„Innrás Rússa í Úkraínu hefur staðið yfir í átta ár en enginn var tilbúinn undir slíkt alhliða hryðjuverk,“ segir Iana Rachenco, úkraínsk kona sem nýkomin er til landsins. „Í tvo til þrjá mánuði var rætt um „viðvörunartöskuna“ en við tókum það ekki alvarlega,“ segir hún en Úkraínumenn voru hvattir til að hafa nauðsynjar í tösku ef til átaka kæmi. „Fyrir okkur er þetta áfall og viðbjóðsleg innrás og við fylltumst hatri og fyrirlitningu. Við erum ótrúlega stolt af hernum okkar; mönnunum sem verja landið okkar á svo óeigingjarnan hátt. Við vissum um ofurhetjur í kvikmyndum en núna höfum við séð þær í raunveruleikanum.“
Daginn sem stríðið hófst var Iana í Bukovel sem er skíðasvæði í Karpatafjöllum. Þar voru hernaðarviðvaranir og útgöngubann en hún segir þó engar sprengjur hafa fallið.
Rússar sprengdu flugvöllinn í loft upp, engar lestarferðir voru og skotið var á bíla.
„Ég trúði því ekki þegar ég frétti af innrás Rússa. Mamma var ein í Kyiv og það var skelfilegt fyrir hana. Það var heldur ekki hægt að snúa heim, en ég bý í Kyiv, af því að Rússar sprengdu flugvöllinn í loft upp, engar lestarferðir voru og skotið var á bíla. Margir Úkraínumenn yfirgáfu heimili sín og stóðu jafnvel í fjóra til fimm daga við landamærin með lítil börn og gæludýr. Síðan voru skipulagðar lestarferðir sem þúsundir flóttafólks nýttu sér og þannig gat mamma komist til vesturhluta Úkraínu. Ég hitti hana í Lviv og við tókum rútu til Varsjár. Ferðin tók um níu klukkutíma og var fólk snortið yfir því hve Pólverjar tóku vel á móti því. Það voru sjálfboðaliðar á járnbrautarstöðvunum og þar var allt sem fólk þurfti á að halda svo sem matur, föt, skór, búsáhöld og jafnvel barnavagnar. Þá var þar húsnæði þar sem fólk gat gist og þar var boðið upp á mat og fólk gat farið í sturtu. Það er mjög erfitt að finna gistingu í Póllandi vegna þess hve margir Úkraínumenn hafa flúið þangað. Eftir því sem ég best veit voru sumir Úkraínumenn ekki með vegabréf en þeim var þó ekki meinað að fara yfir landamærin og þess má geta að þeir fengu að hafa gæludýrin sín með sér án þess að hafa viðeigiandi vottorð með þeim. Mér tókst að bóka með fyrirvara hótelherbergi í Varsjá en við mamma höfðum pantað flug til Íslands þar sem systir mín býr og þegar við komum til Íslands var fimm daga ferðalagi okkar lokið.“
Munum ekki fyrirgefa
Tilfinningarússíbani. Tilfinningarússíbani undanfarnar vikur.
„Ég hélt fyrstu klukkustundirnar eftir að ég vissi af innrás Rússa að þetta væri misskilningur. Hvernig er þetta hægt í nútímaheimi og í Evrópu? Svo breyttist þetta í ótta. Ótta tengdum móður minni sem var ein í Kyiv. Hræðsla við að missa allt: Heimilið, lífið – ekki bara lífið sjálft heldur líka venjulega lífshætti – og svo var það hræðsla tengd landinu. Ég myndi ekki geta lifað ef Úkraína yrði hluti af Rússlandi. Við höfum öll misst tímaskynið. Við vissum ekki hvaða dagur var. Við vissum bara að um var að ræða fimmta dag stríðsins,“ segir Iana sem segist lítið hafa sofið fyrstu vikuna eftir að Rússar réðust inn í landið.
Þetta er ekki stríð – þetta er hryðjuverk. Þjóðarmorð.
Svo fór hún að finna fyrir hatri sem hún var þegar búin að minnast á. Hatri gagnvart þeim sem réðust inn í landið. „Þeir stálu vorinu okkar; vorið kom og við tókum ekki einu sinni eftir því. Þeir jöfnuðu borgir okkar við jörðu, eyðilögðu innviði og ollu hamförum af mannavöldum. Þetta er ekki stríð – þetta er hryðjuverk. Þjóðarmorð. Og vandræðin eru ekki bara einn valdhafi heldur öll þjóðin sem framkvæmir blóðugar skipanir með miklum innblæstri: Stundar áróður, varpar sprengjum á leikskóla, sjúkrahús, íbúðarhverfi … Það er óskiljanlegt að sjá hlaupandi konu með börn í leit að aðstoð og skjóta þau. Til hvers? Eða semja um „grænan gang“, eða „mannúðarhlið“, með aðkomu Rauða krossins og að skjóta á fólk á meðan á brottflutningi stendur. Fólk fær hvorki vatn né mat. Þetta er ómannúðlegt. Við getum aldrei gleymt og fyrirgefið.“
Þegar Iana er spurð hvað sé það hræðilegasta sem hún upplifði á þessum tíma segir hún það vera að vita af móður sinni í Kyiv. „Mér leið aðeins betur eftir að við hittumst í Lviv.“ Svo var það að fylgjast með fréttum og sjá ástandið í landinu: Rústir bygginga og húsa og slasað og látið fólk. „Ég horfði en trúði ekki því sem ég sá. Við fréttum svo af andláti náins vinar föður míns en rússneskir hermenn skutu á bíl hans þegar hann var að aka út úr Kyiv.“
Tómarúm
Systir Iana, Júlía, hefur búið á Íslandi um árabil og fengu þær mæðgur hlýlegar móttökur þegar þær lentu á Íslandi. Það var ekki mikið sem Iana tók með sér; hún segist einungis hafa tekið með sér það sem hún hefði þurft miðað við vikufrí á Íslandi.
„Við höfum hitt mjög gott og samúðarfullt fólk á Íslandi. Allar aðgerðir varðandi móttöku okkar og annarra Úkraínumanna hafa verið skipulagðar á bestan mögulegan hátt: Engar biðraðir, túlkar hafa verið útvegaðir og stuðningur í formi dvalarstaða, peningagreiðslna og jafnvel áskrift í World Class í þrjá mánuði. Við vorum ótrúlega snortnar af hjálp eiganda íþróttavöruverslunarinnar Altis, Tedda, sem útvegaði mér og mömmu föt og skó til íþróttaiðkunar ókeypis. Ég hef aldrei áður upplifað jafnóeigingjarnan stuðning. Ég tárast yfir þessu.“
Allir draumar mínir snúast aðeins um skjót endalok stríðsins.
Hvað er svo fram undan? „Við vitum það ekki. Þetta er eins og tómarúm í höfðinu á mér og ég hef ekki styrk til að skipuleggja neitt. Allir draumar mínir snúast aðeins um skjót endalok stríðsins.“
Höfum elst um 10 ár
Iana segir að ef litið sé á Rússland sem konu þá sé hún hrokafull og klædd fölskum vörumerkjum og er ómenntuð og án menningar. „Kona sem elskar ekki börnin sín.“
Hversu langt heldur Iana að Pútín gangi? „Planið var að ná Kyiv eftir þrjá daga. Hann reiknaði ekki út styrk andspyrnu almennra borgara, hers og ríkisstjórnar. Enginn beið þeirra með „frelsisaðgerð“. Við komum saman og verjum landið okkar. Þeir áttu enga möguleika á sigri. Ef NATO hefði heyrt í okkur og lokað himninum hefðum við getað forðast dauða barna, óbreyttra borgara og eyðileggingu borga allt að 90% svo sem Bucha, Irpin, Kharkov og Mariupol. Þetta er sársauki okkar og sorg sem við munum nú þurfa að lifa með.“
Hvað með tal um kjarnorkuvopn? Tsjernobyl-yfirtökuna?
„Áður en hann framkvæmir slíka skipun sem höfðingi sem hefur misst vitið verður hann að fara í gegnum marga tengla. Ég trúi því að jafnvel í svona týndu landi muni vera manneskja sem mun muna eftir börnum sínum og mun ekki leyfa þetta.“
Þeir berjast aldrei eins og menn.
Iana er spurð um sýn sína varðandi rússnesk stjórnvöld.
„Allur mikilfengleiki þeirra er sprungin sápukúla. Þeir réðust grimmilega á Úkraínu og berjast á sama hátt. Þeir berjast aldrei eins og menn. Kostur þeirra er eingöngu tæknilegur en þeir nota eldflaugar og annan gereyðingarbúnað gegn almennum borgurum og jafna borgir okkar við jörðu. Eins og forseti okkar benti réttilega á: „Þeir fjárfestu í dauða á meðan allur heimurinn fjárfesti í lífinu.“
Ég er þakklát alþjóðasamfélaginu fyrir hjálpina, ráðstafanir og refsiaðgerðir gegn hryðjuverkaríkinu. En börnin okkar eru munaðarlaus og hafa ekki þak yfir höfuðið og Rússar hafa áhyggjur af því að þeir hafi slökkt á Instagram og SWIFT. Hvað get ég sagt? Þetta stríð hefur verið okkur dýrt. Ég veit ekki hver væri nægileg refsing fyrir hryllinginn sem við höfum upplifað þeirra vegna og fyrir börn sem hafa fæðst í kjöllurum í sprengiregni. Ég vil að Rússar skammist sín fyrir ríkisborgararétt sinn því þetta gerðist allt með þegjandi samþykki þeirra. Ég er þakklát hernum okkar fyrir hugrekki hans, ég er þakklát forseta okkar fyrir endalausar tilraunir til að ná til alþjóðasamfélagsins og ég er þakklát hverjum Úkraínumanni sem leggur líf sitt í hættu við að berjast við elda, við að grípa til rýmingar og koma fólki í öruggt skjól, ég er þakklát læknum fyrir að vinna vinnu sína í sprengiregni, þeim sem elda mat fyrir aðra og styðja Úkraínumenn fjárhagslega og biðja fyrir sigri okkar. Þetta fólk eru hetjurnar okkar. Dýrð sé Úkraínu!“
Þetta var skelfilegt
Móðir Iana og Júlíu, Inna, er hjúkrunarfræðingur og vann á árunum 1985-2000 á gjörgæsludeild á sjúkrahúsi í Kyiv en síðan hefur hún unnið á tannlæknastofu. Eins og þegar hefur komið fram var hún í Kyiv þegar stríðið hófst. Hún segist hafa fengið SMS frá samstarfskonu sinni þar sem stóð að stríð væri hafið en sú kona bjó nálægt Boryspil-flugvelli. „Ég gat ekki trúað þessu; ég dofnaði upp. Ég kveikti á sjónvarpinu og þá fór þetta að renna upp fyrir mér en vissi ekki hvað ég ætti að gera en ég fór nýlega í aðgerð á hné og er ekki búin að ná mér að fullu. Ég gerði mér grein fyrir að ég gæti ekkert farið.“
Inna var heima hjá sér þegar hún heyrði fyrstu sprenginguna. Hún leit út um glugga og sá fólk hlaupa út til að leita skjóls ef sprengja félli á blokkina.
Við heyrðum minna í sprengingunum í kjallaranum.
„Ég vissi ekki hvert ég átti að fara. Fólk hljóp út á götu til að flýja í kjallara í nágrenninu. Ég fór líka út og elti það. Þetta var skelfilegt.“ Inna komst niður í kjallara heilsugæslustöðvar en það tók hana um fimm mínútur að ganga þangað. Og hún brast í grát vegna þess sem hún hafði séð. „Þarna voru mörg börn, gamalt fólk og gæludýr. Við heyrðum minna í sprengingunum í kjallaranum. Það var sérstaklega erfitt að vera þar á kvöldin; það var erfitt að sitja á stól alla nóttina og það var allt mjög skítugt.“
Inna var stundum á nóttunni heima hjá sér og segist hún þá hafa setið á klósettinu allan tímann og las um það sem var að gerast.
„Ég gat hvorki borðað né sofið fyrstu vikuna. Ég vildi það ekki. Við vorum beðin um að halda okkur við útgöngubannið og fara ekki út og ekki kveikja á ljósum. Það var skelfilegt þegar myrkrið skall á. Ég þurfti að fara í verslun viku eftir að stríðið skall á og það var ekki einu sinni til brauð. Hillur verslunarinnar voru tómar. Ég var ekki hrædd um sjálfa mig heldur um börn og gæludýr. Hvernig átti að fæða þau? Hversu lengi gæti fólk lifað við ómannúðlegar aðstæður og við endalausan ótta við sprengjur?“
Inna komst svo út úr Kyiv og tók þaðan lest til Póllands en hún hafði áður hitt Iana sem hafði verið í skíðaferðalagi eins og þegar hefur komið fram.
Þær mæðgur eru tvær af þeim rúmlega 500 Úkraínumönnum sem hafa þegar þetta er skrifað í lok mars sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá áramótum.