Plötusnúðurinn, útvarpsstjarnan og diskóbomban Siggi Hlö á afmæli í dag. Er hann nákvæmlega 54 ára akkurat í dag.
Siggi Hlö hefur um árabil tryllt miðaldra fólk í heitum pottum landsins með útvarpsþætti sínum Veistu hver ég var? á Bylgjunni en þar spilar hann diskótónlist í bland við annað gamalt og gott og tekur við óskalögum. Virðist það vera fastur liður í sumarbústaðapartíum landans að hringja í beinni í Hlömasterinn (eins og hann kallar sig stundum sjálfur) og skríkja í símann.
Afmælisbarnið er mikill Manchester United maður en árið 2019 var hann í viðtalið á Bylgjunni þar sem hann segir frá því þegar hann fagnaði marki svo innilega að hann endaði á bráðamóttökunni: „Ég sat einn fram í stofu, konan nennti ekki látunum í mér og var farin inn í svefniherbergi. Þegar gæinn er að fara dæma vítaspyrnu, þá gjörsamlega truflast ég. Ég hleyp um stofuna og hoppa og skoppa og svo þegar Rashford skorar úr vítinu þá kemur konan fram og gefur mér high-five og ég hoppa upp í loftið til að gefa henni high-five og um leið og ég hoppa upp þá heyri ég bara „púff“. Ég lendi síðan og ég hef ekki getað stigið í löppina síðan. Ég veit hreinlega ekkert hvað gerðist,“ sagði Siggi Hlö og skellihló.