Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Starfsmaður frelsissviptur í klukkustund og beittur hrottalegu ofbeldi: „Eitt alvarlegasta atvikið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
Í síðustu viku átti sér stað alvarleg líkamsárás á starfsmann í einu af búsetuúrræðum Vinakots. Samkvæmt heimildum Mannlífs var starfsmaðurinn frelsissviptur í um það bil klukkustund og beittur hrottalegu ofbeldi. Reif skjólstæðingurinn meðal annars í hár starfsmannsins og barði höfði viðkomandi í gluggasyllu í á annan tug skipta. Starfsmaðurinn gat lítið varið sig, en mikill munur er á líkamsburðum milli hans og skjólstæðingsins. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Starfsmaðurinn var einn vegna veikinda

Vinakot er einkarekið meðferðarúrræði fyrir börn með alls kyns vandamál. Þar er veitt fjölbreytt þjónusta við börn með fjölþættan vanda, eins og þroska- og geðraskanir. Árásin átti sér stað í einu af búsetuúrræðunum en Vinakot starfrækir þrjú heimili þar sem pláss er fyrir sex ungmenni. Félagið er í eigu framkvæmdastjórans, Aðalheiðar Bragadóttur, en sveitarfélögin kaupa þjónustu af fyrirtækinu.

Talsmaður Vinakots staðfestir að ráðist hafi verið alvarlega á starfsmann í vinnu en segist að öðru leyti bundin trúnaði og ekki getað tjáð sig um einstaka mál.

Tveir starfsmenn eru alla jafna með skjólstæðingnum en vegna veikinda  var starfsmaðurinn sem ráðist var á einn þennan dag. Skjólstæðingurinn hefur áður sýnt af sér ógnandi hegðun en aldrei í líkingu við þessa árás.

Eru heimildarmenn DV á þeirri skoðun að sveitarfélagið sem fer með málefni einstaklingsins hafi einfaldlega leyst vandræði sín varðandi vistun neð því að koma viðkomandi að hjá Vinakoti.

Samkvæmt heimildum DV hefur skjólstæðingurinn sem um ræðir áður gerst sekur um líkamsárásir og ógnvekjandi hegðun gagnvart starfsmönnunum sem komið hafa að umönnun viðkomandi. Talsverð reiði ríkir hjá þeim sem tengjast málinu um að viðkomandi hafi alls ekki átt heima í slíku úrræði sem Vinakot er heldur mun frekar í einhverskonar öryggisvistun sem myndi hæfa sakhæfu og andlega veiku fólki sem talið er hættulegt sjálfu sér og öðrum.

Málaflokkurinn í fullkomnum ólestri

Árásin er enn eitt alvarlega atvikið sem kemur upp varðandi einstaklinga sem þurfa á öryggisvistun að halda. Málaflokkurinn hefur verið í fullkomnum ólestri undanfarin ár en tvær öryggisvistanir hafa verið starfandi undanfarin ár.

- Auglýsing -

Talsmaður Vinakots segir að fæst sveitarfélög hafi aftur á móti burði til að koma sér upp öryggisvistun.

Nú er áformað að koma á fót ör­yggis­vist­un fyr­ir ósakhæfa ein­stak­linga í Reykjanesbæ sem mun þjónusta allt landið. Stefnt er að því að úrræðið verði tekið í notkun á næsta ári en eins og áður hafa íbúar mótmælt fyrirætlununum harðlega.

 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -