„Ég hafði í rúma viku nýtt mér kunnáttu hakkara til að reyna komast yfir lykilorð sem mætti nýta til að komast inn á vef Mannlífs. Það viðurkennist hér með að ég hafði látið Róbert fá gögn innan úr Mannlífskerfinu og hann stundum beðið mig um að tékka á hvort liti út fyrir að fréttirnar yrðu sendar utan úr bæ eða hvort væri verið að lesa fréttir um hann eða þá hvort ég vissi hvort von væri á umfjöllun um hann,“ skrifar Kristjón Kormákur Guðjónsson ritstjóri í ítarlegri grein nýútkomnu Mannlífi um innbrot hans á skrifstofur Mannlífs í janúar síðastliðnum, eftirmál þess og yfirhylmingu.
Það vakti gríðarlega athygli þegar Kristjón, nokkrum vikum eftir innbrotið, játaði í hlaðvarpsviðtalinu Mannlífið með Reyni Traustasyni að vera gerandinn í málinu. Þar lýsti hann ábyrgð á hendur sér og lofaði að bæta það tjón sem hann hafði valdið og skila aftir þeim munum sem hann tók.
Í nýjasta Mannlífi sem dreift er í dag fer hann í smáatriðum í gegnum samskiptin við auðmanninn, misnotkun hans, og þá umbun sem hann fékk fyrir þjónustuna.
„Ég hafði um skeið aðgang að kerfinu, þar sem gleymdist að loka á mig sem fyrrverandi starfsmann Mannlífs,“ skrifar Kristjón Kormákur.
Að morgni dagsins eftir innbrotið í Ármúla ræddi Kristjón Kormákur í tvígang við Róbert í síma. Um sama leyti voru milljón krónur millifærðar á fyrirtæki Kristjóns af Ólafi Kristinssyni, lögmanni Róberts.
„Þá er rétt að taka það fram að ég ætlaði aldrei í fyrstu að ganga svo langt að brjótast inn í bíl Reynis eða á skrifstofur Mannlífs,“ skrifar Kristjón í nýjasta hefti Mannlífs sem er dreift í Bónus, Hagkaup og á N1 í dag. Blaðið er að finna hér.
Fyrirvari: Útgefandi Mannlífs er þolandi í þessu máli sem um er fjallað í greininni.