Þá er komið að því sem allir hafa beðið eftir: Afmælisbarn dagsins. Í dag er það Steinar Baldursson, betur þekktur sem GREYSKIES sem hlýtur þann merka titil. Er hann 27 vetra gamall í dag.
Árið 2013 gaf Steinar út frumraun sína, Beginning, undir nafninu Steinar en platan vakti mikla athygli. Í fyrra kom svo út platan The Mind is Like the Moon sem hann gaf út undir GREYSKIES nafninu.
Mannlíf heyrði í Steinari og spurði hann hvort hann ætlaði að halda upp á daginn.
„Það er góð spurning. Allur dagurinn fer bara í lærdóm hjá mér, ég er að læra fyrir lokaprófin. Ég er að læra sálfræði með viðskiptafræði sem aukagrein.“
Aðspurður hvort hann fengi sér ekki einu sinni afmælisköku í tilefni dagsins svaraði Steinar: „Jú, kannski fæ ég mér eina sneið.“
En hvað er á prjónunum hjá Steinari, fyrir utan próflestur?
„Já ég er að vinna að nýju efni núna en ég var að skrifa undir nýjan plötusamning. Þannig að ég er að fara að dæla út efni eftir prófin.“
Mannlíf óskar Steinari til hamingju með afmælið og vonar að honum gangi vel í prófunum.