Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Segir Ísland hvorki varið fyrir innrás né hryðjuverkum – Ekki þörf á her með fasta setu á Íslandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Yfir milljón Úkraínumanna eru nú landflótta og óttast er að jafnvel nokkrar milljónir í viðbót flýji land á næstu vikum. Stríðið í Úkraínu hefur nú staðið yfir síðan 24. febrúar. Tólf dagar eru nú liðnir síðan rússnesk stjórnvöld sendu her sinn inn í landið.

Skiptar skoðanir eru um það hvernig smáríkið Ísland með landfræðilega mikilvæga stöðu á milli stórveldanna Bandaríkjanna og Rússlands með einhuga stuðningi við Úkraínu staðsetji sig á alþjóðavettvangi í ljósi aðstæðna. Þurfa Íslendingar að hafa áhyggjur að því að stríðið berist til Íslands og ef svo eru við undirbúin fyrir það eða er þess óþarfi?

Ísland hvorki varið gegn innrás né hryðjuverkjum

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði segir að Íslendingar verði nú að taka umræðuna um hvort sérstakar varnarsveitir hafi viðveru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, í ljósi stríðs í Evrópu. Ísland sé hvorki varið fyrir allsherjarinnrás né sértækum hryðjuverkaárásum.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt núna á þessum tímum að við hugum að því hvernig við styrkjum varnir landsins. Mér finnst það hafa gleymst dálítið í umræðunni almennt í hinum vestræna heimi: Mikilvægi fælingarinnar. Að fæla óvinasveitir frá því að ráðast á ríki,“ sagði Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær.

Baldur birti í gær pistil á Facebook sem vakti talsverða athygli. Þar veltir hann upp spurningum um öryggismál smáríkja, sérstaklega þeirra sem ekki hafa her eins og Ísland, og varnarsamninga við bandalagsríki. Hann segir fælinguna grundvöll í varnarstefnu og grundvöll að friði: Að tryggja að ekki verði gripið til vopna.

„Að sjálfsögðu er aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu sem og varnarsamningurinn við Bandaríkin mikilvægasta tækið til fælingar. En það sem vantar er mikilvægi þriðji þátturinn í þetta að það eru varnar- eða öryggissveitir á öryggissvæðinu í Keflavík sem eru ekki lengur til staðar,“ segir Baldur í Reykjavík síðdegis.

Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í utanríkis- í varnarmálum segir í viðtali við Spegilinn að hernaðaráætlun Rússa virðist, litið yfir landið í heild, óbreytt.  Þeir ætli sér að sitja um höfuðborgina Kænugarð, en hernaðurinn hafi gengið hægar en búist var við.

- Auglýsing -

Ekki þörf á herliði með fasta viðveru hér á landi

„Rússar ætla sér að ná tökum á Úkraínu, hafa þar öll tögl og haldir“ segir Albert í viðtali við Kristján Sigurjónsson á RÚV.

„Þeir eru búnir að umkringja nokkrar borgir. Þeir ætla að setja Zelenskí og stjórn hans í þá stöðu að annað hvort gefist hún upp, eða að það verði barist um höfuðborgina og hún lögð í rúst. Í grunninn hefur rússneski herinn mikla yfirburði í þessu stríði“ segir Albert.

Albert segir ekki þörf á herliði með fasta viðveru hér á landi í núverandi stöðu heimsmála. Ísland sé aðili að Atlantshafsbandalaginu og Íslendingar eigi sameiginlega hagsmuni með Bandaríkjunum, sem sæju hag í að verja Ísland , ef til þess kæmi að átökin í Úkraínu yrðu kveikjan að heimsstyrjöld.  Albert segir að hún sé ekki á leiðinni.

- Auglýsing -

Eina ógnin og eina hernaðarhlutverkið sem Ísland myndi hafa

„Það er engin hernaðarleg ógn sem steðjar að Íslandi fyrr en til stórveldastyrjaldar kæmi, sem þá næði til Norðurhafa því Keflavíkurflugvöllur myndi hafa stuðningshlutverk við sóknaraðgerðir gegn Rússlandi í Norðurhöfum og auðvitað yrði Keflavíkurflugvöllur skotmark í því samhengi. En eins og ég segi, þetta er eina ógnin og eina hernaðarhlutverkið sem Ísland myndi hafa í slíkum átökum“.

Við eigum sameiginlega hagsmuni með Bandaríkjunum

Er þá ekki þörf á herliði með fasta setu hér?

„Nei greinilega ekki að áliti Bandaríkjanna sjálfra sem fóru fyrir mörgum árum og eru ekki á leiðinni til baka. Menn mega ekki gleyma því að öryggistrygging Íslendinga, ef menn skoða söguna frá 1941, hún liggur í því að við eigum sameiginlega hagsmuni með Bandaríkjunum“.

„Um leið og Bandaríkin telja að þeim eða vesturhveli sé ógnað á Atlantshafi, annað hvort frá stórveldi á meginlandi Evrópu, eða eftir einhverja áratugi stórveldi frá Norðurslóðum, þá koma Bandaríkin. Það eru þjóðaröryggishagsmunir Bandaríkjanna, þeir tengjast mjög náið Íslandi, ef það stendur ógn að þeim“ segir Albert Jónsson.

