Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Finnbogi keypti sér sjoppu: „Ég vissi um hverja einustu kerlingu sem var að skilja í Fossvoginum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Finnbogi Þorláksson, fyrrverandi togarskipstjóri, býr í dag á La Marina á Spáni. Hann og kona hans, Katrín Eiðsdóttir hafa búiið þar í nokkur ár og eru nýbúin að kaupa sér fallegt hús. Finnbogi ræddi málin í viðtali við Sjóarann.

„Það var nú meiri helvítis vitleysan,“ segir sjómaðurinn og aflaskipstjórinn fyrrverandi Finnbogi Þorláksson um það þegar hann var á Björgúlfi EA og þeir lentu í háska í hafís við Horn. „Ísinn var á svo mikilli ferð að það lokaðist upp í fjöru á eftir okkur. Við skriðum með fjörunni fram og til baka.“

Var hann smeykur?

„Nei, ég hef aldrei verið smeykur til sjós.

Við vorum bara að reyna að komast til Dalvíkur fyrir jól. Við snerum við á Hornvíkinni. Fiskurinn varð að komast norður. Við lönduðum í Reykjavík og svo var trukkað norður. Síðan sigldum við austur fyrir land til að komast á Dalvík.“

Finnbogi var stýrimaður í þessum túr og segir að þeir hafi verið með eitthvað gamalt radardrasl sem hafi nú sést lítið í. „Óli Bekkur var með okkur. Ari var með Óla Bekk. Svo þegar birti og karlarnir vöknuðu þá klifraði Ari upp í mastur. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekkert vit í þessu. Það broslega við þetta allt saman er að það var skítabræla fyrir austan; að berjast þara norður með Austfjörðunum. Við vorum ekki komnir til Dalvíkur og þá var ísinn farinn. Það var búið að vinna fiskinn.“

- Auglýsing -

Þannig fór um sjóferð þá.

 

Hvolpalæti

- Auglýsing -

Finnbogi er Reykvíkingur og voru foreldrar hans Magnea Ólöf Finnbogadóttir og Þorákur Runólfsson. „Þau eru bæði dáin. Ágætis fólk.“

Þú varst bölvaður villingur.

„Nei, nei.“

Sem ungur maður.

„Nei, ég gengst ekki við því.“

Þú varst einn af þeim sem fóru í Núpsskóla.

„Það var af því að ég var svo duglegur að læra.“

Hann segir að eina vesenið á sér þar hafi verið að hann – og fleiri – voru að skríða yfir á kvennavist.

„Þegar ég fór á Núp var Bjarni Pálsson skólastjóri.“

Gat Finnbogi laumast fram hjá honum til að komast á kvennavistina?

„Það var ýmislegt reynt.“

Og tókst stundum?

„Alltaf.“

Aldrei gripinn?

„Jú, einu sinni.

Þetta var ekkert kynlíf. Þetta var bara svona hvolpa.

Þá sváfum við yfir á kvennavist. Svo var ræs á morgnana. Við sváfum yfir okkur. Þá vorum við ræstir uppi í hjá einhverjum. Þetta var ekkert kynlíf. Þetta var bara svona hvolpa.“

Hvolpalæti.

„Já.“

Hvað með refsinguna?

„Ég fór í vikufrí.“

Þú varst rekinn í viku?

„Já. Ég þótti það bara frí. Ég fór suður. Við fórum þrír.“

Þetta hefur verið kærkomið. Hjásofelsið sem endaði með skemmtilegu fríi í Reykjavík.

„Mér er minnisstætt þar sem ég sofnaði hjá einhverri stúlku; það skiptir ekki máli hver hún er. Það skeði nú ekki neitt. Bjarni Pálsson sagði við mig: „Gastu ekki skriðið upp í koju hjá einhverri annarri stúlku heldur en þessari? Af því að þetta er stúlka sem ég átti sérstaklega að passa upp á í skólanum. Ég er að bregðast traustinu með að þú ert kominn upp í til hennar.“

 

Í Stýrimannaskólann

Finnbogi byrjaði ungur á netabátum fyrir sunnan; fór á sjóinn fljótlega eftir skólavistina á Núpi. „Það voru gerðir út togarar hjá Bæjarútgerðinni. Þá fóru ungir menn suður í Grindavík. Keflavík. Það voru tugir eða hundruð vertíðarbáta. En aftur fyrir norðan fóru strákar mest á togarana. Ég byrjaði á þessum vertíðarbátum og það er eiginlega mesti þrældómur sem ég hef verið í til sjós.“

Á netunum.

„Á netum. Það var strandveiðikarl að tala um 160 net. Ég var að reikna út í huganum; ég held við höfum verið með 400 net. 20 trossur. Og 20 net í trossunni. Þetta þýddi það að það var ekki mikil pása. Það var ekki meiri veiði en það að það fór bunki af netum í sjó til að ná einhverju en nú þurfa þeir þess ekki. Það þarf bara að leggja einhverja netstubba hér og þar og það er fullt af fiski. Það var ekki þannig þá.“

Kunni Finnbogi strax vel við þetta?

„Já, einhvern veginn festist maður í þessu.“

Jú, sjórinn lokkar og laðar.

Svo fór hún að fitna eitthvað óeðlilega mikið.

„Ég fór í verbúð hjá Dóra Páls í Hnífsdal. Þar kynntist ég konunni minni. Hún var að vinna hjá Mugg í rækjunni. Þá vorum við í sömu verbúð. Svo fór hún að fitna eitthvað óeðlilega mikið.“

Þykkna undir belti eins og kallað er.

„Já.“

Lítill drengur kom svo í heiminn. Hann er sjómaður í dag. Heitir Jóhann.

„Við vorum búin að koma okkur upp íbúð. Við vorum komin með pínu búslóð. Þetta er minnisstætt. Svo ákváðum við að fara norður á Akureyri og Hörður á Guðbjarti var að fara í slipp á Akureyri.“

Af hverju fluttuð þið til Akureyrar?

„Kominn með konu og barn.“

Af hverju til Akureyrar?

„Hún vildi vera þar.“

Er hún þaðan?

„Já, hún er fædd og uppalin þar. Og ég fór bara á sjóinn.“

Það var góður skóli og mikill lærdómur að vera með þessum körlum.

Finnbogi fór á togarann Kaldbak frá Akureyri og segist hafa fengið fínasta uppeldi hjá Þorsteini Vilhelmssyni skipstjóra. „Ég var bara bátakarl. Ég var fljótur að læra að bæta og svona. Ég byrjaði sem háseti hjá Steina Villa á Kaldbak.“ Hann nefnir líka Svein Hjálmarsson og Óla Hermanns. „Það var góður skóli að vera með Steina Villa. Það var sótt stíft. Það var ekkert alltaf tekið inn fyrir. Það var góður skóli og mikill lærdómur að vera með þessum körlum.“

Finnbogi segir að það hafi verið öndvegisáhöfn á Kaldbak. „Og þeir sem voru uppi í brú, Steini og Svenni, þurftu eiginlega ekki að garga neitt. Þetta voru strákar sem voru hundvanir öllu og það þurfti ekkert að segja þeim til. Það þurfti ekkert að garga á þá.“

Gekk alltaf vel með Kaldbak? Var þetta áfallalaust?

„Já. Aldrei nein áföll eða nokkur skapaður hlutur.“

Var ekki bil á milli yfirmanna og undirmanna eins og sums staðar?

„Jú, það voru tvö borð í borðsalnum. Yfirmannaborð og undirmannaborð. Það var nú ekkert heilagt. Þetta var að deyja út. Það var sami matur á borðum. Þetta var einhver gömul hefð sem fjaraði út. Hún var byrjuð að fjara út þarna.“

Finnbogi var á dekkinu á Kaldbak og fór í Stýrimannaskólann þegar hann vann þar. Steini og Sveinn kvöttu hann til þess.

„Ég fór suður og bjó fyrir sunnan í þrjú ár. Það fjölgaði fljótt í hreiðrinu. Það voru tvö börn þegar við fórum suður og endaði með fjórum.“

Þið enduðum á fjórum börnum og þú allaf á sjónum.

„Það var 30 tíma stopp og 30 tíma hafnarfrí.“

Svo útskrifaðist Finnbogi úr Stýrimannaskólanum. Þá leysti hann af til að byrja með sem 2. stýrimaður á Kaldbak. „Svo fór ég austur á Þórshöfn með Sigga Friðriks á Stakfelli. Sigurði Friðrikssyni. Ég lærði mikið af honum. Hann var góður karl.“ Þar var Finnbogi 1. stýrimaður.

„Þaðan fór ég yfir á Björgúlf og þar var ég í 23 ár.“

 

Niðurbrotinn ungur maður

Björgúlfur.

Finnbogi byrjaði sem 2. stýrimaður og varð svo 1. stýrimaður á móti Sigurði Haraldssyni.

„Það var gott að vera með honum. Sérstakur karl en góður karl. Við vorum saman í 18 ár held ég. Einhvern tímann hlógum við að því í einhverju fylliríi að við værum í meira sambandi við hvorn annan heldur en konurnar okkar. Svo hætti Siggi og þá tók ég við.“

Það var kolvilaust veður allan tímann.

Finnbogi segir að sér hafi liðið illa í fyrsta túrnum sem hann fór sem skipstjóri.

„Hann var þannig þessi túr að ég vil helst ekki rifja hann upp. Þetta var jómfrúartúrinn minn sem skipstjóri. Þetta var fyrir jól. Það var hefð að skipstjórarnir færu í frí fyrir jólin og stýrimennirnir sátu í súpunni með að fara með skipið. Það var kolvilaust veður allan tímann. Það var hafís og það var alveg sama hvað hann gerði.“ Þeir misstu troll. „Sleit það í einhverjum klaufaskap. Það var inni í ísnum þannig að það var helvítis föndur að ná því upp en það hafðist. Svo kom ég til Dalvíkur niðurbrotinn ungur maður.“

Finnbogi skipstjóri á blómatímanum.

Hvað var mikið í lestinni?

„Ég held það hafi verið 36 tonn. Þannig að það var ekki hátt á manni risið. Ég fór á skrifstofuna til Valdimars Bragasonar sem var útgerðarstjóri, alveg öndvegismaður, og sagði að ég héldi að þetta gengi ekki. „Finnbogi minn, hafði ekki áhyggjur af þessu; þinn ferill getur ekki farið nema upp á við.“ Við erum ennþá vinir. Við tölum ennþá saman.“

Næsti túr gekk þó upp.

„Já, það gekk þokkalega. Á þessum tíma var ekki veiði eins og núna síðustu ár. Það er alveg sama hvar er liggur við. Það þurfti oft að berjast. Það þótti helvíti gott að vera með 80-100 tonn í viku til 10 daga túr.“

Svo tók Finnbogi við skipinu. Varð karlinn í brúnni. Var skipstjóri í fimm til sex ár. Hann segir að hann hafi alltaf hlakkað til að fara á sjóinn.“

 

Svo vildi hann losna við mig

Svo fór Finnbogi að vinna hjá Samherja þegar fyrirtækið á Dalvík rann inn í það fyrirtæki.  Hvernig leist honum á það?

„Ég hafði ekkert með það að segja,“ segir hann en hann vann hjá fyrirtækinu í nokkur ár.

„Á endanum rak Mái mig. Það segir sína sögu.

Hann er bara hörku djöfull duglegur.

Var þetta ástarhaturssamband á milli hans og Þorsteins Más?

„Þorsteinn Már er bara eins og hann er. Hann er bara hörku djöfull duglegur og hann er búinn að búa til risafyrirtæki en mér er alveg sama. Það má ekki taka það af honum; hann er ofvirkur og duglegur. Búinn að búa til þetta apparat. En það er eitt sem hann vantar; að vera pínu skemmtilegur. Það er allt í lagi að vera pínu skemmtilegur þó þú sért duglegur. Ég sá um Björgúlf og það var mín deild. Við fengum okkur kaffi þegar við hittumst. Það voru engir árekstrar.“

Ekki strax.

