Ásgeir Ásgeirsson, grafískur hönnuður og skiltagerðamaður, skilur illa á hvaða leið höfuðborgin Reykjavík sé og spyr hvort borgin sé að deyja vegna peningagræðgi. Að hans mati hefur borgin glatað sjarma sínum og orðin ansi kuldaleg.
Þetta kemur fram í aðsendri grein Ásgeirs í Morgunblaðinu. Þar segir hann:
„Það hafa verið rifin hús sem jafnvel eru friðuð. Með breyttu skipulagi, sem hefur verið sveigt í valdi peninga gráðugra byggingarverkataka, geta þeir byggt sín háhýsi og makað krókinn. Hvers vegna dettur engum af þessum verktökum í hug að byggja eitthvað fyrir fólk sem hefur skoðanir á hvað það vill varðandi útlit, umhverfi, leikvelli, þjónustu og fjölskylduvænt umhverfi en þurfa ekki að kaupa íbúðir í blokkum með flötum þökum sem jafnvel leka af því að framboð er ekki á öðru húsnæði? Hefur jafnvel flutt inn í hálfkláruð hús að utan með ófrágenginni lóð enda verktakinn of upptekinn við að selja fleiri eignir,“ segir Ásgeir ákveðinn.
Þessu næst vill Ásgeir meina á að mörg fyrirtæki og verslanir hafi verið flæmd í burtu. Hann bendir á hversu mikið af verslunarhúsnæði í borginni standi ýmist tómt eða sé til sölu.
„Gamli bærinn er á hröðu undanhaldi fyrir gráum kössum. Hvað þarf til þess að yfirvöld vakni upp af ljótum draumi og hugsi eitthvað um álit og vilja almennings um hvernig hann vill hafa borgina? Það er of seint að byrgja brunninn eftir að barnið er fallið ofan í. Þolir Reykjavík annað kjörtímabil með Dag B. í forystu,“ spyr Ásgeir.