Á Íslandi er farið mýkri höndum um gerendur í kynferðisbrotamálum en víða í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þeir sem sakfelldir eru fyrir slík brot þurfa jafnvel ekki að sitja af sér dóma sína, heldur er skilorðsbindingu oft beitt og sakborningar ganga þar með lausir. Í Svíþjóð er til að mynda ólöglegt að skilorðsbinda dóma þar sem lágmarksrefsingin er hærri en eitt ár. Þar er lágmarksrefsing fyrir nauðgun tvö ár. Auk þessa er málsmeðferðartími á Íslandi iðulega langur og njóta gerendur oft góðs af því við dómsuppkvaðningu. Á sama tíma hefur brotaþoli málið hangandi yfir sér með meðfylgjandi angist og óvissu. Ofan á þetta kemur að brotaþolar þurfa síðan jafnvel sjálfir að innheimta miskabætur, með tilheyrandi kostnaði og kljást þannig áfram við þann sem á þeim braut.
Nýlegur dómur í grófu nauðgunarmáli var skilorðsbundinn að fullu, bæði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og í Landsrétti. Var þetta gert jafnvel þótt sérstöku refsiþyngingarákvæði hafi verið beitt í héraðsdómi, sem einungis er gert í tilfellum stórfelldra og sérlega alvarlegra ofbeldisbrota.
Bætur til brotaþola voru lækkaðar á milli dómstiga og brotaþoli á ekki rétt á tryggingu miskabótanna úr ríkissjóði, þar sem brotið var framið á erlendri grundu.
Full skilorðsbinding þrátt fyrir þyngingu dóms
Um er að ræða mál þar sem Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri hjá Leikfélagi Akureyrar, var sakfelldur í Landsrétti þann 3. desember fyrir gróft kynferðisbrot. Áður hafði Jón Páll verið dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi, en áfrýjað dómnum til Landsréttar. Landsréttur þyngdi dóminn í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi en lækkaði miskabætur til brotaþola úr 2,5 milljónum króna niður í 2 milljónir króna.
Það vakti furðu margra að svo gróft ofbeldisbrot skyldi enda með dómi sem er að fullu skilorðsbundinn. Jón Páll þarf því aldrei að sitja af sér refsivist.
Því fer fjarri að þetta sé eina dæmið um mál þar sem sakfellt er fyrir gróft kynferðisbrot og dómurinn skilorðsbundinn að fullu.
Í fréttaskýringaþættinum Kveik var nýverið fjallað um brotalamir á málsmeðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu. Einn brotaþolinn sem steig fram með sögu sína í þættinum lýsti því hvernig meðferð á nauðgunarmáli hennar hefði tekið sex ár í heildina, á tveimur dómstigum. Málið endaði með sakfellingu – en dómurinn var skilorðsbundinn að fullu. Ástæða þess var sögð löng málsmeðferð og að ekki væri hægt að kenna sakborningi um það. Sama skýring var gefin á skilorðsbindingu dómsins yfir Jóni Páli Eyjólfssyni.
Það brot átti sér stað á hótelherbergi erlendis árið 2008. Árið 2018 hóf lögregla frumkvæðisrannsókn á málinu, sem endaði með ákæru. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll þann 30. nóvember árið 2020, lýsir grófu ofbeldi Jóns Páls á hendur brotaþola. Þar segir meðal annars að hann hafi kastað sér á konuna þar sem hún lá í rúmi á hótelherberginu og haldið henni fastri. Hún hafi barist um og átökin endað með því að konan féll í gólfið. Þar hafi Jón Páll komið í veg fyrir að hún gæti staðið á fætur með því að grípa í fótlegg hennar, svo hún skall harkalega með hnéð í gólfið og datt á bakið. Þá hafi hann sett hné sitt í bringu hennar með þeim afleiðingum að hún hlaut stóran marblett af.
Þar segir meðal annars að hann hafi kastað sér á konuna þar sem hún lá í rúmi á hótelherberginu og haldið henni fastri.
Eftir þetta hafi konunni tekist að skríða aftur upp í rúm sitt en þangað hafi Jón Páll elt hana, lagst ofan á hana og haft við hana samræði án samþykkis hennar. Skýrslur frá neyðarmóttöku, sem konan leitaði til daginn eftir, við komuna til Íslands, sýna að hún hefði meðal annars hlotið marga marbletti og sár á ýmsum stöðum, rispur og núningssár auk sprungu í slímhúð við leggangaop. Allt var þetta talið samræmast sögu hennar. Myndir voru teknar af áverkunum á neyðarmóttöku.
Í niðurstöðukafla skýrslu læknis segir að brotaþoli hafi gefið greinargóða sögu þegar hún leitaði á neyðarmóttöku og gekkst undir skoðun. Hún hafi verið dofin, tætt og aum um allan líkama og í kynfærum.
Hún hafi verið dofin, tætt og aum um allan líkama og í kynfærum.
Meðal gagna í málinu voru skrifleg samskipti Jóns Páls og brotaþola þar sem Jón Páll gekkst afdráttarlaust við brotinu. Framburðir vitna fyrir dómi voru taldir auka trúverðugleika framburðar brotaþola en draga úr trúverðugleika framburðar Jóns Páls. Brotaþoli var sagður hafa verið samkvæmur sjálfum sér um meginatriði málsins frá upphafi og framburður því talinn trúverðugur.
Skilorðsbinding jafnar refsiþyngingarákvæði við jörðu
Jón Páll var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa án samþykkis haft samræði við brotaþola, með því að beita hana nánar tilgreindu ofbeldi og ólögmætri nauðung svo að hún hlaut áverka af.
Í héraðsdómi beitti héraðsdómarinn Barbara Björnsdóttir refsiþyngingarákvæðinu (195. gr. almennra hegningarlaga), sem er einungis beitt þegar ofbeldið er „stórfellt og sérlega sársaukafullt og meiðandi“. Þannig er ákvæðið almennt einungis notað í tilfelli nauðgana sem taldar eru sérlega ofbeldisfullar og alvarlegar. Þrátt fyrir þetta var sú ákvörðun tekin að skilorðsbinda refsinguna, sem svo var staðfest af Landsrétti. Með öðrum orðum; Jón Páll Eyjólfsson þarf aldrei að sitja í fangelsi fyrir brot sitt.
Með öðrum orðum; Jón Páll Eyjólfsson þarf aldrei að sitja í fangelsi fyrir brot sitt.
Í augum hins almenna leikmanns getur það ekki annað en vakið undrun að refsiþyngingarákvæði sé beitt í máli sem þessu, en dómurinn svo skilorðsbundinn að fullu. Þarna má segja að skilorðsbindingin, refsileysið, jafni refsiþyngingarákvæðið við jörðu.
Héraðsdómari lagði til grundvallar skilorðsbindingu dómsins að langt væri liðið frá því brotið var framið og að rannsókn hefði dregist á langinn.
Þegar málið er skoðað í samhengi við þá skýringu kemur ýmislegt í ljós sem dregur úr réttmæti hennar.
Þegar málið var kært var um áratugur liðinn frá brotinu. Kynferðisbrot þar sem þyngsta refsing varðar meira en tíu ára fangelsi fyrnast á fimmtán árum. Rannsókn málsins tók um 14 mánuði, sem er ekki lengra en gengur og gerist í þessum málaflokki. Auk þess var það ekki ákvörðun brotaþola að kæra málið, heldur hóf lögregla frumkvæðisrannsókn á málinu, eins og fram kemur í dómnum og réttargæslumaður brotaþola hefur bent á. Augljóslega þótti lögreglu því full ástæða til að rannsaka brotið og færa það svo inn á borð ákæruvaldsins, enda er um að ræða sérlega ofbeldisfulla árás.
Sænska ákvæðið – ólöglegt að skilorðsbinda fyrir verstu brotin
Þess má geta að víða á öðrum Norðurlöndum er hreinlega ólöglegt að skilorðsbinda dóma fyrir brot þar sem lágmarksrefsingin er eitt ár eða meira. Þar er almennt um að ræða morð, manndráp og nauðganir.
Á síðu sem útskýrir refsiréttarkerfið í Svíþjóð fyrir almenningi segir:
„Vad det gäller straffvärde, som även det är ett stort ämne att utforska, är huvudregeln att påföljden ska bli fängelse om straffvärdet är högre än ett år.“ Á íslensku þýðir þetta að ef lágmarksrefsingin er hærri en eitt ár má ekki dæma til skilorðsbundinnar refsingar. Í Svíþjóð er lágmarksrefsing fyrir nauðgun tvö ár.
Ákvæðið má finna í 27. kafla sænska lagabálksins, en Moa Bladini, lektor í lögfræði við Gautaborgarháskóla, staðfesti auk þess ofangreind atriði um sænska réttarkerfið í samtali við blaðamann. Þumalputtareglan er að lágmarksrefsingin fyrir téð brot sé eitt ár – en við nauðgun er tveggja ára lágmarksrefsing í Svíþjóð, svo það þýðir að útilokað er að dæma til skilorðsbundinnar refsingar fyrir nauðgun þar í landi.
Á Íslandi eru engin slík lög í gildi. Blaðamaður kom að máli við nokkra álitsgjafa og spurði þá hvort þeim þætti sambærileg lög ekki eiga erindi við okkur hér á landi. Það kæmi spánskt fyrir sjónir að hægt væri að skilorðsbinda dóma að fullu þar sem sakfellt væri fyrir alvarlegt brot eins og nauðgun – sérstaklega þegar refsiþyngingarákvæði væri beitt í dómnum.
Á Íslandi eru engin slík lög í gildi.
Álitsgjafarnir nálguðust málið út frá ólíkum hliðum en voru allir sammála um að gera þyrfti breytingar á dómskerfinu.
Dr. Hildur Fjóla Antonsdóttir réttarfélagsfræðingur sem hefur rannsakað réttarstöðu brotaþola ítarlega, sagðist telja að það væri vissulega tilefni til þess að hér á landi yrði skoðað ákvæði eins og það sem er í lögum í Svíþjóð. Hún velti fyrir sér skilorðsbindingu á dómi Jóns Páls Eyjólfssonar, sem blaðamaður nefndi sem dæmi við hana.
„Um er að ræða alvarlegt brot sem var þar að auki framið með svo grófum hætti að dómurinn nýtir þyngingarákvæðið. Það skýtur því skökku við að dómurinn sé á sama tíma skilorðsbundinn að fullu. Dómurinn ber þannig með sér að ekki sé tekið tillit til hagsmuna brotaþola í málinu, enda lítur íslenskt réttarkerfi í raun svo á að brotaþolar hafi engra hagsmuna að gæta í refsimálum. Efast má um að þetta viðhorf endurspegli réttarvitund almennings. Ég tel fulla ástæðu til að kanna betur hvernig þessu er háttað annars staðar á Norðurlöndunum og þá skoða hvort ekki sé rétt að taka fyrir það að hægt sé að skilorðsbinda dóma vegna svona alvarlegra brota,“ sagði Hildur Fjóla í samtali við blaðamann.
„Jú, þetta er algjörlega eitthvað sem þyrfti að skoða,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, aðspurður um lagabreytingu af þessu tagi. „Það er stórt vandamál hvernig kerfið er á köflum algjörlega úr takti við réttlætisvitund almennings – það byggir upp vantraust til kerfisins ef fólki finnst réttlætinu ekki vera fullnægt. Í kynferðisbrotum er þetta sérstaklega áberandi í hversu fá brot rata inn í réttarsali, hversu lágt sakfellingarhlutfallið er, eða þeirri stöðu að Landsréttur virðist frekar milda dóma í kynferðisbrotamálum en öðrum brotaflokkum. Þegar kemur að alvarlegustu brotunum, brotum þar sem lágmarksrefsing í lögum fer yfir ákveðið langan fangelsisdóm, þá skýtur skökku við að geta skilorðsbundið tiltölulega þunga dóma.“
Helga Vala Helgadóttir, lögmaður og þingmaður Samfylkingarinnar, er hlynntari því að gera nauðsynlegar úrbætur á málsmeðferðartíma og upphæðum miskabóta til brotaþola í kynferðisbrotamálum. „Ég aðhyllist ekki harða refsistefnu, því það er mín bjargfasta skoðun að hver dagur í frelsissviptingu sé verulega íþyngjandi,“ sagði Helga Vala í samtali við blaðamann, spurð um erindi sænska ákvæðisins. „Þess vegna er ég mjög hlynnt því að beitt sé ákvæði hegningarlaga til skilorðsbindingar, sér í lagi þegar um er að ræða ungt afbrotafólk, því það hlýtur fyrst og fremst að vera markmið okkar að fólk verði fyrir betrun sem ég því miður óttast að sé ekki mikil innan veggja lokaðra fangelsa. Þá verður að skoða aðstæður, þótt að kynferðisbrot séu vissulega meðal alvarlegustu afbrota sem þekkjast, því þær eru jú mjög margvíslegar.
Mig langar líka að benda á að vegna þess hvernig stjórnvöld hafa búið um hnútana, með allt of fáu starfsfólki í réttarvörslukerfinu, þá hefur málsmeðferð dregist verulega, sem leitt hefur til þess að stærri hluti refsidóma hefur orðið skilorðsbundinn að hluta. Þar er dómskerfið að bregðast við því hversu íþyngjandi það er að hafa stöðu sakbornings árum saman. Það er hins vegar algjör skortur á því að tekið sé tillit til þess hversu íþyngjandi það er fyrir brotaþola að bíða niðurstöðu máls árum saman, því dómstólar hafa ekki hækkað miskabætur vegna þessara tafa á málsmeðferð. Eðlilegt væri að miskabætur yrðu hækkaðar og þá að hluta greiddar af ríkissjóði, sem ber ábyrgð á þessum töfum.“
Undirskriftalisti stofnaður vegna máls Jóns Páls
Þegar niðurstaða héraðsdóms í máli Jóns Páls var kunngerð var stofnað til undirskriftalista á Change.org sem um 2.000 manns skrifuðu nafn sitt við. Krafa undirskriftalistans var að skilorðsbundnir nauðgunardómar ættu að heyra sögunni til. Í texta við undirskriftalistann segir meðal annars:
„Þann 30. nóvember 2020 féll fyrsti nauðgunardómurinn í máli sem tengist #metoo á Íslandi. Umfjöllun fjölmiðla bendir til þess að nauðgunin hafi verið hrottaleg og voru lesendur varaðir við grófum lýsingum. Sakborningurinn hlaut tveggja og hálfs árs dóm sem var skilorðsbundinn að fullu.
Það hlýtur að vera á skjön við réttlætiskennd almennings að fólk geti framið hrottalegar nauðganir og að þeir örfáu gerendur sem eru sakfelldir fyrir dómstólum þurfi ekki að verja einni mínútu bak við lás og slá.
Hér er enn einn dómurinn sem er algjörlega á skjön við alvarleika brotsins. Réttarkerfið er þrautaganga fyrir þolendur kynferðisofbeldis, og í þeim fáu tilfellum sem gerendur hljóta dóm er hann í hrópandi ósamræmi við refsiramma laganna og réttlætiskennd samfélagsins. Lögin virðast vernda frekar þá sem brjóta af sér en þá sem er brotið er á.“
Mótsagnir og jafnræði
Mótsögnin sem fólgin er í því að refsiþyngingarákvæði sé beitt í dómi á sama tíma og hann er skilorðsbundinn að fullu, líkt og gert var í Héraðsdómi Reykjavíkur, er ekki eina mótsögnin í máli Jóns Páls Eyjólfssonar. Aðra slíka má finna í dómi Landsréttar, þar sem refsiþyngingarákvæðið er afnumið – en dómurinn samt sem áður þyngdur í tíma.
Dómurinn stingur auk þess í stúf við nýlega dóma í kynferðisbrotamálum.
Má þar nefna dóm sem féll í Hæstarétti í febrúar árið 2021 yfir Þórhalli Guðmundssyni, sem er betur þekktur sem Þórhallur miðill. Þórhallur hlaut 18 mánaða fangelsisdóm fyrir að hafa tíu árum áður brotið kynferðislega á ungum karlmanni sem kom til hans í heilunarmeðferð. Hæstiréttur þyngdi þar ekki dóm Landsréttar, meðal annars með þeim rökum að langt væri um liðið frá því brotið var framið. Þrátt fyrir þau rök var dómur Þórhalls þó ekki skilorðsbundinn, heldur hljóðaði hann upp á fangelsisvist, ólíkt dómi Jóns Páls Eyjólfssonar. Í báðum tilvikum var sambærilega langur tími liðinn frá brotinu.
Í báðum tilvikum var sambærilega langur tími liðinn frá brotinu.
Annað umhugsunarvert eftir þann 3. desember síðastliðinn í Landsrétti er að eini nauðgarinn sem var nafngreindur í dómi þennan dag, reyndist vera pólskur. Aðrir nutu nafnleyndar, þar á meðal Jón Páll Eyjólfsson.
Ef Jón Páll hefði verið maki, fyrrverandi maki, faðir eða bróðir brotaþola hefði verið skiljanlegt að hann yrði kallaður X í dómnum. Brotaþoli hans er hins vegar alls ótengdur honum og það vekur spurningar um þetta misræmi hjá dómstólnum.
Ef tveir menn sem fremja sams konar brot fá svo ólíka meðhöndlun frá sama réttarkerfi hlýtur það að brjóta gegn jafnræðisreglunni, en í henni segir að allt fólk sé jafnt fyrir lögum og eigi að hljóta sömu meðferð.
Lækkaðar miskabætur og engin ríkistrygging
Að lokum er komið að þeim miskabótum sem sakborningur var dæmdur til að greiða brotaþola. Héraðsdómur dæmdi hann til að greiða henni 2,5 milljónir króna ásamt vöxtum í miskabætur en í Landsrétti var upphæðin lækkuð niður í 2 milljónir króna auk vaxta. Brotaþoli hafði farið fram á að sakborningur greiddi henni 6 milljónir króna, ásamt vöxtum, í miskabætur.
Nú þegar ljóst er að sá sakfelldi mun ekki sitja af sér neina fangavist geta bæturnar varla talist annað en smánarlegar. Sérstaklega í ljósi þess að samkvæmt íslenskum lögum á þessi tiltekni brotaþoli ekki rétt á því að ríkissjóður tryggi nokkurn hluta bótanna til hennar, ef svo vildi til að sakborningur gæti ekki greitt þær. Þetta er vegna þess að brotið var framið erlendis og ramminn í kringum ríkistryggingu á bótum til brotaþola er afar þröngur. Í raun er einungis afmarkaður hópur sem að endingu á rétt á tryggingunni frá ríkinu.
Í raun er einungis afmarkaður hópur sem að endingu á rétt á tryggingunni frá ríkinu.
Fyrir þá brotaþola sem falla ekki í þann afmarkaða hóp er staðan sú, að ef sakborningur greiðir bæturnar ekki fljótt og vel, þarf brotaþoli sjálfur að rukka hann um þær, með ærnum innheimtukostnaði. Það þarf því ekki að koma á óvart hversu mikið af bótum í kynferðisbrotamálum hefur aldrei fengist greitt.