Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Olga Druyanova: „Við berjumst til að stöðva útbreiðslu krabbameins alræðis yfir til Vesturlanda“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég virkaði róleg út á við, en líkami minn sýndi streitumerki jafnvel þótt ég viðurkenndi það ekki. Ég gat ekki sofið í meira en tvo tíma á sólarhring, ég borðaði næstum ekki neitt og ég var með skjálfta í handleggjum og fótum,“ segir Olga Druyanova, úkraínsk kona sem kom hingað til lands eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

Olga segir að hún sé ekki týpa sem gráti og sýni sorg og hræðslu. „Ef upp koma vandamál þá einbeiti ég mér að lausninni. Vandamálið í þessu tilviki er stríð sem kom inn í líf mitt þannig að ég leitaði að upplýsingum varðandi það hvað ég gæti gert í framhaldinu og hvort eitthvað benti til þess að stríðið myndi ekki standa lengi yfir. Það virkaði þannig fyrstu vikurnar. Ég reyndi einnig sjálf að gera það besta úr hlutunum. Þar sem ég vann sem sérfræðingur í upplýsingatækni fylgdist ég meðal annars með spjallsíðum á svæðinu, fylgdist með upplýsingum og hjálpaði fólki við að komast í samband við rétta aðila varðandi brottflutning.“

Olga segir að það hafi verið sársaukafullt að sjá rústir bygginga.

Olga segist ekki hafa séð sært eða látið fólk með berum augum, en hún fylgdist með fjölmiðlum og sá þar myndir af látnu fólki í borginni sem hún bjó í, Kharkiv, sem rússneskir hermenn höfðu skotið þegar það stóð í biðröð og var að bíða eftir matarúthlutunum.

Olga segir að það hafi verið sársaukafullt að sjá rústir bygginga sem voru svartar eftir eldtungurnar sem höfðu gleypt þær eftir sprengjur Rússa. „Stuttu áður hafði ég gengið þarna um götur og farið á kaffihús og veitingahús og hitt vini mína.“

Olga segist hafa heyrt um mögulega innrás rússneskra hersveita nokkrum vikum áður en stríðið hófst, en hún hélt að það kæmi aldrei til þess. Hún var á Íslandi í janúar og febrúar og segir að vinir hennar hefðu ráðlagt henni að fara ekki aftur til Úkraínu fyrr en kvitturinn um mögulega innrás væri liðinn hjá. Hún fór hins vegar til Úkraínu 21. febrúar – þremur dögum áður en stríðið hófst.“

 

- Auglýsing -

Góðvild fólks á Íslandi

Og Olga ákvað að yfirgefa borgina.

„Þegar ég var að fara frá Kharkiv varð ég að komast á járnbrautarstöð til að komast svo í lest sem færi með flóttafólk til Lviv. Rússneskir hermenn fóru suma daga inn fyrir varnarlínuna og upphófust þá bardagar á götum úti og þá var hættulegt að fara úr sprengjuskýlunum. Ég beið eftir tækifæri til að geta tekið leigubíl að járnbrautarstöðinni; almenningssamgöngur voru úr skorðum, en ég bjó ein með syni mínum og á ekki bíl.“

Fólk sat og svaf líka á gólfi lestarinnar.

- Auglýsing -

Það kom að því að Olga og sonur hennar komust á lestarstöðina og tóku lest til Lviv. Lestin var full af fólki og í fjögurra manna svefnklefanum sem þau voru í, voru 10 manns og köttur. Fólk sat og svaf líka á gólfi lestarinnar meðan á ferðinni stóð, u.þ.b. 22 tíma.

Golda Druyanova
Mæðginin stuttu áður en þau fóru í lestina áleiðis til Póllands.

Olga keypti rútumiða til Varsjár í Póllandi og loks sátu þau mæðginin í rútu og þegar þangað var komið dvöldu þau í nokkra daga á heimili pólskrar fjölskyldu í Varsjá. Ísland var þó lokaákvörðunarstaðurinn, en Olga hafði áður komið til Íslands.

Olga segist hafa undirbúið son sinn fyrir ferðina til Íslands. Hún sagði við hann að núna væru þau orðnir hælisleitendur og að þau myndu ekki búa á eins fallegu og hlýlegu heimili eins og þau áttu í Kharkiv. Þau gætu átt von á að þurfa að búa hvar sem er á Íslandi þar sem þau fengju inni og að þau fengju lágmarksnauðsynjar svo sem mat og föt, en að þau þyrftu að láta sér það nægja þangað til þau hefðu efni á meiru. „Ég tók með mér pening sem ég hafði safnað til að geta keypt mat til að byrja með. Ég tók fleiri nauðsynjar með mér, svo sem lyf og föt sem henta íslenskri veðráttu. Ég hugsaði með mér að við gætum séð fyrir okkur sjálf og að enginn þyrfti að hjálpa okkur.“

Íslendingar hafa tekið okkur með mikilli hlýju og hjálpað okkur með margt.

Olga segist ekki hafa búist við svona mikill aðstoð eins og þau mæðgin fengu eftir komuna til Íslands. „Íslendingar hafa tekið okkur með mikilli hlýju og hjálpað okkur með margt. Ég grét ekki vegna stríðsins, en þetta snart mig og ég grét næstum því vegna þessa.“

Golda Druyanova

Við berjumst fyrir tjáningarfrelsi

Ástandið í Kharkiv hefur versnað mikið og segir Olga að nú sé borgin eitt helsta skotmarkið. „Það er búið að eyðileggja um 1.500 byggingar í borginni. Opinberir starfsmenn borgarinnar eru hetjur, en þeir sjá til þess að íbúar fái til dæmis heitt vatn og rafmagn. Þeir vinna stanslaust í þessum aðstæðum við að gera við skemmdar lagnir og víra og fjarlægja grjótmulning úr húsarústum.“

Foreldrar og bróðir Olgu eru enn í Kharkiv og ætla þau að fara í þorp nokkurt þar sem öruggara er að vera. „Þau eru mjög hrædd af því að sprengjum er varpað í nágrenninu og ég bið þess að þau komist í þorpið heilu og höldnu.“

Olga fæddist í Sovétríkjunum og hún segist hafa alist upp í umhverfi þar sem Rússar voru sagðir „bræðraþjóð“, „besti vinur“ og jafnframt „leiðtogi bræðralýðveldisbandalags“. Ég á ættingja í Rússlandi. Þá bjó ég í austurhluta Úkraínu þar sem stór hluti þjóðarinnar talar rússnesku og móðurmál mitt er rússneska. Núna er það „móðir“ tungumáls okkar sem er að drepa okkur.

Úkraína er síðasta hindrun þessa hættulega samfélagssjúkdóms.

Við berjumst núna fyrir landinu okkar og frelsi og þar af frelsi til að tala hvaða tungumál sem við viljum tala og við berjumst fyrir rétti okkar til að segja hvað sem okkur býr í huga, en ekki bara segja það sem er leyft að segja; við berjumst fyrir tjáningarfrelsi. Við berjumst fyrir frelsi og lýðræðislegum gildum sem eru ekki leyfileg í Rússlandi. Við berjumst ekki bara fyrir okkur sjálf. Við berjumst til að stöðva útbreiðslu krabbameins alræðis yfir til Vesturlanda. Úkraína er síðasta hindrun þessa hættulega samfélagssjúkdóms.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -