Tæming á bláum og grænum sorphirðutunnum hefur legið niðri síðustu vikur en kemur fram á vef Reykjavíkurborgar að ástæðan sé vegna veðuraðstæðna og Covid-veikinda starfsfólks. Hafa íbúar kvartað yfir því á samfélagsmiðlum að rusl fjúki um hverfin vegna þess hve yfirfullar tunnurnar eru og hafa kallað eftir því að tunnurnar verði tæmdar.
Í yfirlýsingu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í dag kemur fram að búast megi við að það taki allt að þrjár vikur að ná áætlun. Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan:
Byrjað er að tæma endurvinnslutunnur undir pappír og plast á ný en tæming á bláum og grænum tunnum hefur legið niðri síðustu vikur vegna erfiðra veðuraðstæðna sem gerðu sorphirðuna tafsama og Covid-veikinda starfsfólks. Áfram verður lögð áhersla á að halda tæmingu á gráum og brúnum tunnum á áætlun samkvæmt sorphirðudagatali.
„Í dag þriðjudaginn 15. mars verður klárað að tæma bláar og grænar tunnur í Grafarvogi en því næst verður byrjað að hirða í miðbæ og í Vesturbæ. Búast má við að það geti tekið um þrjár vikur að ná áætlun í borginni.
Þjónusta við grenndarstöðvar er byrjuð á ný eftir óveður sem gekk yfir landið í gær. Í dag þriðjudag verður unnið við að tæma pappírsgáma í póstnúmerum 101, 107, 104, 105 og 108. Plastgámar verða teknir í framhaldi og unnið fram eftir. Á morgun miðvikudag verða grenndargámar í borginni tæmdir samkvæmt áætlun.
Fólk er vinsamlegast beðið um að huga að aðgengi að ílátum og geymslum fyrir starfsfólk sorphirðunnar svo hirðan gangi vel fyrir sig og hægt sé að tryggja losun.“