Gæslusveitir NATO-ríkjanna ekki varnarsveitir

Baldur segir hins vegar að undanfarinn einn og hálfan áratug, frá því að Bandaríkin hættu hernaðarviðveru sinni hér á landi, hafa bandalagsríki NATO auk Svía og Finna skipst á að halda hér úti loftrýmisgæslu auk þess sem kafbátaleitarsveitir hafa komið hingað í auknum mæli til að fylgjast með ferðum rússneskra kafbáta um landið.

„Þessar sveitir eru hér svo oft og eru svo tíðar á öryggissvæðinu að nánast er um fasta viðveru að ræða. En það er tvískinnungur í því að geta ekki kallað það fasta viðveru. Það má ekki nefna það í eyrum stjórnmálamanna af einhverjum orsökum. Til viðbótar við það, sem er kannski ennþá mikilvægara, eru þessar sveitir ekki varnarsveitir,“ segir Baldur.

Mikilvægur munur sé þar á.

„Þessar sveitir eru að líta eftir flugvélum og kafbátum ef það kæmi til þess, sem við svo sannarlega vonum að verði ekki, að hér yrði til dæmis lítil hryðjuverkaárás eða lítil árás á landið. Þessar sveitir, sem eru með loftrýmisgæslu, eða kafbátasveitir þær koma okkur ekki til bjargar. Til þess þarf sérstaka sveit kvenna og manna til að bregðast við svona aðstæðum og það er ekki til staðar,“ segir Baldur.

Utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins ræður för

Hann segir að í gegn um tíðina hafi verið litið niður á umræðu um þessi mál. Fólk vilji ekki taka um þetta samtalið, sem hann segir nauðsynlegt.

„Ég hef upplifað það í gegn um tíðina að þegar maður fer að tala um að við þurfum að hugsa að því hvað gerum við ef hér verður hryðjuverkaárás þá byrja eiginlega allir að sussa á mann. Við erum viðkvæm almennt fyrir þessari umræðu vegna þess að við erum herlaus, við erum ekki vön að ræða þessi mál og lifum tiltölulega friðsamlega þannig að við erum óvön þessari umræðu,“ segir Baldur.

Þessi afstaða einskorðist þó ekki við almenna umræðu heldur hafi þessi mál verið viðkvæm í íslenskum stjórnmálum.

„Aðildin að NATO, varnarsamningurinn við Bandaríkin og vera hersins var helsta deilumál hér í áratugi. Núna erum við með þessa athyglisverðu ríkisstjórn, samstarf Sjálfstæðisflokksins og VG sem gerir það að verkum fyrir báða flokka að ræða þessi mál og halda fram sínum sjónarmiðum. En það er klárlega utanríkisstefna Sjálfstæðisflokksins sem ræður för  í ríkisstjórninni og samið um það í stjórnarmyndunarviðræðum,“ segir Baldur.

Ósammála því að Ísland yrði frekar skotmark ef hér væri herstöð

Hann segist þá ekki sammála þeim sem telji að Ísland yrði frekar skotmark ef hér yrði varanleg herstöð, eins og sumir telji.

„Ég er ekki sammála því og í rauninni segja alþjóðastjórnmálin, fræðin og stjórnmálafræðin það að lítil ríki eins og við, við getum ekki varið okkur. Við getum ekki varist allsherjarinnrás og ekki einu sinni takmarkaðri hryðjuverkaárás.“ segir Baldur.

„Við þurfum á aðstoð utanaðkomandi aðila að halda ef á okkur verður ráðist og það er orðið of seint að kalla til aðstoðar og gera svona samninga ef við erum lent í átökum. Það verður að gera svona samninga á friðartímum þegar minnst þörf er á því en þá þarf einmitt að stíga niður og gera það.“

Engin bráð hætta sé til staðar á Íslandi 

Hann telur að nú sé rétti tíminn til að ræða þessi mál og nú verði að gera það mjög opinskátt og af vilja til að hlusta á allar hliðar.

„Bæði hvort sé þörf er á þessu og það er fleira sem ég myndi vilja ræða. Við þurfum líka að ræða að bandamenn okkar komi til aðstoðar ef það verður netárás á landið, ég vil líka sjá umræðu um hvernig eigi að verja sæstrengina sem liggja hér til lands,“ segir Baldur og nefnir að ef óvinaherir myndu vilja einangra okkur á Íslandi þyrfi einungis að klippa á sæstrengina tvo sem liggi til landsins.

„Mér skilst að þá geti heimilistölvurnar okkar ekki einu sinni virka, þær verða þá ekki tengdar netinu. Hvernig ætlum við að verjast þessu? Hvernig ætlum við að fá aðstoð ef það er klippt á þessa strengi?“ spyr Baldur.

„Við þurfum líka að ræða hverjir geti komið okkur til aðstoðar með byrgðaflutninga og fólksflutninga ef kæmi til átaka.“

Hann segist alls ekki vilja að Ísland dragist inn í stríð Úkraínu og Rússlands og tekur fram að engin bráð hætta sé til staðar á Íslandi.

„Það er hins vegar alla tíð mikilvægt að ræða þessi mál svo það sé hægt að fyrirbyggja að eitthvað gerist og nota fælinguna til að verjast frekar en að þufa að grípa sjálf til vopna.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -