Fimmtudagur 26. desember, 2024
3.8 C
Reykjavik

Ólafía er eitt af 14 meintum fórnarlömbum dr. Skúla: „Í rauninni sveltur hún til dauða á níu dögum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólafía Kristný Ólafsdóttir var harðdugleg og ljúf kona sem var dáð og elskuð af sínu fólki. Dóttir hennar lýsti henni meðal annars sem ljósbera og náttúruafli. Í nóvember 2019 lagðist Ólafía Kristný inn á göngudeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja með ólæknandi krabbamein í brisi. Hún var sett á lífslokameðferð án þess að hún eða hennar nánustu aðstandendur voru látnir vita. Var henni neitað um vökva og næringu í æð þrátt fyrir beiðni aðstandenda. Níu dögum síðar var hún látin. Sérfræðingurinn í meðferð hennar var dr. Skúli Tómas Gunnlaugsson.

Mannlíf hefur fjallað ítarlega um mál Skúla Tómasar frá því að lögreglan hóf rannsókn á því í fyrra. Hægt og bítandi hafa meint fórnarlömb meintra mistaka Skúla fjölgað en í dag er lögreglan að rannsaka andlát níu sjúklinga Skúla auk fimm annarra sem tókst að bjarga frá ótímabærum lífslokameðferðum. Lögreglan segir að málið eigi sér ekki fordæmi á Íslandi.

Var ráðlagt að fara í göngutúr og skipta um matarræði

Mannlíf talaði við dóttur Ólafíu Kristnýjar, Lindu Rós Eðvarðsdóttur sem sendi skýrslu fyrir hönd aðstandenda Ólafíu, til landlæknis, þar sem kvartað var undan meðferðinni á móður hennar. Ólafía var rétt orðin 63 ára er hún lést rétt fyrir miðnætti þann fimmta desember 2019. Átti hún fimm börn og einn stjúpson.

Linda Rós
Ljósmynd: aðsend

Fjórtán sinnum á fimm mánuðum hafði hún farið til læknis á HSS, vegna verkja sem hún var með en læknanemi hafði séð að blóðsykurinn hefði hækkað óeðlilega hjá henni. Þrátt fyrir það var hún ekki send í frekari skoðun heldur gefið það ráð að fara í göngutúra, taka íbúfen og borða einföld kolvetni. Þegar hún fékk því loksins í gegn að fara í myndatöku kom í ljós að hún væri með fjórða stigs krabbamein í brisi og við tók lyfjameðferð. Að sögn Lindu brást líkami hennar illa við lyfjameðferðinni á Landspítalanum og var bún því flutt með sjúkrabíl til Keflavíkur. Að sögn Lindu viðurkenndu Skúli og yfirlæknirinn að það hafi verið mistök að setja hana í lyfjameðferð þann daginn, það hafi ekki verið fylgst nógu vel með blóðinu í henni. Þegar Ólafía er komin á HSS eru aðstandendur boðaðir á fund. „Og við erum kölluð á fjölskyldufund þar sem þeir tala um að krabbameinið hafi dreift úr sér og að þeir ætli að hætta meðferð. Þegar ég spyr þá hvort hún komist heim af spítalanum svöruðu þeir því til að þeir ætli að sjá til, kannski verður það hægt. Mér fannst þeir virka nokkuð vongóðir, svona hvernig þeir töluðu, þeir Skúli Tómas og yfirlæknirinn. En þeir neita að gefa henni næringu og vökva.

Ólafía og Linda á góðum degi.
Ljósmynd: Aðsend

Eftir lyfjameðferðina var hún mjög þjáð en þeir eru ekkert að gefa henni næringu eða vökva. Við þurftum að biðja um það. Fyrst var ekki mikið um svör en svo er okkur sagt að vökvinn myndi bara setjast utan á líffærin hennar. Og við vorum bara „Ha? ok“. En svo heimtuðum við bara að hún fengi næringu og afi kallaði annað hvort Skúla eða yfirlæknirinn, morðingja, að hann væri að drepa hana með því að gefa henni ekki næringu.“ Eftir tvo daga fór Ólafíu að líða aðeins betur og gat borðað smá sjálf. „En þrátt fyrir það að henni leið orðið betur gáfu þeir henni ekki næringu og vökva í æð. Hún fékk bara morfín,“ sagði Linda Rós og hélt áfram: „Í rauninni sveltur hún til dauða á níu dögum. Hún hætti að geta borðað aftur en þeir neituðu að gefa henni næringu og vökva í æð. Þeir héldu henni eiginlega sofandi bara frá fyrsta degi.“

- Auglýsing -

Blaðamaður Mannlífs: En hvernig voru læknarnir í viðmóti? Var erfitt að fá upplýsingar frá þeim og þurftuð þið að ganga á eftir því?

Linda Rós: „Við erum mörg systkynin, við erum fimm, plús einn stjúpbróðir og það var alltaf talað við sitthvort okkar og við látin bera upplýsingar óformlega á milli okkar skilurðu? Og við rifumst alveg stundum. Sumir vildu að hún fengi næringu í æð en ég vildi til dæmis hlusta á læknana því ég hélt að þeir vissu hvað þeir væru að segja.“ Eiginmaður Ólafíar er heyrnarlaus en hann fékk aldrei túlk þegar upplýsingar bárust um meðferð og líðan Ólafíar. „Maðurinn hennar mömmu er heyrnarlaus en hann fékk aldrei túlk. Og ég bað um það tvisvar en hann fékk ekki túlk. Og þar sem hann heyrði ekki í hrygluhljóðinu í mömmu, áttaði hann sig ekki alveg á ástandinu, hann hélt að hún væri bara í hvíld. Þannig að þegar hún dó, var það rosalega áfall fyrir hann.“

Sjúkraskýrslan stenst ekki skoðun

- Auglýsing -

Linda segir að þegar þau hafi séð Evu Hauksdóttur, sem er dóttir eins af meintum fórnarlömbum dr. Skúla, tala um málið í fjölmiðlum, hafi þau ákveðið að biðja um sjúkarskýrsluna frá HSS. „Þá eru þeir að ljúga í sjúkraskýrslunni. Þeir sem sagt setja hana á líknameðferð á degi tvö og í sjúkraskýrslunni er spurt við hvern er talað varðandi það en þar stóð bara „óskráð.“ Af því að við vorum aldrei látin vita. Svo stendur líka í sjúkraskýrslunni að það hafi verið haldnir margir fjölskyldufundir og að allir hafi verið rosa sáttir. En ég meina, það var enginn sáttur.“

Aðspurð um kveðjustundina segir Linda að þau hefðu ekki náð að kveðja hana. „Okkur var bara sagt að hún hefði óskað eftir því að vera haldið sofandi en hún hafði aldrei sagt okkur frá því.“

Kærði greiningarferlið

Linda segir ómögulegt að vita hvað móðir hennar hefði getað lifað lengi með krabbameininu en að læknarnir sem sáu um hana á HSS hefðu klárlega flýtt fyrir andláti hennar. En þau systkinin eru líka ósátt við greiningarferlið. „Ég kærði greiningarferlið. Af því að í janúar fer hún til einhvers læknanema og fór fastandi í blóðprufu hjá honum, sem sýndi hækkandi blóðsykur,“ sagði Linda en þarna var móðir hennar sárþjáð og leitaði því til lækna, óafvitandi að hún væri komin með krabbamein. „En í staðinn fyrir að rannsaka þetta betur er henni sagt að vinna með einföldum kolvetnum og fara í göngutúra. Og þetta stendur í læknaskýrslunni. Hún þurfti að berjast fyrir því að krabbameinið yrði greint, ég held hún hafi bara farið sjálf í Domus Medica og beðið um myndatöku. En svo hverfa tvær til þrjár vikur úr læknaskýrslunni. Það vantar að það hafi komið í ljós að hún væri með krabbamein í júní og þangað til hún hefur lyfjameðferðina. Og hún sagði okkur að læknarnir sem hún leitaði til á HSS, hefðu verið með tárin í augunum þegar þeir voru að segja henni frá krabbameininu, af því að þeir vissu upp á sig sökina. Þannig að það var ekki bara þessi líknandi meðferð sem okkur var ekki greint frá eða útskýrt heldur var það líka greiningarferlið sem við erum ósatt við. Hún fór til Domus Medica sem svo sendu niðurstöðurnar til Keflavíkur en læknarnir á HSS hringja ekki í hana og segja henni frá niðurstöðunum. Hún ákvað að hringja bara að sjálfsdáðum á sjúkrahúsið á Akranesi og biðja þá um niðurstöðurnar. Þeir sögðu henni að fara beint á bráðamóttökuna. Og þetta stendur allt í sjúkraskránni.“

Reið og sár

Fjölskyldan er auðvitað afar ósátt með meðferðina á Ólafíu en Linda segir að þetta hafi haft gríðarleg áhrifa á þau öll. „Við upplifðum öll alvarlega áfallasteituröskun. Sum okkar misstu vinnuna, bróðir minn fór í Virk og maðurinn hennar mömmu fór í hjartaaðgerð tveimur mánuðum eftir andlátið. En við vorum ekkert að fatta þetta strax, okkur leið skringilega með þetta og vorum að spá í að fá sjúkraskýrsluna en gerðum aldrei neitt í því fyrr en Eva kom fram í fréttum.“

Manneskjan á bak við tölfræðina

Nafn Ólafíu er nú í rannsóknarskýrslum um manndrápsrannsókn lögreglunnar ásamt átta öðrum nöfnum en hvaða manneskja er á bakvið nafnið?

„Hún var bara ótrúlega ljúf og sterk. Hún átti blómabúðina í Glæsibæ, Dalíu og var með hana í 10 ár og vann alla daga þar ein, frá níu til sex, sjö á kvöldin. Þannig að hún var harðdugleg en hún var samt öryrki. Hún var dugleg að tala við fólk sem aðrir nenntu ekki að tala við, gaf þeim alltaf tíma, var góð við þau og þekkti þau öll með nafni og gaf þeim sígó, skilurðu? Hún var sem sagt með stórt hjarta og var ótrúlega listræn, bæði í blómabúðinni og að gera málverk og teikningar. Hún teiknaði listaverk á gler. Hún eignaðist sex börn en eitt þeirra dó úr heilahimnubólgu 9 mánaða gamalt.“

Linda Rós sagði að lokum að móður hennar sé afar sárt saknað af fjölskyldu og vinum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -