannvirkin í Reykjavík. Slysið varð á Skúlagötu, til móts við hús númer 20, þann 22. ágúst. Stúlkan, sem var einungis fimm ára gömul, slasaðist mjög alvarlega en lést þó ekki samstundis. Við slysið fór annar fótur hennar af fyrir ofan ökkla en hinn fóturinn mölbrotnaði og var svo illa farinn að við aðgerð þurfti einnig að fjarlægja hann. Hún var einnig með töluverða áverka á höndum, sem og tvíbrotin á öðru læri. Ekki tókst að bjarga lífi stúlkunnar og lést hún daginn eftir slysið.
Slysum fór fjölgandi á svæðinu
Stúlkan virðist hafa haft einhverja meðvitund í upphafi, þrátt fyrir hin alvarlegu meiðsl hennar. Hún gat að minnsta kosti sagt til nafns og látið vita hvar hún átti heima. Samkvæmt Ísafold sagðist stúlkan heita Lauga og að hún ætti heima í Bjarnaborg. Hún missti síðan meðvitund og var borin rænulaus upp á spítala, þar sem læknarnir Sæmundur Bjarnhéðinsson Matthías Einarsson voru fengnir til þess að reyna að bjarga lífi hennar.
Í greininni í Morgunblaðinu er aðstæðum lýst svo:
„Fyrir framan Sláturhúsin eru skúrar og hús; er þar svo þröngt að eigi sér til lestarinnar fyr en hún kemur, enda verður þar hlykkur á brautinni. Fullorðnum mönnum stendur þó engin hætta af þessu, því að bæði er að langar leiðir heyrist skröltið í lestinni og svo gæta ökumenn þess jafnan að gefa viðvörunarmerki með gufupípunni. Og það gerðu þeir að þessu sinni. En óvita börn hafa eigi rænu á því að gæta sín, og því fór svo að þetta sorglega slys bar að höndum.“ (Morgunblaðið)
Það virðist því hafa gerst að stúlkan hafi hlaupið í veg fyrir lestina en eins og flestir þekkja getur það tekið einungis augnablik fyrir börn að hlaupa burt og komast í háska. Í dag yrði sennilega ekki skrifað með þeim hætti sem Morgunblaðið gerði og beindi að forráðamönnum:
„Ætti þetta enn að vera mönnum alverleg áminning um það að líta betur eftir börnum sínum og láta þau eigi vera ein úti. — En þetta ætti einnig að verða til þess að vekja athygli manna á því, hvort eigi muni hægt að koma í veg fyrir fleiri slys hér við höfnina. Slysin eru nú farin að verða þar alltíð og með ýmsum hætti. Getur verið að mikillar varkárni sé gætt, en sjaldan er þó of varlega farið.“ (Morgunblaðið)
Hryggileg sjón blasti við
Fjölmargir komu að slysstað og var hin sorglega og hrollvekjandi lýsing skrifuð í Morgunblaðið:
„Fjöldi fólks safnaðist þegar að þangað sem slysið varð og máttu margir eigi tára bindast, því að svo var þetta hryggileg sjón. Hún lá þar í öngviti hjá brautinni, milli hjóla eimreiðarinnar. En hinum megin við brautarteininn lágu tveir ofurlitlir íslenzkir skór og fótur í öðrum. Var sem hann hefði verið kliptur af leggnum.“ (Morgunblaðið)
Eins og áður sagði lést stúlkan á spítalanum daginn eftir slysið. Morgunblaðið birti tilkynningu þess efnis þann 24. ágúst. Þar kemur meðal annars fram að áverkar hennar hafi verið enn alvarlegri en talið var í fyrstu.
„Stúlkubarnið, sem varð undir járnbrautinni í fyrradag fyrir framan Sláturfélagshúsin, andaðist á spítalanum snemma í gærmorgun. Hafði barnið orðið fyrir miklu meiri áverka, en menn hugðu í fyrstu. Það misti ekki aðeins annan fótinn, heldur urðu læknarnir að taka þá báða af, annan skamt fyrir neðan knéð en hinn um miðjan fótlegg. — Þar að auki lærbrotnaði barnið á tveim stöðum og hlaut ýms önnur meiðsl.
