Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sendi frá sér tilkynningu á Facebook-síðu sinni nú rétt í þessu.
Í tilkynningunni biðst Sigurður Ingi afsökunar á rasískum ummælum sem hann er sagður hafa látið falla um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Þar hafi hann vísað til hennar sem „hinnar svörtu“ í gleðskap, sem haldinn var í tilefni af Búnaðarþingi í lok síðustu viku. Þessu var greint frá á vef DV. Þar kom einnig fram að Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður Sigurðar Inga, hafi þvertekið fyrir það að nokkuð slíkt hafi átt sér stað.
„Ég er alinn upp við það og það er mín lífsskoðun að allir séu jafnir,“ segir Sigurður Ingi í tilkynningu sinni. „Þess vegna hef ég tamið mér að koma jafnt fram við alla. En mér verður á eins og öðrum. Það þykir mér miður. Í kvöldverðarboði Framsóknar fyrir fulltrúa á Búnaðarþingi síðastliðið fimmtudagskvöld, lét ég óviðurkvæmileg orð falla í garð framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Á þeim orðum biðst ég innilegrar afsökunar. Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“