Nýjasti gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpsþættinum Þvottahúsið er enginn annar en dansarinn, pistlahöfundurinn og múltíkúnstnerinn Friðrik Agni Árnason.
„Ef ég ætti að segja að eitt af þessu sé svona innsti kjarninn þá er það dansinn, alveg innst, og svo út frá því kemur allskonar annað, skapandi, eins og að skrifa, svona tjáskipti,“ sagði Friðrik í upphafi og hélt áfram: „Það er bara svona skapandi kjarni inn í manni og maður þarf bara að læra hvernig maður aktiverar hann.“
Íslendingurinn ég og Íslendingurinn þú
Friðrik hefur verið ötull pistlahöfundur í mörg ár og segir að með því nái hann að vinna sig í gegnum þær ójöfnur sem lífið hefur upp á bjóða.
„Það kemur alveg fyrir að það er eitthvað rosalega heitt topic í gangi í samfélaginu þar sem allir er bara með þráhyggju gagnvart einni frétt eða einhverju sem er í gangi og maður þarf pínu að passa sig. Stundum hef ég alveg skrifað pistla og svo birti þá ekki.“
Hann nefnir í því samhengi pistil sem hann skrifaði fyrir nokkrum árum sem bar heitið „Íslendingurinn ég og Íslendingurinn þú.“ Þar rak hann garnirnar úr sjálfum sér hvað varðar það hvernig það er að vera blandaður Íslendingur. Friðrik fæddist á Íslandi á aðfangadag árið 1987 en á indverska móður. Hann hefur þó aldrei komið til Indlands en segir að það standi klárlega til.
Friðrik er afkomandi fyrsta ættleidda barns til Íslands frá Asíu, en móðir hans var ættleidd frá Mumbay í Indlandi árið 1969.
„Ég er miklu meira núna eftir því sem ég verð eldri, að fagna þessum hluta af mér og taka honum einhvernveginn og segi bara mikið við fólk að ég sé hálf indverskur því mamma mín er frá Indlandi, því á tímabili þegar ég var unglingur, var ég bara svolítið að reyna að ýta því frá mér.“
Hann segist ekki beint upplifa fordóma í dag út af sínum upprunna eða húðlitar en kannski frekar upplifa athugasemdir eða bara vissa stemningu sem oft a tíðum gæti flokkast sem fordómar en eru að öllu jöfnu bara forvitni og fáfræði.
„Ég á mann sem er íslenskur, við erum bara jafn íslenskir í rauninni, ég fæddist náttúrulega hér, en þessi upplifun á því að sjá hvernig það er komið fram við hann öðruvísi en mig, í sömu aðstæðum. Þegar ég var yngri fór ég kannski í vörn og upplifði þetta óþægilega en svo þegar maður verður eldri áttar maður sig bara á því að fólk er bara innilega forvitið en það kemur stundum út svolítið skringilega.“
„Það er samt svolítið eins og allir viti nákvæmlega hvað hann sagði, en miðað við hvað hann átti að hafa sagt þá bara það að þessi hugsun hafi komið upp í kollinn er pínu skrítið,“ segir Friðrik um uppákomu fyrir nokkru þar sem landbúnaðarráðherra lét að sögn margra óviðeigandi athugasemdir falla í garð Vigdísar Hasler framkvæmdarstjóra bændasamtakana, sem er ættleid frá Indónesíu og dökk á hörund.
„Fólk er orðið svo triggerað, fólk er bara að tala um þessa triggera endalaust og ef eitthvað gerist þá bara triggerast fólk og það er eins og þröskuldurinn sé miklu nær okkur heldur hann var.”
Friðrik sagði þeim bræðrum frá atviki þar sem hann hafði sótt um 30 mismunandi atvinnutækifæri er hann bjó í Stokkhólmi. Hann sendi ferilskránna af stað með mynd og glæsilegum lýsingum á farsælum ferli en vita menn, enginn atvinnuveitendanna svaraði umsóknunum.
Hann sagði vinkonu sinni frá þessu sem þekkti samfélagsstrúktúrinn og sagði við hann, „Ó, settur þú mynd?” En það vildi hún meina að væri algjört no no og því tók Friðrik myndina úr ferilskránni og viti menn, hann var boðaður í viðtal eftir fyrstu umsókn.
„Ég hugsaði fyrst, er þetta bara eitthvað ljót mynd af mér og vinkona mín sagði nei en ég myndi taka þessa mynd út strax, það er ekki séns að þú fáir viðtal.”
Fyrsti litaði og samkynhneigði forseti Íslands
Hann Friðrik er maður margra verkefna og því spurði Gunnar hann hvort hann væri með einhver langtímamarkmið eða hvort allt væri flæðandi og svona meira spontant spuni. Friðrik vildi meina að einhvert rými þyrfti alltaf að vera í þessum bransa fyrir frávik sem alltaf koma upp. En að öllu jöfnu væri hann mjög duglegur í að setja sér markmið ýmist skammtíma eða langtíma. Gunnar sagði að það hlyti að krefjast mikils hugrekkis að þora að setja markmið sín svona í föst blýantsstrik í ótta við að einmitt mistakast. Friðrik sagði þá að það væri einmitt hluti af þessu öllu saman, að hafa þetta hugrekki til að setja sig út í flæðið og treysta á að almættið í hvaða formi sem er, muni færa mann á þann stað sem maður óskar sér eða þurfi að komast á.
Hann minntist sinna fyrstu minningar sem snéri einmitt að vissu langtímamarkmiði en það var þegar hann var um átta ára gamall og hann var harðákveðinn í að verða fyrsti litaði forseti Íslands og það fyrir 40 ára afmælið sitt. Hann hefur sem sagt enn nokkur ár til að verða fyrsti litaði forseti Íslands auk þess að þá að verða fyrsti samkynhneigði forseti Íslands sem vitað sé.
Friðrik starfar einnig sem danskennari og þá einna helst í Zumba. Hann segist finna gríðarlegt frelsi í hreyfingu og þeirri sköpun sem fæðir af sér hreyfinguna. Hann vill meina að einmitt með dansinum nái hann að losa um og vinna úr allskonar neikvæðri orku sem annars endar á að sitja fast í líkamanum með tilheyrandi heilsubrestum eins og svo oft hefur verið rætt um í fyrri þáttum Þvottahússins. Hann byrjar daginn að öllu jöfnu á dansi, teygjum og yoga áður en hann leggst við skrif. Hann segir að einmitt þessi hreyfing sé mikilvægt il að framkalla þetta frjálsa flæði sem þarf til við að koma draslinu út á sem sómasamlegasta hátt í skrifuðu máli.
„Ég held að ég hafi í nokkurn skipti náð svona „euphoria“ ástandi í gegnum dansinn, svona ástand sem ég hef verið að reyna að ná með hugleiðslu en hef ekki náð en næ því í dansinum. Það er einhvernvegin ekki hægt að vera í fýlu á meðan maður er að dansa. Það geta allir dansað, það er tónlist og þú ert með líkama og ef þú ert heppinn og ert með hendur og fætur þá bara getur þú dansað.“
Þurfti að fyrirgefa sjálfum sér
„Mér finnst eins og ég eigi auðvelt með að hugsa um framtíðina og ég er mjög þakklátur fyrir það, ég er rosalegs dreymin manneskja, hef alltaf verið og það að vera dreymin snýst rosa mikið um framtíðina. Þig dreymir náttúrulega ekki um fortíðina því hún er búin. Það hefur hjálpað mér rosa mikið, ég næ einhvernveginn að vera þannig að ég er ekki er ekki að dvelja í svona fórnarlambsgírnum út frá einhverju sem gerðist fyrir mig,” sagði Friðrik er talið barst að framtíðarplönum. Friðrik hélt áfram:
„Varðandi svona mín stærstu áföll þá snérist þetta um að ég þurfti að fyrirgefa sjálfum mér fyrir að hafa verið í gegnum árin rosalega vondur og harður við sjálfan mig. Áföllinn hafa haft gríðarleg áhrif á sjálfsmyndina mína og mjög mikið hvernig ég upplifði sjálfan mig í tengslum við svona nánd og kynlíf” Segir Friðrik og bætir svo við. Mér leið eins og minni getu til að njóta kynlífs hafi verið rænt. Ég fattaði ekkert endilega að kynlíf væri eitthvað sem ætti endilega að vera gott fyrir mig, þetta var bara svona Já, vilt þú sofa hjá mér, Já OK. Það er bara mjög nýlega sem ég áttaði mig hversu erfitt mér fannst að tala um kynlíf, bara að vera spurður einhverjar spurninga um kynlíf og ég fraus bara. Þetta kemur kannski á þessu stigi þegar maður byrjar að hugsa um kynlíf og verður skotinn í einhverjum, ég var meira að segja skotinn í stelpu og átti stelpu sem kærustu áður en ég kom út úr skápnum. En allt í einu byrjar maður að hafa sömu kenndir gagnvart strákum og maður hafði gagnvart stelpum. “Ég sá strák, varð hrifin af honum, hann var fyrirsæta og ég var ég var líka að vinna sem fyrirsæta þegar ég var unglingur og við kynntumst og allt í einu vorum við bara að deita og ég svo sagði ég bara við mömmu að ég er eiginlega bara að deita strák og hún bara sagði já ok en passaðu þig bara að fara varlega, þetta var bara eins og að segja hey, ég er með brún augu. Ég finn það hjá mér að þessir tendensar sem ég hef gagnvart kvennfólki, þeir eru alls ekki miklir en þeir eru bundnir við einhvern ákveðin tímabil ég er að ganga í gegnum.”
Draumurinn um fjölskyldu
Gunnar spurði Friðrik út í hugmyndir hans um að stofna fjölskyldu. Þá hvort hann og maðurinn hans sem hann hefur verið með í ein 16 ár, hafi einhverjar hugmyndir um að stofna fjölskyldu og ef svo er, þá hvernig svoleiðis myndi ganga fyrir sig. Friðrik sagði að það væri í þessum töluðu orðum að fæðast einhver hreyfing í þá átt. Hann og maðurinn hans væru að hefja ferli sem mun líklega leiða þá í þá átt að verða fósturforeldrar en þetta mál sé viðkvæmt og á frumstigi. Hann segist ekki einu sinni búinn að segja fjölskyldu sinni frá þessu en Gunnar hughreysti hann með að segja honum að þátturinn kæmi ekki út fyrir en eftir nokkrar vikur og því hefði hann en tíma til þess.
„Ég lifi eftir því að ég vil alls ekki lifa við eftirsjá, það er mín mesta hræðsla,“ sagði Friðrik varðandi fyrirhuguð áform um að stækka fjölskylduna.
„Við vorum að tala um þetta um daginn, ef við tveir myndum til dæmis eignast stelpu og við tveir karlmenn, ég spái alveg í því hvort það sé eitthvað sem við þurfum að hafa í huga hvort að við myndum þurfa að leita eftir ráðleggingum frá konum í okkar lífi.“
Gunnari og Davíð vakti mikil forvitni á að vita hvort hann héldi að það væri eitthvað sem samkynhneigðum foreldrum bæri að hafa í huga í þessum efnum í samanburði við að barn alist upp í þessu hefðbundna munstri þar sem er karlmaður og kvenmaður séu til staðar í uppeldinu. Friðrik sagðist ekkert vera með það endilega alveg á hreinu en sagðist kannski halda að mögulega í einhverjum málum sem snúa að svona kynjabundnu ferli einhverskonar þyrfti maður að reiðubúinn að leita sér dómgreindar en á sama stað á það alveg eins við í hinu hefðbundna. Það er ekkert klippt og skorið í þessum efnum og því litaflóran óendanleg. Niðurstaða Friðriks og bræðranna varð að ekkert væri í raun réttara en hvað annað í þessum efnum og því bæri að nálgast viðfangsefnið í rými og auðmýkt.
„Við erum bara flottar manneskjur ef við þorum a standa með okkur sjálfum og við þorum að gera það sem okkur langar til að gera. Ég trúi því bara að ef hver og einn nái að hafa trú á sjálfum sér, standa sig vel í því að vera góð manneskja, þá er það bara lykillinn.“
Lokaspurningu Gunnars um hvort Friðrik væri bjartsýnn á að mannkynið geti mögulega hætt að haga sér eins og samkenndarskertir fávitar, svaraði Friðrik því að hann héldi að við værum á einhverjum stað núna þar sem miklar sveiflur væru í gangi en á næstu tíu árum eða svo værum við að fara að upplifa þvílíka breytingu í öllum þessum málum sem snúa að óskilyrtri samkennd og í raun að listinni að lifa í fullri mennsku, óháð allri þessari flokkun í gegnum hinar og þessar skilgreiningar á undirflokkum.
Þetta huglúfa viðtal má sjá og heyra í fullri lengd í spilaranum hér fyrir neðan ásamt að vera aðgengilegt á öllum helstu streymisveitum eins og Spotify svo eitthvað sé nefnt.