Sá síungi töffari, Andrea Jónsdóttir, útvarpskona og plötusnúður á afmæli í dag. Telja árin nú 73 ár.
Andrea Jónsdóttir, sem oft er titluð „rokk-amma Íslands“ byrjaði útvarpsferil sinn á Rás tvö 1970 þar sem hún stjórnaði þættinum Á nótum æskunnar ásamt Pétri Steingrímssyn en svo tók hún sér hlé og fór að vinna sem prófarkalesari á Þjóðviljanum 1972 en þar var hún í meira en áratug. Hóf hún aftur störf á Rás 2 árið 1984 með sinn eigin þátt og hefur hún unnið í útvarpinu síðan með hina ýmsu þætti. Nú um stundir er hún með þáttinn Pressan á sunnudögum. Þá hefur Andrea einnig verið plötusnúður á Dillon hverja einustu helgi síðustu 25 árin, að Covid-lokunum frátöldum.
Andrea hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 2018 fyrir framlag sitt til kynningar á íslenskri og erlendri dægurtónlist.
Mannlíf hringdi í hvíthærða töffarann og spurði hana hvort og þá hvernig hún ætlaði að halda upp á afmælið.
„Börnin mín ætla að bjóða mér út að borða. Þannig að það er varla hægt að segja að ég ætli að halda upp á það eins og hefur reyndar verið gert mjög oft á minni ævi, þá er ég látin halda upp á afmæli,“ svaraði Andrea og hló. „Eða þá að mér er boðið í eigið afmæli, sem er mjög þægilegt.“
Aðspurð um það hvort hún hafi annars ekki nóg fyrir stafni þessa dagana sagði Andrea svo vera. „Jú, ég vinn svona smá í útvarpinu og svo DJ um helgar þannig að þetta er mjög pent og huggulegt fyrir eldri borgara,“ svaraði Andrea og sagði það gott að vera komin aftur á kreik eftir Covid-lokanirnar. „Jú, það er voða fínt sko, þetta var erfitt þarna, þetta ár sem allt var lokað en þetta var sjálfsagt verra hjá mörgum en mér.“
Mannlíf óskar afmælisbarninu síunga innilega til hamingju með daginn!