Ómar Pétursson starfar sem heilari og miðill. Hann segist vera í sambandi við leiðbeinendur að handan og hjálpar fólki til að líða betur og aðstoðar fólk sem heyrir, sér eða skynjar eitthvað óeðlilegt á heimilum sínum.
Í helgarviðtali Mannlífs við Ómar segir hann frá því sem hann fæst við á einlægan og opinn hátt.
Ómar segir að fólk sem vinni sem miðlar eða heilarar verði sumt fyrir fordómum. Neikvæðni. „Við sem störfum í þessu erum jafn misjöfn eins og við erum mörg og það verður alltaf. Það er alveg sama um hvaða atvinnugrein er að ræða – það eru alltaf einhverjir óheiðarlegir sem skemma fyrir hinum. Það er ekkert öðruvísi í þessum geira. Ég hef svolítið talað um það að sálarrannsóknarfélög ættu að búa til námskrá því að það er eitthvað um að fólk mæti á eitt heilunarnámskeið og er svo sjálft farið að kenna eða farið að vinna sem miðlar eftir stuttan tíma. Ég brýni fyrir fólki að taka hlutunum rólega. Þetta er langhlaup. Það verður að gefa sér tíma í þjálfunina.“
„Ég verð ekki ríkur af þessu“
Ómar er spurður hvað það hafi gefið honum að aðstoða fólk á þennan hátt. „Mér er gefinn þessi hæfileiki að hjálpa fólki og það gefur mér ótrúlega mikið. Ég verð ekki ríkur af þessu. Það sem gefur mér ótrúlega mikið er til dæmis að fara á kaffihús í jólaösinni og henda orkubolta á þá sem ég tel þurfa á að halda. Það veit enginn hvað ég er að gera en mér er nákvæmlega sama af því að ég tel mig vera að gefa fólki og senda því orku sem það þarf á að halda.“
Ómar stofnaði á sínum tíma Facebook-síðuna „Tveggja heima tal“ þar sem fólk veltir fyrir sér andans málum. Síðan er opin þannig að það þarf ekki að sækja um að verða þar meðlimur. „Fólk er kannski að spyrja spurninga og mér finnst vera í lagi að fólk geti haft þarna skoðanaskipti hvort sem það er að setja myndir af bollunum sínum eða spyrja ráðleggingar ef það á kannski erfitt með að sofa.“ Má segja að þetta sé þá hluti af heilun Ómars? „Já, það má segja það. Eins og allt annað á þetta að byggjast á kærleika og að fólk tali saman og veiti hvert öðru ráð.“
Viðtalið við Ómar í heild sinni má lesa hér.