„Það var ekkert slæmt að vinna hjá þeim. Það voru kröfur sem er eðlilegt. Ég er ekkert að kvarta yfir því. Svo vildi hann losna við mig og losaði sig við mig.“

Af hverju vildi hann losna við þig?

„Þú verður að spyrja hann að því.“

Kom hann og tilkynnti þér að þú yrðir að hætta?

„Ég væri alltaf fullur um borð sem er náttúrlega rangt. Ég ætlaði að hætta um áramótin. Mig langaði það. Þetta var um haustið. Ég fékk fínan starfslokasamning. Það eru 10 til 12 ár síðan.“

Það þarf ekkert skipstjóra á skipum í dag.

Það hefur ekkert hvarflað að þér að fara aftur á sjó?

„Þetta var orðið leiðinlegt. Þetta var orðin svo mikil Excel-vinna. Áður fyrr fór maður bara út á sjó. Nú er þetta orðið svo mikið Excel. Það þarf ekkert skipstjóra á skipum í dag.“

 

Ég var eins og sálfræðingur

Hann sem hafði verið svo lengi á sjónum söðlaði um eftir að hafa „leikið sér“ í einhverja mánuði. „Svo leiddist mér það og asnaðist til að kaupa mér sjoppu. Það var dálítið fyndið að sitja inni í sjoppu. Og ég hafði aldrei komið nálægt neinu svona. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera.“

Það var sjoppa við Bústaðveg. Söluturn.

Ég vissi um hverja einstu kerlingu sem var að skilja í Fossvoginum.

„Hún heitir Póló. Samanber Prince Poli. Ég skírði hana það. Ég kunni ekki neitt. Ég kunni ekki á peningakassa eða neitt. Ég sat þarna fyrstu þrjá mánuðuna og klóraði mér í hausnum; hvernig í andskotanum átti ég að moka mig út úr þessu án þess að tapa fé? Svo fór þetta að rúlla og endaði með því að ég hafði það betra þarna heldur en skipstjóri á togara. Það er bara þannig. Þetta var allt annar starfsvettvangur. Milljón manns að koma og ég vissi um hverja einstu kerlingu sem var að skilja í Fossvoginum. Ég var eins og sálfræðingur. Þetta var mjög gaman. Ég kynntist helling af fólki.“

 

Finnbogi og Katrín una sér vel á Spáni.

Finnbogi leigði reksturinn fyrst og síðar keypti hann húsnæðið sem söluturninn er í.

„Það var rífandi gangur í þessu.“

Svo nennti hann þessu ekki lengur.

Konan hans í dag, Kata, kom inn í myndina. Henni kynntist hann á meðan hann rak sölutöurninn.

„Kata bjó í Borgarfirði. Ég fór upp í Kaldadal. Það var erfiður dagur. Ég fór upp á Okið,“ segir Finnbogi sem var farinn að stunda fjallgöngur. „Ég var alveg gjörsamlega búinn. Fór í Húsafell og fékk mér að éta. Ég datt í það og gisti í Húsafeli og hringdi í dóttur mína sem sá um sjoppuna og sagði að hún yrði að vinna líka fyrir mig daginn eftir. Þá fór ég inn á Kleppsárreyki og þá var Kata að vinna þar.“

Þannig byrjaði það sem endaði í hjónabandi.

„Það gengur vel hjá okkur. Svo fékk ég hana í bæinn til að vinna í sjoppunni og þá gisti hún heima hjá mér í Hafnarfirði. Það var gestaherbergi. Það er ágreiningur í hjónabandinu hvort ég hafi skriðið inn í gestaherbergið eða öfugt. Við erum ennþá ekki sammála.“

Ég er bölvuð kuldaskræfa.

Svo heillaði suðrænt land og í dag búa hjónin á Spáni.

„Ég er bölvuð kuldaskræfa. Ég segi að ég hafi farið í Stýrimannaskólann til að komast upp í brú í hitann úr helvítis kuldavolkinu. En okkur líður vel hérna og erum búin að vera hérna í sex ár.“

Er framtíðin á Spáni?

„Það er gott að bíða eftir Guði hér.“

Podcastið með viðtalinu við Finnboga er að finna hér. 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -