Kvikmyndin Skjálfti er byggð á bók Auðar Jónsdóttur Stóra skjálfta. Myndin er um flogaveika konu og sjálf fékk Auður flogaköst um árabil. Í viðtali við Reyni Traustason í Mannlífinu talar hún meðal annars um þennan tíma í lífi sínu, ömmu og afa á Gljúfrasteini og hún talar um tímann á Flateyri þar sem hún bjó um tíma meðal annars í verbúð og giftist svo beitningarformanninum sem var um 20 árum eldri og hvarf jafnvel í tvo daga þegar hann datt í það. Svo fór hún til Svíþjóðar og hún segir að þar í sólinni hafi hún gleymt að hún væri gift. Auður skildi og giftist svo aftur. Hún býr í dag í Vesturbænum með syni sínum og er ný bók á leiðinni.
Hún vann í frystihúsinu, en svo fór hún að vinna í beitningarskúr. Fór að beita.
Hún talar um hve dimmt hafi verið í frystihúsinu. „Þá byrjaði vinnslan alltaf fimm á morgnana. Þá kom maður inn í myrkri og um veturinn var þessi bláleita birta í hádeginu og svo var orðið dimmt þegar maður kom út aftur. Þannig að ég fór að vinna í beitningunni hluta úr degi til að fá einhverja dagsbirtu.“
Þetta var leitin að birtunni.
„Ég man að það var rosaflott mynd af Pamelu Anderson á glugganum; maður sá snjóinn úti og svo var hún í sundbol og brjóstin upp úr.“
Hvað var hún lengi með balann?
„Ég var frekar hæg, held ég.“
Þarna kynntist Auður beitningarformanninum. „Ég fór heim með honum eftir ball á gamlárskvöld og endaði með að giftast honum.“
Peningaleysi og brúðkaup
Beitningarformaðurinn var Þorsteinn Arnberg Jónsson. Aldursmunurinn á honum og Auði tæp 20 ár.
„Þetta var kannski ekki ást. Hann drakk mjög hressilega. Og ég var meðvirkur unglingur.“ Hún var þó þarna orðin rúmlega tvítug. „En það var skemmtilegra að hanga með honum en í verbúðinni. Hann var líka mjög flinkur teiknari. Allt í einu var ég farin að gista frekar hjá honum en í verbúðinni. Svo vantaði okkur einu sinni pening þannig að ég stakk upp á því að við giftum okkur, þá gæfu allir okkur sígarettur og kaffi; þetta var morgun sem við vöknuðum rosablönk. Svo ég hringdi í Ólaf, sýslumann á Ísafirði, og spurði hvort hann gæti gift mig. Hann spurði hvenær ég vildi gifta mig. Ég sagðist vilja gera það þann daginn. Þetta var af því að mig vantaði svo pening; ef ég tilkynnti fólki að ég væri að gifta mig þá gæfu allir mér eitthvað og gerðu eitthvað fyrir mig.“