Vegan-lasagna sem sló í gegn í tilraunaeldhúsi Gestgjafans.
Þetta hefðbundna ítalska lasagna sem við þekkjum í dag byggist á kjötsósu úr gæðanautakjöti og tómötum, lauk og kryddi og bechamel-sósu sem búin er til úr hveiti, mjólk og smjöri. Margskonar útgáfur eru til af þessum fræga rétti og á hvert hérað og hver fjölskylda á Ítalíu sína uppskrift. Hægt er að leika sér á fjölbreyttan hátt með lasagna og við bjóðum hér upp á frábært vegan-lasagna sem sló í gegn í tilraunaeldhúsi Gestgjafans.
VEGAN-LASAGNA MEÐ KASJÚHNETU-TÓFÚOSTASÓSU
fyrir 4-6
Þessi réttur virðist í fyrstu vera flókinn en hann er það alls ekki. Hins vegar er nauðsynlegt að eiga matvinnsluvél til að útbúa hann.
700 g sætar kartöflur, afhýddar og skornar í teninga
2 stk. rauðlaukar, saxaðir
3 tsk. sjávarsalt
2 tsk. mulinn pipar
5 msk. ólífuolía
1 stórt eggaldin, skorið í teninga
1 tsk. óreganó, þurrkað
1 tsk. timían, þurrkað
kasjúhnetu-tófúostasósa (sjá uppskrift)
grænt pestó (sjá uppskrift)
9 lasagnaplötur, án eggja, soðnar í saltvatni í 3-4 mín.
Hitið ofninn í 180°C. Setjið sætar kartöflur og lauk í eldfast mót, kryddið með sjávarsalti og pipar og blandið 2 msk. af ólífuolíu saman við, bakið í 30 mín. Setjið eggaldinið í skál og stráið 1 tsk. salti yfir og blandið vel.
Látið liggja í 10-15 mín. Hellið safanum frá og kreistið varlega teningana, kryddið með óreganó og timían og steikið upp úr 2 msk. af ólífuolíu þar til teningarnir verða gullinbrúnir og fallegir.
KASJÚHNETU-TÓFÚOSTASÓSA
4 dl kasjúhnetur, lagðar í bleyti í a.m.k. klst.
450 g tófú, mjúkt
4 msk. næringarger, fæst í flestum stórmörkuðum
4 msk. nýkreistur sítrónusafi
1 tsk. sjávarsalt, eða eftir smekk
1 tsk. pipar, eða eftir smekk
1 tsk. þurrkuð basilíka
1 tsk. óreganó, þurrkað
3 hvítlauksgeirar
Setjið kasjúhnetur í blandara og blandið þar til hneturnar verða alveg að mauki. Setjið svo allt annað saman við og blandið þar til áferðin verður silkimjúk. Smakkið til með salti, pipar og sítrónusafa.
GRÆN PESTÓSÓSA
handfylli fersk basilíka, söxuð
handfylli fersk steinselja, söxuð
3 msk. næringarger
1 dl furuhnetur, ristaðar
4 hvítlauksgeirar
1 tsk. sjávarsalt
1 tsk. nýmalaður pipar
1 ½ dl ólífuolía
Setjið basilíku, steinselju, næringarger, hnetur, hvítlauk, salt og pipar í matvinnsluvél, blandið þar til allt verður að mauki, stoppið vélina annað slagið og skafið með fram hliðunum. Lækkið hraðann á vélinni og bætið ólífuolíunni rólega saman við. Berið sósuna fram með lasagnaréttinum.
SAMSETNING
Smyrjið smávegis af ostasósunni í botninn á eldföstu móti og raðið 3-4 lasagnaplötum yfir, því næst 1/3 af grænmetinu, svo aftur ostasósu. Endurtakið þar til allt er búið. Endið á ostasósu og grænmeti.
Setjið álpappir yfir formið og bakið í 30 mín. Að nota næringarger virkar ekki mjög freistandi fyrir þá sem það ekki þekkja. En það gefur gott ostabragð og einnig nokkurn hnetukeim.