Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur eftirlitsdeild Ríkisskattstjóra og efnahagsbrotadeild Héraðssaksóknara verið tilkynnt um meintan vafasaman rekstur Pílufélags Reykjanesbæjar sem rekið er sem félagasamtök í fríu húsnæði bæjarfélagsins. Þær upplýsingar koma heim og saman við upplýsingar frá tveimur heimildarmönnum sem báðir eru meðlimir. Þeir vildu ekki láta nafn síns getið af ótta við að vera úthýst úr félaginu. Samkvæmt framburði þeirra á sér stað ýmis ólögleg starfsemi á meðal stjórnarmeðlima félagsins sem, í samtölum við blaðamann Mannlífs, neituðu að afhenda gögn á borð við ársreikninga eða annað sem sýnir rekstur félagsins á svörtu og hvítu.
Bifreiðakaup framhjá stjórn
„Það er alveg klárt mál að þarna á sér stað eitthvað sem ekki má líta dagsins ljós ef marka má þau viðbrögð sem ég hef fengið frá Sísí og Halldóri þegar ég hef spurt um einfalda útprentun á reikningi félagsins úr heimabanka,“ sagði einn meðlima félagsins og heimildarmaður Mannlífs. Þarna á hann við Sísí Ingólfsdóttur, formann félagsins og Halldór Gísla Gunnarsson, gjaldkera þess.
„Hann er bara hérna úti á plani hjá mér“
Heimildarmanni Mannlífs þótti það skjóta skökku við að þegar félagið, sem telur langt undir hundrað meðlimum, keypti bifreið handa formanni þess, á síðasta ári en kaupin voru ekki rædd í stjórn félagsins þrátt fyrir að kostnaðurinn við bifreiðakaupin væru hærri en hálf milljón króna. Formaður félagsins brást ókvæða við þegar spurt var um bifreiðakaupin. „Hann er bara hérna úti á plani hjá mér,“ sagði Sísí við blaðamann Mannlífs.
Til samanburðar má nefna að hvorki formenn né aðrir stjórnarmeðlimir körfuknattleiks- og knattspyrnudeildar Keflavíkur eða Njarðvíkur eru á bifreiöðum sem keyptur var fyrir fjármuni félaganna. Þar telja félagsmenn og iðkendur mörg hundruð, ef ekki yfir þúsund. „Ég hef starfað við alls kyns félagsstörf og það allt í sjálfboðavinnu. Auðvitað tíðkast það að keyptar séu pitsur og annað fyrir þá sem að svona stjórnum eða sjálfboðavinnu koma en þarna virðast vera í gangi allt aðrar leikreglur. Þegar ég frétti að það hefði verið keyptur bíll fyrir pening félagsmanna til þess að formaðurinn, sem engan bíl á, gæti farið í ferðalag síðasta sumar, þá varð ég bara orðlaus. Þegar ég spurði um bílinn þá var bara hreytt í mig og sagt að þetta kæmi mér ekki við,“ sagði einn af heimildarmönnum Mannlífs.
Kolólögleg áfengissala
Þegar formaður félagsins var spurður út í bifreiðakaupin og í hvað bíllinn væri nýttur þá voru svörin á þá leið að hún væri notuð fyrir félagið: „Það er verið að nota hann í reksturinn, þegar það þarf að sækja vörur og fleira,“ sagði Sísí í samtali við Mannlíf. Samkvæmt heimildarmanni á formaðurinn þarna við kaup á áfengi í ÁTVR sem síðar er svo selt ólöglega bæði inni á stað félagsins að Keilisbraut 755 og einnig út úr húsi fyrir þá sem vilja. Mannlíf kannaði hvort félagið væri með gilt leyfi til áfengissölu en svo er ekki. Áfengissalan er því kolólögleg. Að slíkt sé yfirhöfuð leyft í fasteign á vegum Reykjanesbæjar sem félagið fær not af endurgjaldslaust er ámælisvert að mati Héraðssaksóknara, sem eins og áður segir, er að skoða málefni félagsins.
Þá hefur Mannlíf einnig upplýsingar um það að salur félagsins, sem er í samkomuhúsi Reykjanesbæjar á Ásbrú – gamla varnarliðssvæðinu, sé leigður ítrekað út bæði til félagsmanna og annarra hópa og fyrirtækja á svæðinu. Slík leiga er alltaf greidd með seðlum og óvíst hvar þeir fjármunir enda: „Við sem félagsmenn vitum ekkert hvort þessi peningur rati inn á reikning félagsins eða hvort þeim sé stungið á aðra staði sem tengjast rekstrinum ekki beint. Ég vill ekki benda á neinn en það er frekar skrítið að ár eftir ár er sami gjaldkeri þarna við störf og virðast sætin í stjórninni skiptast á milli sama hópsins,“ segir heimildarmaður Mannlífs og bætir við að nú séu aðeins tvær vikur í aðalfund félagsins. „Það samt á ekki eftir að skipta neinu því á síðasta aðalfundi voru reikningar félagsins lagðir fram ef reikninga skyldi kalla. Þetta voru svona upptalningar eins og nemendafélög í grunnskóla fara með fyrir nemendur – hvað var selt fyrir mikið og hvað fékkst í mótsgjöld, sjoppan og hvað svo félagið á inni á bankareikning. Frekari upplýsingar um það er bara ekkert hægt að fá.“
Brást ókvæða við
Þetta fékkst staðfest þegar blaðamaður Mannlífs hringdi í Halldór Gísla, gjaldkera félagsins, sem bar fyrir sig því að hafa ekki verið þarna í rúmt ár. Af hverju engin hafi séð um þessi mál í fjarveru hans var ekki útskýrt og þá var blaðamanni neitað um upplýsingar um fjárhag félagsins og þá hvert þeir peningar fara sem til dæmis eru fengnir með útleigu á sal sem er ekki einu sinni í eigu Pílufélags Reykjanesbæjar. Bifreiðin var sögð rekin fyrir dósapening – dósir sem eru í nær öllum tilfellum bjórdósir sem, eins og áður segir, eru seldar þar með ólöglegum hætti: „Ég veit ekkert hvort þú megir fá þetta yfirlit. Þetta verður birt á aðalfundinum eftir tvær vikur.“
Aðspurður, í ljósi aðstæðna, hvort möguleiki væri að fá að sjá útprentun úr heimabanka félagsins þá var þeirri beiðni hafnað og bent á formanninn, Sísí Ingólfsdóttur, sem brást ókvæða við öllum spurningum. Sagði blaðamanni ekki koma það við hvað þarna færi fram enda væri hún ekki meðlimur í félaginu.
Auglýsingaherferð
Þegar litið er á Facebook-síðu félagsins má sjá færslur frá því í júlí á síðasta ári. Þar sést bifreiðin, sem var keypt. Í stöðuuppfærslu, sem skrifuð var af formanninum, er ferðalagið látið líta út sem auglýsingarherferð fyrir Pílufélag Reykjanesbæjar sem hlýtur að skjóta skökku við þar sem félagið er svæðisbundið og því ekki tilgangur í því að auglýsa félagið, til dæmis á Akureyri þar sem er starfrækt pílufélag.
Í næstu stöðuuppfærslu má ætla sem svo að þetta sé allt saman skemmtilegur spurningarleikur fyrir meðlimi Pílufélags Reykjanesbæjar sem áttu svo að giska á hvar bifreiðin væri stödd á þessu sumarferðalagi formannsins. Þá ber einnig að taka fram að engar aðrar merkingar eru á bifreiðinni nema einkennismerki félagsins. Má því ætla að engir styrktaraðilar hafi komið að kaupunum og hún því keypt fyrir fjármuni félagsins – sem allir félagsmenn hafa lagt til með félagsgjöldum sem greidd eru ár hvert og eru um fjórtán þúsund krónur. Það eru þó ekki einu fjármunirnir sem streyma inn í félagið því fyrir utan þá sem keypt hafa auglýsingar inni á staðnum eru greidd mótsgjöld, keyptur er bjór og þá eru heimatilbúnar samlokur seldar á tæpar þúsund krónur á staðnum.
„Ég trúi bara ekki öðru en að lögreglan hefji rannsókn á félaginu og komist til botns í því í eitt skipti fyrir öll hvert peningar félagsmanna fara og þá hvort félaginu sé ekki skylt að fara að öllum lögum og reglum líkt og önnur íþróttafélög. Ég sé til dæmis ekki bjór úr ÁTVR seldan á júdómótum eða körfuknattleiksleikjum – ef það er að þá er slíkt í öllum þeim tilfellum sem ég þekki til selt með tilskyldum leyfum,“ segir heimildarmaður Mannlífs.
Þá bætir hann við að það hljóti að vera á ábyrgð Reykjanesbæjar að þarna fari fram lögleg starfsemi sem rekin er í samræmi við núgildandi lög.
Beðið svara frá bæjarfélaginu
Pílukast er ört vaxandi íþrótt á landinu og hefur orðið gríðarlega sýnileg í nánast öllum bæjarfélögum á Íslandi og á sjónvarpsskjám landsmanna undanfarna mánuði og vikur. Flest þeirra pílufélaga sem starfandi eru á Íslandi eru, eftir því sem Mannlíf kemst næst, rekin í sátt við alla félagsmenn og í samræmi við núgildandi lög og reglur: „Það er því ömurlegt að brotabrot af þessum hópi geti mögulega komið óorði á þessa frábæru íþrótt sem ætti að vera öllum opin því þarna koma saman ungir sem aldnir, konur og karlar og hittast þar allir á jafningjagrundvelli og kasta frá sömu línu. Það er ekki einu sinni gert upp á milli kynja sem er bara frábært því það geta allir orðið góðir í pílu enda skapar æfingin meistarann,“ sagði heimildarmaður Mannlífs að lokum.
Mannlíf hafði samband við Reykjanesbæ en samkvæmt upplýsingum frá bæjarfélaginu er þetta mál í skoðun. Félagið heyrir undir Íþróttabandalag Reykjanesbæjar en formaður þess var vant við látinn í dag. Mannlíf mun heyra í honum um leið og færi gefst.