„Varðandi efni fréttarinnar þá get ég ekki tjáð mig um eintök mál,“ sagði Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, í samtali við Mannlíf í dag. Bætti hún við að allar ábendingar eða ásakanir vegna meints eineltis, áreitni eða ofbeldis séu teknar alvarlega innan Sinfóníunnar og fylgt sé viðbragðsáætlun í þeim efnum.
Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur einn meðlimur Sinfóníuhljómsveitarinnar verið í ótímabundnu leyfi frá störfum vegna ásakana um áreiti í tæpar níu vikur. Auk hans hafi tveir starfsmenn Sinfóníunnar óskað eftir því að láta af störfum í síðustu viku en annar þeirra hefur verið sakaður um kynferðisbrot.
Margrét Ragnarsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar, sagði í samtali við Mannlíf í morgun að hún hafi aldrei heyrt af slíkum ásökunum og vísaði blaðamanni á að leita svara hjá Láru framkvæmdastjóra. Hún bar það fyrir sig að um trúnaðarmál væri að ræða. Óskaði hún eftir því að frekari fyrirspurnir yrðu sendar í tölvupósti en engin svör hafa enn borist.