„Þetta er góð spurning,“ sagði Anna María Frímannsdóttir, aðspurð út í verklag matsmanna í forræðismálum í viðtali við Mannlíf í morgun. Anna María er framkvæmdastjóri Sálfræðingafélags Íslands en hefur Mannlíf nýverið fjallað um forræðismál þar sem Fjölni Þorgeirssyni athafnamanni var dæmt forræði yfir einu barna sinna.
Bryndís Ásmundsdóttir, ein barnsmóðir Fjölnis sagði nýverið frá meintu grófu ofbeldi sem hún varð fyrir í þættinum Eigin Konur en frásögn hennar var átakanleg og vakti mikla athygli. Í kjölfarið stigu fram tvær aðrar barnsmæður hans, þær Mailinn Soler og Sjöfn Sæmundsdóttir og lýstu yfir fullum stuðningi við Bryndísi. Þá sögðust þær hafa sömu sögu að segja um meint ofbeldi.
Málið hefur verið mikið til umræðu á samfélagsmiðlum og hafa samtökin Líf án ofbeldis gagnrýnt niðurstöðuna í forræðismálinu harðlega.
Matsgerðir eru taldar vega þungt í málum sem þessum en virðast sálfræðingar í stöðu matsmanns ekki þurfa að fylgja neinum sérstökum reglum við vinnslu matgerðarinnar.
Sagðist Anna María ekki vita af neinum reglum eða römmum sem þyrfti að fara eftir.
„Þetta er góð spurning, nei veistu það, ég veit ekki til þess að það sé neinn rammi um það hver geti tekið að sér vona mál, hvort það séu einhverjar kröfur eða hvernig hann(sálfræðingurinn) gerir eða hvað hann notar. Kannski er það að einhverju leyti skiljanlegt allavega varðandi matið sjálft af því það getur náttúrulega farið eftir ýmsu, hvaða tæki og tól þú ert að nota og hvernig þú gerir það, en nei ekki svo eg viti.“
Á Anna María meðal annars við persónuleikapróf er hún nefnir hvaða tæki og tól sálfræðingar nota en eru til ótal útgáfur af slíkum prófum. Þá hafa persónuleikapróf verið umdeild og skiptar skoðanir verið um áreiðanleika slíkra prófa.
Taldi Anna María matsmenn hafa frjálsar hendur við vinnslu matsgerðar.
„Eftir því sem ég best veit já, ég hef ekki heyrt neinar reglur um það að það eigi að gera svona eða hinsegin né heldur að það séu einhverjar kröfur um hverjir taka þetta að sér eftir því sem ég best veit.“
Bætti hún við að hún teldi ekki vera himinn og haf á milli aðferða hvers og eins sálfræðings en þekkti það þó ekki nægilega vel.