Laugardagur 18. janúar, 2025
0.3 C
Reykjavik

Sólveig Anna fær það óþvegið – Sögð hafa stórskaðað launabaráttu verkafólks

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þegar stjórn Eflingar, undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sagði upp öllu starfsfólki á skrifstofu stéttarfélagsins þá opinberaðist um leið djúp mannfyrirlitning. Sólveig Anna og félagar kunna að skreyta sig með marxískum frösum og þykjast vera afskaplega hugsjónarík en þarna er einungis um að ræða innihaldslausan páfagaukalærdóm. Ef þetta fólk hefði raunverulegan áhuga á vellíðan vinnandi fólks þá hefði það horft sér nær og lagt sitt af mörkum til að skapa aðlaðandi andrúmsloft á skrifstofu Eflingar,“ segir Kolbrún Bergþórsdóttir og bætir við að hluti verkalýðsforystunnar hafi einmitt hagað sér nákvæmlega eins og „vondu kapítalistarnir“ sem hún er stöðugt að vara við. Kolbrún fer yfir starfmannamálin inn á skrifstofu Eflingar að undanförnu eftir að öllu starfsfólki félagsins var sagt upp störfum í leiðara Fréttablaðsins í dag. Sitt sýnist hverjum um þessa ákvörðun og hefur Sólveig Anna fengið sinn skerf af gagnrýni.

Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur, sendir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, tóninn. Gagnrýnir hún þá einnig Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR, og Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness og formann Starfsgreinasambandsins

„Hver á framvegis að geta tekið mark á þessu fólki? Stjórn Eflingar hefur rækilega tekist að gjaldfella verkalýðsbaráttuna,“ segir Kolbrún og bætir við að Sólveigu Önnu sé fyrirmunað að koma auga á eigin sök.

Kolbrún minnir á að baráttudagur verkalýðsins, 1. maí, sé framundan en þá leggi forystufólk verkalýðshreyfingarinnar áherslu á samstöðu vinnandi stétta. Á sama tíma þylur það upp misgjörðir vondu kapítalistana í garð vinnandi fólks.

Kolbrún segir að þennan dag á þessu ári sé ómögulegt fyrir verkalýðsforystuna að tala á þessum nótum, nema hún vilji verða að athlægi frammi fyrir alþjóð.

- Auglýsing -

„Gagnrýni á uppsagnirnar og frásagnir starfsfólks af eigin vanlíðan flokkar hún blygðunarlaust sem vanstillta umræðu. Meðvirkni ýmissa verkalýðsforkólfa er síðan beinlínis aumkunarverð, ef ekki fyrirlitleg. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem vanalega forðast ekki sviðsljósið, fór í felur og þegar loks náðist í hann gat hann ekki tekið afstöðu með fólki sem beitt var rangindum. Viðbrögð Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, voru einnig snautleg en það tók hann ansi marga daga að stynja því út úr sér að stjórn Eflingar hefði gert mistök en um leið tók hann fram að hann bæri traust til Sólveigar Önnu.“

Það er mat Kolbrúnar að Sólveig Anna og vitorðsmenn hennar hafi stórskaðað launabaráttu verkafólks.

„Sú barátta grundvallast á réttlætiskröfu og stendur á siðferðilegum grunni. Þessi framganga, gerð í nafni Sólveigar Önnu, er siðlaus og brýtur gegn réttlætiskennd heiðarlegs fólks. Hún mun ekki gleymast á verkalýðsdaginn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -