Ásta Kristrún Ólafsdóttir, sálfræðingur, kennari og móðir, skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni; Borgarstjóri heldur þræla.
Í grein sinni gagnrýnir hún þann litla stuðning sem borgin veitir fólki sem sér um umönnun fólks sem fötlunar sinnar vegna getur ekki séð um sig sjálft.Ásta Kristrún er móðir ungs manns með fötlun og skrifaði hún opið bréf í Fréttablaðið árið 2019 sem vakti talsverða athygli. Í því gagnrýndi hún þann skort á upplýsingum sem oft mætir foreldrum einstaklinga með fötlun.
Borgarstjóri heldur fólki nauðugu
„Bara svo þið vitið það áður en þið gangið til kosninga, þá heldur borgarstjóri og hans lið, hópi fólks nauðugu í erfiðisvinnu án þóknunar né launa. Þessi vinna, sem fólk er neytt til að inna af hendi, er bæði líkamlega og andlega erfið. Hún er félagslega einangrandi, krefst viðveru allan sólarhringinn og gengur nærri heilsu fólks,“ segir Ásta Kristrún í bréfi sínu og bætir við að það sé engin leið út úr þessari nauðung. „Og ef einhver vogar sér að leita réttar síns, grípur borgarstjóri hiklaust til varna.“
Hún segir að ef einhver getur sýnt fram á að þessi nauðungarvinna hafi skert tekjur sem viðkomandi kann að hafa haft af annarri vinnu, geti sá hinn sami sótt um hungurlús hjá Tryggingastofnun fyrir þrældóminn.
„Ef þú bugast undan álaginu og veikist á líkama eða sál, færðu ekki neitt. Tryggingastofnun hefur réttilega bent á að veikt fólk getur ekki annast fatlað fólk og því fær það enga hungurlús.“
Meirihluti borgarinnar skítfellur á siðferðisprófi
Hún segir að þegar veiki þrællinn biður borgina að aðstoða sig við að komast til heilsu sé svarið þvert nei.
„Þrællinn getur fengið að barma sér hjá félagsráðgjafa hjá þjónustumiðstöð, sér að kostnaðarlausu, en ef hann er mjög illa staddur getur hann sótt um nokkra tíma hjá sálfræðingi. Kannski getur hann sótt um tíma í nuddi eða nálarstungum en þrællinn sem þetta skrifar hefur ekki haft rænu á að láta sér detta það í hug en eins og alkunna er þá upplýsir borgin ekki um valkosti að fyrra bragði.“
Ásta Kristrún segir að þetta sé vinna sem borgin eigi, lögum samkvæmt, að inna af hendi.
„Borgin ber ábyrgð á þjónustu við fatlað fólk. Ekki bara smá eða ponsu litla ábyrgð heldur 100% ábyrgð. Borgin axlar ekki þessa ábyrgð og veltir henni yfir á þræla sína, það er foreldra og aðstandendur hinna fötluðu.“
Hún segir að siðferði yfirvalda sjáist best á því hvernig það kemur fram við þá sem minnst mega sín.
„Núverandi meirihluti borgarinnar skítfellur á því siðferðisprófi, misnotar fólk svo það tapar heilsunni en dúllar sér við að punta og skreyta borgina fyrir fjármuni sem ættu, ef þetta fólk hefði einhverja sómakennd, að fara í að leysa þræla úr ánauð og veita fötluðu fólki þá þjónustu sem það þarfnast. Það er ósk mín að næsti meirihluti í borginni verði fólk með sæmilega dómgreind, þokkalegt siðferði og hjartað á réttum stað.“