Mánudagur 25. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Eurovisionstjarnan Stefán Óli var kallaður aumingi á hækjum: „Ég varð fyrir miklu einelti í skóla“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég varð í æsku fyrir miklu einelti í skóla og að takast á við höfnun dag eftir dag orsakaði kvíða og lélegt sjálfsmat. En það sem hefur mótað mig mest er að verða pabbi; sonur minn breytti hugsun minni og hegðun. Vegna hans þorði ég að taka skrefið og láta reyna á tónlistarferilinn,“ segir Stefán Óli Magnússon sem komst áfram um síðustu helgi í undankeppni Söngvakeppni sjónvarpsins með lagið „Ljósið“.

„Ég held að eineltið hafi byrjað þegar ég var í 4. bekk; ég man allavega eftir því þá, en það hefur líklegast byrjað fyrr. Ég var lítill og grannur strákur og var þennan vetur á hækjum í tvo mánuði af því að ég hafði tognað og það var mikið gert grín að mér út af hækjunum. Ég þorði þar af leiðandi ekki að fara í skólann. Ég var svo viðkvæmur fyrir öllu þessu tali. Ég þorði einfaldlega ekki að mæta í skólann í þrjár vikur af því að ég var alltaf kallaður „aumingi á hækjum“.

Eineltið var grófast frá 6. bekk og upp í 1. bekk í menntó. Ég óx ekki eins og aðrir og tók kynþroskann seinna út og var ennþá svo lítill og ég var líka þybbinn, en ég svindlaði mér í kvöldmat hjá ömmu og sagði aldrei mömmu frá því og borðaði svo líka kvöldmat heima. Ég var þess vegna sagður vera feitur alla daga; ég heyrði það á hverjum degi í skólanum.“

Stefán Óli talar um mikið baktal. Sögur um sig. Stundum kom hann að krökkum sem voru að tala um hann og það særði skiljanlega. „Það var það erfiðasta og þá heyrði ég alla söguna sem sat í mér heillengi.“

Ég þorði stundum ekki að fara í sturtu fyrr en allir voru búnir í sturtu.

Svo var gert grín að honum í sundi og leikfimi og segir hann að stundum hafi hann sofið lítið á næturnar fyrir leikfimi- og sundtíma. „Ég þorði stundum ekki að fara í sturtu fyrr en allir voru búnir í sturtu. Sumir strákar eru ekkert búnir að taka út allan þroska fyrr en jafnvel um 21 árs aldurinn.“

Eineltið hafði þau áhrif að Stefán Óli þorði aldrei að fara á skólaböll. „Þetta gerði mig eiginlega mjög félagsfælinn náunga. Ég hafði samt mikinn áhuga á að vera í hópum en þetta gerði mig hræddan; ég var hræddur um að segja eitthvað rangt.“

- Auglýsing -

Sjálfstraustið var lítið.

„Sjálfstraustið varð eiginlega ekki neitt eftir að eineltið byrjaði.“

Þögn.

- Auglýsing -

„Þótt einhver hrósaði mér, þá dugði það stutt og ég var aftur kominn í að berja mig einhvern veginn niður. Alla daga.“

Það má eiginlega segja að tölvuleikjaheimurinn hafi bjargað lífi mínu.

Hann sökkti sér í tölvuleiki á þessum árum og segir að sumt fólk á Ísafirði, þar sem hann bjó, hafi ekki vitað hver hann var þar sem hann var svo lítið úti. „Það má eiginlega segja að tölvuleikjaheimurinn hafi bjargað lífi mínu. Tölvuleikirnir voru mitt frelsi vegna þess að þar var ég samþykktur fyrir að vera ég, þótt móðir mín sé kannski ekki sammála því, því hún hafði áhyggjur af einveru minni.“

Stefán Óli segir að móðir sín hafi reynt mikið að fá starfsfólk skólans til að gera eitthvað í málunum, en að lítið hafi verið gert. „Ég lenti líka í því að einn kennarinn sagði nokkuð oft að ég væri heimskur.“

Þetta breyttist eftir að ég fór á ADHD-lyf í fyrra.

Stefán Óli var greindur með ADHD á þessum árum. „Ég fór á lyf sem hentuðu alls ekki, því þau deyfðu mig og ég var bara eins og skugginn af sjálfum mér að sögn kennara og móður minnar. Þannig að ég var frekar neikvæður á að taka lyf eftir það, en síðan var það í fyrra sem ég fór á ADHD-lyf sem henta mér. ADHD hefur alltaf haft slæm áhrif á samskipti mín við marga vini mína. Ég hef átt það til að tala mikið um sjálfan mig en það er óviljandi. Þetta breyttist eftir að ég fór á ADHD-lyf í fyrra.“ Hann segir að lyfin breyti næstum því öllu. „Þau hafa breytt því hvernig ég er. Sjálfstraust mitt er orðið þúsund sinnum meira; ADHD gerði það að verkum að ég hafði eiginlega ekki áhuga á neinu. Þetta hljómar eins og þunglyndi, en það var ekki þunglyndi. Þetta tengist kannski því að ég náði almennt ekki að klára verkefni.“

Stefán Óli Magnússon
(Mynd: Helgi Ómarsson.)