Það var nær óhugsandi, að það gæti lifað, enda andaðist það nokkru eftir að læknarnir höfðu bundið um það. Slys þetta er eitthvert hryllilegasta og sorglegasta, sem hér hefir borið við um langt skeið. Það hlýtur að fylla menn meðaumkun við foreldrana, sem mist hafa barnið sitt svo sviplega. En það hlýtur líka að vekja menn til umhugsunar um hvort hér sé farið um of óvarlega t.d. við hafnargerðina.“ (Morgunblaðið)
Erfitt að stöðva lestina í skyndi
Í fréttinni er það haft á orði að þegar hið hörmulega slys átti sér stað voru slys þegar farin að vera nokkuð tíð á svæðinu, hverju sem þar væri um að kenna. Nefnt er að rætt hafi verið um að járnbrautin færi ef til vill nokkuð hratt meðfram höfninni, þar sem umferð væri mikil.
Járnbrautarlestin ók um svæðið með marga vagna á undan sér. Það þýddi það að viðbragðsflýtir vagnstjórans varð að vera umtalsverður til þess að ná að bregðast við slysahættu eða öðrum uppákomum í tæka tíð.
„Þá er erfiðara fyrir formanninn að stöðva lestina í skyndi, ef eitthvað ber út af,“ segir í greininni. Auk þess er bent á að þrátt fyrir að vagnstjóri gefi ávallt merki um ferðir lestarinnar og noti gufupípu til þess að vara vegfarendur við, þá sé ekki endilega víst að allir gefi því nægilegan gaum. Auk þess væru lítil börn sem kæmust af einhverjum ástæðum frá forráðamönnum sínum ekki fær um slíka varkárni.
Ekki síðasta járnbrautarslysið
„Slys geta ætíð borið að, og þau bera ætíð að, en það verður ekki nógsamlega brýnt fyrir mönnum að gæta sem mestrar varúðar, bæði þeim sem fara eiga með verkfærin og eins hinum, sem af einhverri tilviljun eru þar í nánd. Engum mun hægt að kenna þetta sorglega slys, sem leiddi barnið til bana. — En það má til að verða hvatning öllum að gera sitt ítrasta til þess að fyrirbyggja að slíkt komi fyrir aftur.“ (Morgunblaðið)
Litla stúlkan sem lét lífið í hinu vofeiflega slysi hét Guðlaug Eiríksdóttir og var búsett í Bjarnarborg á Hverfisgötu 83.
Því miður átti eftir að verða annað járnbrautarslys í Reykjavík árið 1919. Það varð við Hringbraut, sem nú er Snorrabraut. Þar var það tveggja ára stúlka sem lét lífið með þessum hörmulega hætti. Hún hét Guðrún Aðalheiður Elíasdóttir.
Bréf frá móður
Nokkru eftir slysið á Skúlagötu 22. ágúst 1916 birtist eftirfarandi texti eftir Ólínu Guðmundsdóttur, móður Guðlaugar Eiríksdóttur heitinnar, í Vísi. Textinn ber titilinn „Þakkarávarp“.
„Innilegt hjartans þakklæti mitt til allra þeirra sem auðsýndu mér hluttekningu, og styrktu mig, í fjarveru mannsins míns, við hið sára og hörmulega fráfall elsku litlu dóttur minnar, Guðlaugar Eiríksdóttur, er andaðist 25.þ.m. Sérstaklega vil eg nefna: Jóhannes Magnusson verslunarmann og konu hans, Jakob Jónsson verslunarstjóra, þau Melstaðshjón og Hæðarendahjón, verkafólkið í Sjávarborg, starfsfólkið í Sláturhúsinu, er allir gáfu mér höfðinglegar gjafir. Öllum þessum, og svo hinum mörgu öðrum, er sýndu mér rausnarskap og samúð, bið eg algóðan guð að launa af ríkdómi sinnar náðar, þegar þeim mest á liggur.“