Gestur Sjóarans að þessu sinni er Guðmundur Guðmundsson, eða Gummi Fríðu eins og hann er betur þekktur.
Árið 1983 lenti Guðmundur í ævintýralegum sjávarháska á leiðinni í land eftir fiskerí við Öndverðarnes. Um borð voru faðir hans sem var skipstjóri, bróðir hans sem var stýrimaður og svo vinur hans, Ómar. Hann var þá kokkur og var í gallanum í messanum þegar þeir sigldu á sker ekki fjarri Hellissandi í kolniða myrkri og hríðarveðri. Hann var í óða önn að vaska upp þegar skyndilega kom högg og vaskurinn hvarf.
Hann skilur enn ekki hvernig hann slapp „ég náði að skutla mér upp stigann og komst upp á dekk og báturinn var mölbrotinn að framan. Þegar ég kem upp á dekkið reyni ég að komast úr gallanum og það tók að mér fannst langan tíma. Ég sá þá að brúin var komin í kaf og hljóp að hlunningunni. Alveg ótrúlegt að maður hafi ekki dottið í sjóinn þá.“
Hann fór þá að skimast um eftir öðrum í áhöfninni og upp komu bróðir hans og Ómar en hann sá föður þeirra hvergi. Hann fór þá að leita leiða til að komast upp á skerið og eina leiðin sem hann sá var að tímasetja stökkið frá bátnum eftir því hvenær mastrið skall á skerinu. „Það var mikill öldugangur og mikið sog þannig að ég fór að telja þegar báturinn small á skerið með mastrið. Og svo bara taldi ég og svo tók ég bara sénsinn, hljóp eftir mastrinu og komst upp á skerið. Ég blotnaði ekki!“
Bróðir hans datt svo fyrir borð en sem betur fer lenti hann stjórnborðsmegin. Hefði hann lent á bakborða hefði öldugangurinn og sogið sennilega tekið hann. Honum tókst að synda að skerinu og klifra upp skerið á þaranum. Í kjölfarið féll félagi hans svo í sjóinn en bróður hans tókst að ná taki á hárinu á honum og draga hann upp. Þá var bara faðir hans eftir „þegar hann loksins komst út úr stýrishúsinu var hann orðinn örmagna, dettur beint í sjóinn og flækist í netinu. Það var ótrúlegt að horfa upp á þetta, hann skall svona tíu sinnum í klettinn. Hann var orðinn marinn og blár og allur blóðugur þegar að slitnar allt í einu frá nótinni, fer með soginu undir og fer hinumegin við skipið og við héldum bara að hann væri farinn en þá kemur hann allt í einu þar sem stefnið er. Bróðir minn sér hann, nær taki og dregur hann upp.“
Enn ein ótrúleg lukkan varð þegar björgunarbáturinn kom siglandi upp skerið sem varð til þess að þegar björgunaraðilarnir komu á svæðið gátu þeir skotið línu til þeirra, þeir gátu þá blásið bátinn upp og svo ferjaðir í var einn af öðrum.