Einelti, ADHD, kvíði og þunglyndi

Árin liðu og Stefán Óli hóf nám í menntaskóla og það var á fyrsta ári sem hann fékk nóg og sagði gerendunum að hætta. Einhver tími leið, en þá hættu þeir öllu einelti.

„Ég var orðinn mjög hávaxinn og stór strákur þannig að eina leiðin til að stoppa þetta var að nota hæðina til að vera ógnandi. Lítið annað hægt að gera, því ég beitti aldrei ofbeldi, því það er aldrei rétta leiðin.“

Amma Stefáns Óla lést eftir baráttu við krabbamein þegar hann var í 3. bekk í menntaskóla og fór hann að finna fyrir kvíða í kjölfarið en segir að hann hafi verið farinn að finna fyrir kvíða áður en hafi bara ekki áttað sig á því. Hann tengir dauða hennar líka við sína fyrstu þunglyndisreynslu eins og hann orðar það.

„Amma var búin að vera með krabbamein í fimm eða sex ár. Ég hafði ekki séð manneskju deyja fyrr og hvað þá að kveljast svona mikið og það er hægt að segja að þetta hafi verið trauma sem ég hef ekki ennþá unnið úr. En planið er að gera það á þessu ári. Kvíði minn byrjaði líklegast eftir að farið var að leggja mig í einelti, en ég vissi bara þá ekki hvað kvíði var.“

Svo fæ ég stundum ofsakvíða sem ég ræð ekki við.

Stefán Óli glímir enn við kvíða. „Ég nota hann meira sem orku, en eftir að sonur minn fæddist þá breyttist hann úr kvöð og í bara „áfram gakk með lífið“; það er núna eða aldrei. Ég er oft hræddur við að segja eitthvað vitlaust og þá fer ég að verða kvíðinn yfir því hvort ég hafi sagt eitthvað rétt eða ekki. Svo fæ ég stundum ofsakvíða sem ég ræð ekki við. Hann bara kemur yfir mig. Öll reynsla sem ég hef lent í skapar hann örugglega. Stundum tekur hann mig alveg og þá fer allt í rugl og vitleysu. Það hefur þó ekki gerst upp á síðkastið, því ég hef notað öndunaræfingar og slökun og reyni að hugsa af hverju ég sé hérna og af hverju ég finn fyrir kvíða og ég tala við hann; það er einhver leið sem ég er farinn að nota og sem virkar: Að tala við hann. Því hann er þarna til að hjálpa mér, en ekki til að skjóta mig niður.“

Hversu langt fór Stefán Óli niður þegar honum leið sem verst? „Ég var í eitt skipti byrjaður að hugsa hvort lífið væri þess virði að lifa því, en ég hef aldrei farið það langt að segja að lífið sé búið. Ég hef sem betur fer aldrei farið þangað. Kvíði og þunglyndi var svo mikið tabú á þessum tíma. Enginn vissi hvað þetta var og enginn þorði að tala um þetta; það hefði verið sagt að maður væri geðveikur ef maður hefði talað um þetta. Sem betur fer er mikið talað um þessi mál í dag og fólk orðið opnara og skilningsríkara.“

Það er ekki hollt fyrir neinn að vera í neikvæðni.

Einelti, ADHD, kvíði og þunglyndi. Hvað hefur Stefán Óli lært af þessu öllu? „Ég hef lært að það er enginn að fara að gera neitt fyrir mann. Maður þarf að gera allt sjálfur. Þegar maður áttar sig á því, þá koma allir með manni í liðið. Það er bara þannig. Það vill enginn vera í neikvæðninni. Það er ekki hollt fyrir neinn að vera í neikvæðni. Maður þarf að vera með jákvæða orku til að fá fólk til sín. Það er ekkert flóknara en það. Fólk kemur vegna þess að það vill fá orkuna frá öðrum til að lyfta sér upp.“

Stefán Óli Magnússon
(Mynd: Helgi Ómarsson.)

Að gefast ekki upp

Stefán Óli Magnússon vill gleðja fólk með söng sínum.

Hann lærði á gítar við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar á Ísafirði í einn vetur og svo byrjaði hann að læra söng í Söngsteypunni árið 2019 og þar söng hann opinberlega í fyrsta skipti. „Þar lærði ég ekki bara söng heldur einnig framkomu og hvernig ég ætti að opna mig og vera ekki hræddur við allt sem gæti gerst heldur leyfa því að gerast því við höfum enga stjórn á því.“

Stefán Óli segir að hann hafi mikið lært á þessum árum frá því hann byrjaði að syngja. „Það hefur gert það að verkum að ég hef óbilandi trú á sjálfum mér varðandi hvað ég get gert og framkvæmt. Það sem skiptir öllu máli er að trúa á sjálfan sig.“

„Ljósið.“ „Boðskapur lagsins er að það er alltaf von. Lífið verður ekki og er ekki létt, en það er hvernig maður stendur upp eftir hvert högg sem skiptir máli og að gefast aldrei upp.“

Stefán Óli Magnússon
(Mynd: Mummi Lú.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -