Sóley Tómasdótir, stofnandi Just Consulting og fyrrverandi borgarfulltrúi, ræðir um mál Sigurður Inga Jóhannsson, innviðarráðherra og Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna. Sóley segir í hugleiðingum sínum á síðu sinni að:
„Framkoma Sigurðar Inga Jóhannssonar á Búnaðarþingi í síðustu viku hafi verið óviðeigandi og særandi, en mjög gott dæmi um öráreiti. Atburðarrás persóna og leikenda er um það bil svona, í mjög einfaldaðri mynd:
- Sigurður Ingi vísar til framkvæmdastjóra Bændasamtakanna sem „þeirrar svörtu“ á skemmtun Búnaðarþings.
- Framkvæmdastjóri Bændasamtakanna fjallar um framkomuna á opinberum vettvangi og lýsir þeim sem dæmi um dulda fordóma sem grassera í samfélaginu.
- Aðstoðarmaður ráðherra þvertekur fyrir ummælin og segir málið vera „algert bull“.
- Sigurður Ingi sendir frá sér afsökunarbeiðni en neitar að ræða málið frekar.
- Brynja Dan, varaþingmaður Framsóknarflokksins sem ættleidd er frá Sri Lanka, segist ekki hafa upplifað rasisma innan flokksins.
Ummæli Sigurðar Inga féllu við aðstæður sem eiga sér sögu um karllæga stemningu, drykkju og hömluleysi sem hefur viðgengist í trausti þess að ekkert spyrjist út. Aðstæður sem minna á klefamenningu, menningu sem viðgengst innan hópa sem leyfa ómeðvituðu hlutdrægninni að stýra hegðun sinni, orðum og gjörðum. Þar sem óviðeigandi hegðun er samþykkt sem „einkahúmor.“
Viðbrögð aðstoðarmanns Sigurðar eru dæmigerð fyrir fyrsta og annað stig sjálfvirkra varnarviðbragða. Eitthvað sem er eðlilegt að fljúgi í gegnum huga fólks þegar því er bent á óviðeigandi framkomu en fólk ætti að melta og komast yfir áður en það svarar fyrir slíkt. Viðbrögðin virkuðu sem gaslýsing og gerðu ekkert annað en auka á vanlíðan þolandans.
Að lokum telur Sóley; „að framkoma formannsins og viðbrögð flokksins vekja því miður ekki mikla von. Flokkur sem hefur byggt stefnu sína í gegnum tímans rás á íslenskum landbúnaði, íslenskri menningu og sveitarómantík þarf að gæta hófs og vera meðvitaður um mörkin milli þjóðrækni og þjóðernishyggju. Við þurfum öll, sem einstaklingar sem höfum alist upp í einsleitu samfélagi hvíts fólks að vera meðvituð um það sama. Við þurfum að forðast klefamenningu, koma fram af virðingu við fólk, horfast í augu við eigin mistök, átta okkur á þeim áhrifum sem þau hafa, læra af þeim og leggja okkur fram um að bæta okkur. Þannig getum við stuðlað að betra samfélagi fyrir okkur öll.“