Afmörkuð fælni (e. phobia) er „ofsalegur ótti við tiltekin fyrirbæri eða aðstæður eins og dýr, lokuð rými eða sprautur. Fólk finnur fyrir skyndilegri skelfingu þegar það mætir því sem það óttast, þótt það geri sér grein fyrir að óttinn er meiri en eðlilegt er.“ Þetta segir á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar.
Afmörkuð fælni er oft kölluð fóbía í daglegu tali, eftir enska heitinu. Fóbíur geta valdið fólki talsverðu álagi og kvíða. Þær geta með tímanum hugsanlega skert lífsgæði þess sem þjáist af þeim, þegar viðkomandi er jafnvel farinn að forðast ákveðnar aðstæður í lengstu lög vegna þeirra.
Hér á eftir verða taldar upp tíu af algengustu fóbíunum sem fólk þjáist af í dag, miðað við lista ABC News.
Félagsfælni
Hér er um að ræða ótta við félagslegar aðstæður. Þessi fælni tilheyrir flokki kvíðaraskana en vegna algengni og þess hve margt hún á sameiginlegt með öðrum fóbíum, fær hún að vera á listanum. Félagsfælni getur verið afar hamlandi og komið í veg fyrir að fólk sæki ýmiss konar félagslegar aðstæður. Þetta getur líka valdið öðrum faldari einkennum, eins og ótta við að borða fyrir framan aðra.
Agoraphobia – Víðáttufælni
Ótti við opin svæði. Þetta er alvarleg fælni sem getur gert fólk að föngum á eigin heimili og komið í veg fyrir að það lifi eðlilegu lífi.
Acrophobia – Lofthræðsla
Þótt nokkuð margir þjáist af dálítilli lofthræðslu má segja að það sé bara hluti af eðli okkar, að óttast aðstæður þar sem við gætum verið í hættu. Hins vegar getur sumt fólk óttast hæð svo mikið að til dæmis rúllustigar í verslunarmiðstöðvum eru þeim ofviða. Aðrir fá svima og kvíðaviðbrögð bara við það að vera statt inni í hárri byggingu, þótt viðkomandi sé innandyra. Margir sem glíma við þessa fælni fá mikinn svima og ónotatilfinningu við það að vera statt á útsýnisstað, eins og háum kletti, þótt þeir séu langa vegu frá brúninni.
Pteromerhanophobia – Flughræðsla
Það eru meiri líkur á því að verða fyrir eldingu en að deyja í flugslysi. Þrátt fyrir það þjást margir af alvarlegri flughræðslu. Fyrir suma kemur það hreinlega í veg fyrir ferðalög.
Claustrophobia – Innilokunarkennd/Hræðsla við lokuð rými
Sumir eru haldnir óstjórnlegum ótta við lokuð rými, að lokast inni einhversstaðar eða að festast í þröngum rýmum. Fólk lýsir því gjarnan að því finnist eins og veggirnir séu að þrengja að þeim og rýmið sífellt að minnka.
Entomophobia – Ótti við skordýr
Það þarf líklega ekki að útskýra þessa frekar. Margt fólk óttast hinar ýmsu tegundir af skordýrum. Algeng fóbía skyld þessari, er Arachnophobia, eða ótti við kóngulær. Þessar fóbíur geta gengið svo langt að fólk fyllist kvíða þegar fer að vora og forðast ákveðna staði eða aðstæður þar sem meiri líkur eru á að hitta þessa smáu óvini.
Ophidiophobia – Ótti við snáka
Þarna er um að ræða algenga fóbíu sem í sjálfu sér er ekki óskynsamleg í grunninn. Frummaðurinn þurfti jú að vara sig á biti eitraðra snáka. Það er áhugavert að þessi ótti virðist ekki háður búsetu. Þannig má auðveldlega finna Íslendinga sem eru haldnir fóbíunni, jafnvel þótt snákar finnist ekki úti í náttúrunni hér á landi.
Cynophobia – Ótti við hunda
Þessi kemur kannski sumum á óvart, en sjúklegur ótti við hunda er algengari en margan myndi gruna. Oft verður þessi fóbía til eftir neikvætt atvik tengt hundi, sem á sér oftar en ekki stað þegar einstaklingurinn er barn. Það getur verið afar erfitt að eiga við fóbíuna og vinna bug á henni. Hundar eru næm dýr og skynja það gjarnan þegar fólk er óöruggt eða hrætt, sem aftur gerir þá óörugga og stundum óútreiknanlegri í samskiptum við viðkomandi aðila.
Astraphobia – Ótti við óveður
Þarna er helst um að ræða þrumur og eldingar, sem er manninum eðlislægt að vera á varðbergi gagnvart. Harkaleg óveður eins og fellibylir geta líka orðið að miklum ógnvaldi í lífi fólks. Þessa fóbíu er líklega erfitt fyrir fólk að tengja við sem búsett er hér á landi.
Trypanophobia – Ótti við nálar
Þessa þekkja flestir. Sprautunálar vekja ugg hjá mörgum. Sumir óttast þær svo mjög að bólusetningar og blóðprufur verða nánast óyfirstíganlegar. Sumir verða jafnvel fyrir því að falla í yfirlið eða kasta upp þegar sprautunálar eru nálægt þeim.