Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Uppgjöf eða gjöf?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðsend skoðun eftir Láru Garðarsdóttur

Skömmin við uppgjöf. Fyrir skemmstu var ég í aðstæðum sem ég réð ekki við. Allur máttur var sleginn úr mér og engan veginn tókst mér að vinna mig í gegnum það. Komst hvorki aftur á bak né áfram. Svo ég henti handklæðinu inn í hringinn og gekk í burtu.

Ekki í fyrsta skiptið á lífsleiðinni sem ég gefst upp og alveg örugglega ekki það síðasta.

Ef eitthvað er mér um megn – þá fer ég, loka og skelli í lás. Innri gagnrýnandi er þá eldsnöggur að banka upp á og minna mig á hvers lags mislukkaður aumingi ég er. Lára Gunga Garðarsdóttir.

Samfélagið kennir okkur: Að auglýsa vanmátt sinn fer fjær því að vera töff. Að opinbera veiklyndi og veikleika sína magnar þá. Að vera eitthvað annað en svellkaldur á beinu brautinni er glatað tabú. Uppgjöf er aumt. Svart eða hvítt. Allt eða ekkert.

Í orðinu uppgjöf fylgir dulin skömm og sárt tap. Uppgjöf er endir – án uppgjörs.

- Auglýsing -

En á endanum gefumst við öll upp, þegar við sjáum ekki fram á að komast yfir hindrunina. Gefumst upp ef þyngslin eru of mikil eða álagið langvarandi.

Með merkingu orðsins fylgir aldrei hversu mikið var reynt, prófað, fórnað, hamast, grátið. Vitið veit að sá sem gefst upp er ekki aumingi. Hlutirnir voru fullreyndir – jafnvel aðeins of mikið og aðeins of lengi. Rödd gagnrýnandans má kæfa, þar sem vitað er að; uppgjöf er gjöf – enda falin í orðinu. Sá sem á uppgjöf er með boltann í höndunum. Uppgjöf er fyrsta kast, sem er jafnvel álitið vera lukka.

Að gefast upp og ganga burt úr aðstæðum sem þjóna okkur ekki krefst hugrekkis, sjálfsvirðingar og samkenndar í eigin garð. Krefst þess að við eigum innra með okkur rödd sem lætur okkur heyra hvað sé rétt fyrir okkur og hvað ekki.

- Auglýsing -

Það er ekki hindruninni að kenna að við ráðum ekki við hana – og ekki er það okkar að breyta henni.

Uppgjöfin var mín – og nú með boltann í annarri og spaðann í hinni, þá ætla ég að gefa upp og spila næstu lotu – þangað til ég stolt gefst upp.

Lára Garðarsdóttir

Pistill þessi og fleira gott birtist í nýjasta tölublaði Mannlífs og má lesa HÉR.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -