Afmælisbarn dagsins er rithöfundurinn, ljóðskáldið og þýðandinn Gyrðir Elíasson. Fæddist hann á þessum degi árið 1961, sem gerir hann 61 árs.
Gyrðir gaf út fyrstu ljóðabók sína, Svarthvít axlarbönd árið 1983 og hefur síðan gefið út um 20 ljóðabækur. Það var hins vegar þegar fyrsta skáldsaga hans, Gangandi íkorni kom út árið 1987, sem Gyrðir sló rækilega í gegn. Er hann með duglegri höfundum landsins en eftir hann liggja tugir bóka, bæði þýddar og frumsamdar. Þykir Gyrðir góður stílisti og skáldsögur hans ljóðrænar en margar þeirra hafa verið gefnar út í öðrum löndum. Hafa verk hans hlotið fjöldi verðlauna í gegnum árin og er hann í flokki allra virtustu rithöfunda landsins.
Á heimasíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta má finna viðtal sem Sagenhaftes Island tók við Gyrði. Þar er hann meðal annars spurður út í það hvort umhverfið skipti máli við skrifin en spyrlinum þótti skrítið að Gyrðir gæti samið í borgarniðnum í Grafarvoginum.
„Já, það hefur nú gert það. Yfirleitt er kveikjan eða frumhugmyndin komin til annars staðar frá, utan borgarmarka. Grunnhugmynd að sögu eða ljóði getur orðið til að sumarlagi í náttúrunni eða einhvers staðar fjarri, þó maður svo fullvinni hlutina heima hjá sér í borginni. Það hefur einhvern veginn alltaf verið þannig með mig að umhverfið hefur skipt mig máli á þennan hátt. Ég sæki oftast bein áhrif út fyrir þéttbýlið. Þó að vísu það gerist að ég skrifi um borgarlandslagið, þá er það annars eðlis, önnur nálgun,“ svaraði Gyrðir.
Mannlíf óskar Gyrði innilega til lukku með daginn!