Talsvert var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Nokkrir voru teknir fyrir að keyra bifreiðum sínum undir áhrifum en í Hafnarfirði var ökumaður sviptur ökuréttindum, grunaður um akstur undir áhrifum eiturlyfja. Þá var bifreið hans ótryggð og því bílnúmerin tekin af.
Í hverfi 105 barst lögreglu tilkynning um eld í bifreið en reyndist það minniháttar eldur og hafði eigandinn hellt vatni úr fötu á eldinn þegar slökkviliðið bar að garði. Gekk fljótt að slökkva eldinn.
Í miðbænum var maður í annarlegu ástandi handtekinn en hann er grunaður um hótanir og brot á lögreglusamþykkt. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástandsins.
Þá var annar maður í miðbænum hantekinn í nótt en lögreglan var búin að hafa ítrekuð afskipti af manninum þar sem tilkynnt hafði verið um að hann hefði veist að fólki. Var hann að lokum vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.
Lögreglan hafði einnig afskipti af manni á veitingahúsi í miðbæ Reykjavíkur. Hafði maðurinn keypt veitingar sem hann gat ekki greitt fyrir.