Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður innanríkisráðherra, hefur blandað sér í umræðuna um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Það vakti nokkra athygli í gær þegar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fjallaði um söluna með líkingamáli þar sem ekki var verið að selja hlut í banka heldur sumarbústaði í eigu VR með afslætti í samtali við Vísi. Hann sagði síðan að ef hann viðhefði slíka vinnubrögð yrði honum ekki sætt sem formanni, en Ragnar hefur kallað eftir afsögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra vegna málsins, en Mannlíf fjallaði um málið í gær.
Boðinn var út um fjórðungs hlutur ríkisins í bankanum og var umfram eftirspurn gífurlega mikil. Söluverðið var á 117 kr hver hlutur, en á sama tíma var verðið skráð 122 í Kauphöllinni. Afsláttarverðið í ljósi umfram eftirspurnarinnar hefur valdið mikilli óánægju, sérstaklega þar sem að bréfin hækkuðu strax um tvö prósent svo gróði fjárfestanna strax á fyrsta sólarhring orðinn nokkur.
Sumarhúsamarkaðurinn gæti farið á hliðina
Brynjar heldur áfram með líkingu við sölu sumarhúsa en sagan er aðeins önnur en hjá Ragnari. Brynjar segir sögu af því að stéttarfélagi fái í hendur á sjöunda þúsund sumarhúsa sem eru metin á um tvö hundruð milljarða, í uppgjöri við erlenda aðila.
„Stéttarfélagið hyggst selja sumarhúsin þar sem stéttarfélagið vill ekki vera fasteignafélag í samkeppni við félagsmenn sína. Auk þess liggur fyrir að stéttarfélagið þarf á fjármunum að halda þar sem það hefur verið rekið með halla síðustu árin. Halli síðasta árs var til að mynda 288 milljarðar króna. Ljóst þykir að varlega þurfi að fara í söluferli sumarhúsanna svo sumarhúsamarkaðurinn fari ekki á hliðina,“ segir Brynjar í færslu á Facebooksíðu sinni.
Í sögunni er sett á laggirnar sérhæfð stofnun til að sjá um söluna. Stofnunin fær til liðs við sig fjölda sérfræðinga, innlendra sem erlendra, sem sérhæfa sig í sölu sumarhúsa. Að fenginni ráðgjöf sérfræðinganna er afráðið að selja sumarhúsin á 2-3 árum, í nokkrum áföngum. Ferlið er kynnt opinberlega fyrir öllum hagsmunaðilum og ekki síst fyrir stéttafélaginu sjálfu, sem samþykkir fyrirkomulag sölunnar.
Hverjir eru að krefjast afsagnar?
„Í fyrsta áfanga eru seld sumarhús fyrir um 55 milljarða króna. Viðskiptin eru talin viðskipti ársins af þar til bærum aðilum, sem best þekkja til sumarhúsamarkaðarins. Þegar kemur að næsta áfanga, 9 mánuðum síðar, hafa sumarhús almennt séð hækkað töluvert í verði, eins og aðrar fasteignir. Hvert sumarhús í eigu stéttarfélagsins er nú metið að meðaltali á 40 milljónir króna og hafa sumarhúsin aldrei verið verðlögð hærra. Það liggur þó fyrir að kaupendur sumarhúsa eiga því að venjast að fá einhvern afslátt, jafnvel 5-10%, ef mörg hús eru keypt í einu lagi,“ segir Brynjar.
Síðan eru seld 1.380 sumarhús fyrir 53 milljarða staðgreitt, með 4,1% afslætti af ásettu verði sem jafngildir því að hvert sumarhús hafi verið selt á 38,4 milljónir króna.
„Krafist er afsagnar formanns stéttarfélagsins, af aðilum sem:
- a) hafa ekki kynnt sér málið,
- b) hafa kynnt sér málið en hafa – kannski eðlilega – ekki nægilega þekkingu til að geta skilið það, eða
- c) hafa kynnt sér málið og skilja það en kjósa að kalla það spillingu, af því þeir telja það sér til framdráttar,“ segir Brynjar að lokum.