Þeir sem greinast með kvíðaröskun fer stöðugt fjölgandi. Það er talið að þriðji hver þjáist af kvíða einhvern tímann á ævinni. Vísindamenn hafa nú uppgötvað ástæður þess hvers vegna heilinn setur sig í umsátursástand. Þeir hafa fundið tvö gen sem breytast þegar börn verða fyrir áföllum. Samkvæmt samantekt Lifandi Vísinda verður unnt innan tíðar að uppræta sjálfar orsakir kvíðans.
Heilasérfræðingar og sálfræðingar standa frammi fyrir áberandi mótsögn: Í fjölmörgum löndum fer tíðni manndrápa lækkandi, stríð verða sjaldgæfari og velferð fer vaxandi, færri þurfa að fara soltnir að sofa, sjúkdómar hrjá fólk í minna mæli en nokkru sinni fyrr og lífaldur hefur aldrei verið hærri.
Misnotkun breytir barnsheila
Eitt af þeim óttaviðbrögðum sem rannsakað hefur verið af miklum krafti er svonefnd „áfallastreituröskun“ eða „Post-traumatic stress disorder“, skammstafað PTSD. Þessi gerð kvíðakasta felur í sér að fólk endurlifir skelfinguna sem fylgdi tilteknum atburði aftur og aftur.
Í langflestum tilvikum geta læknar og sálfræðingar komist að því nákvæmlega hvaða atburður það var sem var undirrótin að þessari sjúklegu röskun.
Algengustu fórnarlömb þeirra eftirkasta áfalla sem kallast PTSD eru fyrrum hermenn sem hafa orðið vitni að skelfilegum atburðum á vígvelli og svo börn sem hafa orðið fyrir misþyrmingum eða alvarlegri misnotkun.
Í yfirlitsgrein frá á árinu 2020 lýsti barnageðlæknirinn Charlotte Cecil hjá Ersamus-læknisfræðistofnuninni í Rotterdam hvernig kynferðisleg misnotkun getur breytt genum barna, þannig að heilinn tekur að hegða sér óeðlilega og það ástand verður viðvarandi.
Einkum eru breytingar í tveimur genum vel skjalfestar, NR3C1 og SLC6A4. Bæði genin eiga þátt í samskiptum taugafrumna, m.a. í möndlungnum, með boðefninu serótóníni. Kynferðisleg misneyting gangsetur lífefnaferli í taugafrumunum og í ferlinu tengjast tilteknar sameindir, svonefndar metylsameindir, þessum tveimur genum. Þetta breytir ekki hlutverki genanna en virkni þeirra verður óeðlilega lítil og sú breyting helst til frambúðar.
Þetta merkir að líkindum að serótónín getur ekki lengur haldið uppi samskiptum milli taugafrumna í möndlungnum og það gæti verið orsök þess að allt að þriðja hvert barn sem orðið hefur fyrir kynferðislegri misneytingu, þróar með sér PTSD.
Áhyggjuefnin ættu að vera orðin færri en æ fleiri þjást af kvíða
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO metur það svo að greindum kvíðaröskunartilvikum hafi fjölgað um 15% á síðustu tíu árum. Talið er að á heimsvísu þjáist 264 milljónir manna af kvíða og um þriðji hver muni þróa með sér sjúklega kvíðaröskun einhvern tíma á ævinni.
Kvíði hjálpar okkur við að halda uppi viðbúnaði þannig að við séum reiðubúin til aðgerða ef hættur verða á vegi okkar. Í litlum skömmtum og við réttar aðstæður er kvíðinn sem sagt heppilegt viðbragð sem kemur í veg fyrir að við styttum okkur leið um dimm húsasund eða tökum of glæfralega áhættu í fjármálum.
En í sumum tilvikum verður kvíðinn sjúklegur og gegnsýrir hugsunina svo mikið að hann kemur í veg fyrir að fólk geti lifað eðlilegu lífi.
Samfélagsmiðlar og minni svefn kvíðavaldandi
Flestir vísindamenn eru þó sammála um að æ stærri hluti fólks þjáist af kvíða. Margir vísindamenn benda á að samfélagsmiðlar setji aukinn þrýsting á fólk varðandi það að standa undir bæði eigin væntingum og annarra og telja þetta eina af sennilegustu skýringunum.
Önnur möguleg skýring er sú að fólk sofi almennt minna en áður var og svefnleysið hafi óheppileg áhrif á heilann. Heilinn eykur og minnkar kvíða. Þegar við uppgötvum mögulega ógn leysir það sjálfkrafa úr læðingi ótta í möndlungi heilans (amygdala). Vitundin einbeitir sér að ógninni og eykur þannig á óttann en skynsemi heilans ákvarðar svo hvort hættan sé raunveruleg.
Ógn virkjar möndlunginn. Þegar skynfærin greina t.d. ógnvænlega sjón, berast taugaboð til möndlungsins sem meðhöndlar neikvæðar tilfinningar. Telji þessi heilastöð hættu á ferðum sendir hún líkamanum boð um að framleiða streituhormón.
Orsakir kvíðaröskunar umdeildar en ákveðin tilhneiging mjög skýr
Hjá fólki með kvíðaröskun er möndlungurinn oft stærri og virkari en í öðrum.
Vitundin beinist að hættunni. Heilastöðin ACC í heilaberki í ennisblaði beinir athyglinni að því sem mikilvægast er að athuga. Heilastöðin bregst við ógnum og sendir möndlungnum boð sem auka enn á óttann. Hjá fólki með kvíðaröskun er ACC-heilastöðin bæði stærri og virkari en í öðrum. Skynsemin tekur í taumana. Heilastöðin PFC í fremsta og neðsta hluta ennisblaðsins á þátt í sjálfstjórn og skynsamlegri ákvarðanatöku. Meti þessi heilastöð hættuna sem óverulega berast möndlungnum boð sem draga úr óttanum.
Hjá fólki með kvíðaröskun er PFC-heilastöðin ekki jafn virk og í öðrum.
Þótt orsakir kvíða séu umdeildar, er ákveðin tilhneiging mjög skýr: Nærri tvöfalt fleiri konur en karlar þjást af kvíðaröskun. Að hluta til stafar þetta af því að karl- og kvenhormón hafa mismunandi áhrif á samskipti taugafrumna í þeim heilastöðvum sem eiga þátt í kvíðaviðbrögðum. Testósterón veldur því t.d. að það þarf meira til að vekja karlmönnum ótta en estrógen og progesterón torvelda konum að venjast endurteknum kvíðavekjandi aðstæðum, jafnvel þótt þær reynist alveg hættulausar.
Frá náttúrunnar hendi er hins vegar öllu fólki eðlislægt að hræðast skyndileg hljóð eða hluti sem nálgast á miklum hraða.
Kvíði viðurkenndur sem sjúkdómsástand
Hjá WHO segja menn vaxandi hlutfall fólks búa við stöðugan kvíða og harðast bitnar þróunin á ungu fólki. Í rannsókn sem náði til 22 milljóna barna og unglinga sem heimsóttu bandaríska heilbrigðiskerfið á árunum 2013-2017 reyndist hlutfall þeirra sem þjáðust af kvíða hafa meira en tvöfaldast á tímabilinu.
Af þessum sökum leita vísindamenn nú inn í heila kvíðasjúklinga til að finna orsakir þessa ástands. Með heilaskönnun hafa þeir fundið þær heilastöðvar sem auka eða draga úr kvíða og borið kennsl á genabreytingar sem verða af völdum alvarlegra áfalla. Með þessa nýju þekkingu að vopni hafa menn svo þróað meðferðarúrræði sem leiðrétta þessar genabreytingar og eiga á endanum að bólusetja okkur við því að þróa kvíðaröskun.
Ein af ástæðum vaxandi kvíða er trúlega sú að umræða um geðræna kvilla er nú opinskárri en áður og þess vegna snúa fleiri sér til læknis, þar sem kvíðaröskunin er greind. Það magnar upp þessa þróun að læknisfræðilegar skilgreiningar á kvíðaröskun hafa líka breyst. Félagslegur kvíði var þannig ekki viðurkenndur sem sjúkdómsástand fyrr en á síðasta áratug 20. aldar. Þess í stað var litið á kvíða sem hluta persónugerðarinnar.
Kvíði tvöfalt algengari hjá konum
Kvíði eða ótti vaknar að öðru leyti hjá okkur öllum á ákveðnum æviskeiðum og af tilteknum ástæðum og hafa rannsóknir sýnt fram á það að konur séu kvíðnari á öllum aldri.
Kvíði er ámóta algengur í öllum aldurshópum en er nærri tvöfalt algengari hjá konum en körlum.
Ung börn óttast ókunnuga og að vera skilin eftir ein. Á unglingsárum kemur að því að losa tengslin við foreldrana og þá tekur við ótti við útilokun úr vinahópnum. Síðar á ævinni eru heilbrigði, efnahagur og öryggi algengustu kvíðavaldarnir.
Það er líka fyllilega eðlilegt og yfirleitt líka hollt að finna stundum fyrir kvíða og áhyggjum þegar við sjáum t.d. fréttir af hryðjuverkum.
En ef kvíðinn bítur sig fastan og þú óttast það daglega að verða fórnarlamb hryðjuverka, þá gæti verið um að ræða það fyrirbrigði sem læknar eru farnir að kalla alhæfðan kvíða.