Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir: „Ég lamdi engan með þessum staf, en ég var andskoti vígaleg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir talar í viðtali við Reyni Traustason meðal annars um árin á þingi, þar sem hún hún vildi koma á réttari og eðlilegri fiskveiðistjórnun, hún, sem hefur sagt sig úr Samfylkingunni, talar um skoðun sína á flokknum í dag, bankasöluna, aðra flokka, áhrif erjanna í Menntaskólanum á Ísafirði þegar hún var þar skólameistari og ákvað að segja upp, umsókn sína um starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum, sem endaði á því að hún fékk 20 milljónir eftir að kærunefnd jafnréttismála komst að því að Þingvallanefnd hefði brotið jafnréttislög eftir að annar, karl, hafði verið ráðinn í starfið og hún talar um björgunarsveitarstörfin, hundinn sinn og uppáhaldsstaðinn á Íslandi.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sat á Alþingi 2009-2013 og 2015-2016 fyrir Samfylkinguna í Norðvesturkjördæmi.

Það eru ekkert allir sem taka þennan slag eins og þegar hún var á þingi og tók slaginn við Samherja. Þetta var ekki til vinsælda fallið en hún var föst fyrir og gaf ekki eftir.

Flokkurinn minn var ekki tilbúinn að stíga þau skref sem stíga þurfti.

„Ef maður hefur trú á því sem maður er að gera þá finnst mér manni bera skylda til þess að standa með þeim málstað og ég hef alltaf verið föst fyrir þannig. Auðvitað hafa allir réttlætiskennd. Ég ætla ekkert að halda því fram að ég hafi meiri réttlætiskennd en aðrir. Við höfum hana öll. En það er misjafnt hvernig fólk gengur fram á því sviði. Ég bauð mig fram til að beita mér fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og eitt og annað sem ég lagði fram sem áherslur í mínum málflutningi áður en ég var kosin á þing og mér hefði fundist það alveg fráleitt ef ég hefði ætlað að víkja frá því þegar á hólminn var komið. Hins vegar lenti ég í því, þó ég væri í stjórnarliði inni á þingi, að ég var í minnihluta í raun og veru. Flokkurinn minn var ekki tilbúinn að stíga þau skref sem stíga þurfti þegar á hólminn var komið. Það náðist aldrei eining innan þingflokksins um það sem þyrfti að gera þó að forysta flokksins væri á sama máli og ég. Kvótagreifarnir hafa bara svo sterk ítök í öllum stjórnmálaflokkum. Þeir eiga sína fulltrúa inni í öllum flokkunum; það var kannski sárasta uppgötvunin sem ég gerði, sem bjartsýnn og vongóður þingmaður, að koma glæný inn eftir hrun og hélt náttúrlega að ég og mínir samferðamenn sem voru að koma nýir inn myndum öllu breyta og allt bæta. En svo náttúrlega gengur maður á vegginn og áttar sig á því að það er undirgerð, það er svona djúpgerð á bak við öll stjórnmál og alla stjórnsýslu, þar sem ráðum er ráðið algerlega á bak við leiktjöld eða á bak við hinn opinbera vettvang lýðræðisins. Og það var bara það sem átti sér stað þarna. Og það er til dæmis ástæðan fyrir því að það er ekki enn þá búið að leiða til lykta þetta stjórnarskrármál. Það er bara vegna þess að það er ekki hægt að koma auðlindaákvæðinu inn í stjórnarskrá vegna þess að hagsmunaöflin sem stýra útgerðinni í landinu ætla bara ekki að sætta sig við það.“

 

Kvótinn varð takmörkuð auðlind

- Auglýsing -

Ólína segist hafa viljað koma á réttlátri og eðlilegri fiskveiðistjórnun. Segir að þetta kerfi sé harðlæst. „Því var bara skellt í lás þegar frjálsa framsalinu var komið á og mönnum var eiginlega afhent auðlindin; þeim sem höfðu þá verið þrjú ár eða lengur í greininni. Síðan lokaðist kerfið; nýir menn komast ekki inn nema þá sem leiguliðar hinna sem fyrir eru sem fengu þetta upp í hendurnar. Kvótinn varð við þetta takmörkuð auðlind sem varð bara verðmætari og verðmætari og er farin að ganga í erfðir og verða andlag í hjónaskilnaðarmálum og þegar verið er að skipta dánarbúum. Þetta er náttúrlega alls ekki eðlilegt. Þarna er búið að taka auðlindina og gera hana að ígildi einkaeignar. Og eftir því sem lengra líður án þess að þetta sé leiðrétt þá munu þeir standa fastar á því að það sé kominn hefðarréttur og þetta sé stjórnarskrárvarin eign sem þeim beri. Um það stendur styrinn.“

Að gerðir yrðu tímabundnir nýtingarsamningar.

Ólína segist hafa viljað ná fram kerfisbreytingum sem fælu það í sér að kvótanum væri úthlutað á grundvelli nýtingarsamninga: Að gerðir yrðu tímabundnir nýtingarsamningar þannig að í staðinn fyrir að Samherji sé með eilífðarráðstöfunarrétt á kvótanum þá fengi hann bara kannski nýtingarsamning til 10-20 ára og greiddi fyrir þann nýtingarsamning að fá úthlutaðan kvóta á hverju ári af þessum 20 árum.

„Ef hann myndi gerast brotlegur með brottkasti eða óábyrgri umgengni um auðlindina þá myndi hann fyrirgera rétti sínum til að fá nýtingarsamninginn endurnýjaðan. Þannig að þá væru útgerðaraðilarnir í raun og veru leigjendur hjá þjóðinni að þessum auðæfum en ekki eigendur. Það má alveg líkja þessu við ef það myndi rísa fjölbýlishús einhvers staðar í borginni og þangað kæmi hústökufólk sem kæmi sér þar fyrir, fengi leyfi til að vera þar í viku og væri svo bara sest að og það kæmust aldrei neinir aðrir inn í húsið og það væri aldrei borgað raunvirði húsaleigu.

- Auglýsing -

Þessar breytingar náðu náttúrlega ekki fram að ganga þrátt fyrir mikið japl, jaml og fuður, nefndir og sáttanefndir. Hins vegar var farið út í það í staðinn að hækka veiðileyfagjaldið og breyta lögum um greiðslu veiðileyfagjalds. Það gekk eftir í raun og veru í eitt ár. Svo hrökklaðist ríkisstjórnin frá völdum og það kom ný ríkisstjórn sem lét það verða sitt fyrsta verk að lækka veiðileyfagjaldið sem hefur síðan farið stiglækkandi og er í dag aftur orðið málamyndagjald eins og það var fyrir breytinguna. Þetta er óréttlætið.“

Það voru vonbrigði að jafnvel flokksfólk Ólínu stóð ekki með henni að fullu.

þar kom í ljós fyrirstaða þegar upp var staðið. Og hún var Steingrímur J. Sigfússon.

„Ekki mitt flokksfólk og ekki heldur VG, sem var hinn stjórnmálaflokkurinn sem fór með sjávarútvegsmálin á þessum tíma og stýrði gangi mála og þar kom í ljós fyrirstaða þegar upp var staðið. Og hún var Steingrímur J. Sigfússon.“

Eru það þá tengsl við kjördæmið og þessi stóru fyrirtæki þar?

„Ég held að þingmenn Norðausturkjördæmis myndu aldrei nokkurn tímann eiga neinn möguleika á að beita sér í átt til breytinga á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þar eru hagsmunir allt of ríkir hjá stórútgerðinni, enda hefur náttúrlega mesta andstaðan komið úr því kjördæmi, leynt og ljóst.“

Er þá ekki snúið fyrir Loga Einarsson, núverandi formann, að beita sér af hörku?

„Það myndi ég halda enda hefur hann ekki beitt sér af hörku í því máli.“

 

Sagði sig úr flokknum

Ólína fékk ekki kosningu áfram. Hvað bar út af?

„Svo féll ég af þingi. Fyrst er það náttúrlega að fylgi Samfylkingarinnar hrundi eftir þetta stjórnarsamstarf. Það bara hrundi og við náðum ekki inn þingsætinu mínu, þannig að ég varð varaþingmaður. En þá urðu þau hörmulegu tíðindi að félagi minn, Guðbjartur Hannesson, sem var fyrsti þingmaðurinn fyrir Samfylkinguna í kjördæminu, fékk krabbamein og varð mjög veikur og ég kom inn fljótlega fyrir hann. Því miður entist honum ekki ævin. Hann dó á miðju kjörtímabili og þá sat ég sem þingmaður í hans stað fram að næstu kosningum; það var nú reyndar ekki nema tvö ár.

Ég var komin í andstöðu við Árna Pál Árnason sem var formaður flokksins.

Svo voru komnar væringar innan flokksins. Það var svo margt búið að ganga á í sambandi við þessi fiskveiðistjórnunarmál og eitt og annað. Ég var komin í andstöðu við Árna Pál Árnason sem var formaður flokksins á þeim tíma. Hann ætlaði sér þingsæti í Norðvesturkjördæmi; var farinn að hringja til að safna stuðningi við sig, fann ekki stuðninginn og hætti við, en var þá auðvitað búinn að grafa undan mér og þá kom auðvitað Guðjón Brjánsson sem sá sér leik á borði og stökk inn og náði í prófkjöri fyrsta sætinu. Ég var búin að láta vita að ég gæfi ekki kost á mér nema í fyrsta sæti. Ég náði því ekki og þá stóð ég bara upp og fór.“

Ólína sagði sig úr Samfylkingunni í fyrra. „Ég fylgdi þeim nú að málum og var góður flokksmaður alveg þangað til fyrir svona ári síðan. Þá sagði ég mig úr flokknum, en ég lét það ekki fara hátt. Það var rétt fyrir kosningar og ég vildi af virðingu við félaga mína ekki vera að gera einhvern úlfaþyt úr því; fólkið sem ég hafði starfað með og var að berjast fyrir þingsætinu sínu meðal annars og ég þagði yfir því. Það er ekki fyrr en núna sem ég er farin að segja frá því að ég sé ekki lengur í Samfylkingunni.“

Mér finnst Samfylkingin hafa verið í mikilli forystukreppu síðustu ár.

Af hverju sagði Ólína sig úr flokknum?

„Það var náttúrlega bara svo margt. Mér finnst Samfylkingin hafa verið í mikilli forystukreppu síðustu ár. Það að vísu lagaðist mikið um tíma eftir að Logi Einarsson tók við, en svo hefur hann þagnað verulega finnst mér upp á síðkastið og verið lítið afgerandi. Mér fannst flokkurinn ekki vera að taka raunverulega á þeim málum sem hann átti að vera að taka á. Hann var svolítið mikið bundinn við kannski ekki lítil mál heldur mál sem vörðuðu minni þjóðfélagshópa og það var farið að yfirskyggja fannst mér stóru málin. Svo fannst mér líka flokkinn vanta stefnu. Hann vantaði kannski ekki skrifaða stefnu, en hann vantaði stefnu í málflutningi sinna fulltrúa. Og ég er bara einhvern veginn þannig úr garði gerð að mér finnst að stjórnmál eigi að snúast um grundvallaratriði og menn eigi að standa í lappirnar og taka slaginn ef þess þarf um grundvallarmálefni.“

Ólína segir að í dag dansi hún bara frítt á bárunni og hafi skoðanir á öllu og sé ekki bundin af neinum.

 

Algjörlega óásættanlegt

Hvað með þetta bankabrall allt saman?

Í öllu falli þá á hann auðvitað að víkja.

„Það er náttúrlega mikið hneyksli hvernig þessi sala hefur náð fram að ganga, þessi seinni sala sérstaklega, á eignarhlut almennings í Íslandsbanka. Og mér finnst allt hafa brugðist í því máli; spillingin, græðgin og leyndarhyggjan hefur afhjúpast og hvernig allt er raunverulega vaxið í íslenskum stjórnmálum. Þarna var mikið talað um langtímafjárfesta, kjölfestufjárfesta og erlenda fjárfesta; þetta átti allt að vera svo fínt og flott og það átti ekki að hleypa almenningi að þessu borði vegna þess að nú þurfti stóra aðila inn á sviðið og trausta aðila. Og svo kemur eitthvað allt annað í ljós. Svo er það faðir fjármálaráðherrans sem er einn af kaupendunum. Það eru söluaðilarnir sjálfir: Eiginkonur, systur, bræður, það eru vinir og flokksfélagar og svo koma nöfnin úr hruninu: Exista, Fons, Samherji. Aðilar sem eru tengdir alvarlegum mútu- og spillingarmálum erlendis og eru allt í einu farnir að dúkka upp. Eftir það sem gerðist 2008 þá er eiginlega ekki ásættanlegt að láta óáreitt þetta endurlit eða þessa endurtekningu frá 2008. Þó að stærðirnar séu minni og við séum bara að tala hér um einn banka, þá er eðli málsins þannig að það er algjörlega óásættanlegt. Bjarni Benediktsson sem fjármálaráðherra var annaðhvort gjörsamlega vanhæfur eða ekki starfi sínu vaxinn í sambandi við þetta allt saman og þá á hann að axla pólitíska ábyrgð. Eða að hann vissi hvað hann var að gera og hafi hann vitað það þá finnst mér alveg augljóst að hann hafi gerst brotlegur. Í öllu falli þá á hann auðvitað að víkja. Og eiginlega ætti ríkisstjórnin að víkja. Og það ætti að boða til kosninga og endurnýja umboð finnst mér núna.“

 

Sjálfum sér líkur

Ólína er spurð hvað valdi þessu undarlega sambandi VG og Sjálfstæðisflokksins; VG var vinstra megin við Samfylkinguna á hennar tíð virtist vera og nú er VG einhvern veginn eins og gamli Framsóknarflokkurinn var.

„Hefur VG ekki alltaf verið Framsóknarflokkur í raun og veru? Ég held það nefnilega. Það er ekki nema lítil hluti hans sem er raunverulega róttækur vinstri armur. Mér hefur alltaf þótt VG vera Framsóknarflokkur. Þeir hafa staðið vörð um mjög svipaða hluti og Framsóknarmenn og haft framsóknaráru yfir sér.“

Stóriðjudekur og ýmislegt.

„Mikið stóriðjudekur og hljóðlát varðstaða um ákveðna hagsmuni. Og hvað gengur þeim til með að ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarsamtarfi og Framsóknarflokkinn? Það er náttúrlega til þess að komast að völdum, en ég held að þeir hafi ekki séð alveg fyrir hvernig þetta myndi fara. Því þegar félagshyggjuflokkar ganga í eina sæng með hægri öflunum á Íslandi þá er það alltaf ávísun á fylgistap. Mikið fylgistap. Og það ríður enginn vinstriflokkur feitum hesti frá slíku eins og ég held að sé að koma í ljós núna í samstarfi VG við þessa gömlu helmingaskipta flokka, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk.“

Framsóknarflokkurinn er kominn með allt aðra áru; hann er ekki eins umdeildur og Sjálfstæðisflokkurinn.

„Þeir setja náttúrlega fram kosningaslagorð: „Er ekki bara best að kjósa Framsókn?“ Það þýðir „okkur er alveg sama, við erum bara ligeglad; kjósið okkur“. Það bara segir „hér er engin pólitík, hér ætlum við bara að vera og sitja við kjötkatlana“.

En er ekki ólíkt skárra Framsóknarflokkur Sigurðar Inga heldur en Sjálfstæðisflokkur Bjarna Benediktssonar?

þetta er bara valdasækinn, lítill flokkur.

„Jú, ég meina, Framsóknarflokkurinn er náttúrlega bara sjálfum sér líkur. Hann er ekki að hafast að, þetta er bara valdasækinn, lítill flokkur sem reynir iðulega að koma sér í oddaaðstöðu þegar verið er að semja um myndun ríkisstjórna. Sigurður Ingi hefur svo sem verið meinlaus og aðgerðalítill má segja, en ég man þó þá tíð á meðan ég var í þinginu að hann var býsna harður í hagsmunavörslu fannst mér, bæði fyrir útgerðina og landbúnaðinn. En kannski er hann farinn að sjá hlutina í öðru ljósi. Ég skal ekki segja.“

Svo er Lilja Alfreðsdóttir sem varaði við þessu bankabralli með Íslandsbanka. En svo segir fólk að hún hafi ekki látið bóka neitt.

„Hvaða þýðingu hefur það að vara við? Ég get kannski sett mig í þau spor, að ef þú ert í stjórnarsamstarfi og það eru þrír ráðherrar á fundi í efnahagsnefnd ríkisstjórnarinnar, að þú reynir frekar að hafa uppi munnleg mótmæli heldur en að bóka því það gefur ekki góð skilaboð að vera með bókanir þegar það eru kannski þrír ráðherrar. En gott og vel. En það er greinilega ekkert á það hlustað og hvað segir það þá um stöðu Framsóknarflokksins í stjórnarsamstarfinu?

Svo þagnar Lilja. Hún lætur vita af þessum andmælum sínum en svo þagnar hún. Og það næst ekkert í hana. Næsta sem fréttist af henni er að hún er á Feneyjatvíæringnum þar sem hún er að tala um allt aðra hluti. Þannig að hver er þá stefna Framsóknarflokksins í þessu máli?“

Ólína segir að Sigurður Ingi sé skaðaður eftir kenderíið á Búnaðarþingi og ummæli sem féllu þar.

Hún er spurð hvort hún ætli aftur út í pólitík.

„Nei, ég hef ekki hugsað mér það. Ég get haft skoðanir á mönnum og málefnum, ég hef gaman af að blanda mér í umræðuna og skrifa og ef ég er kölluð til að halda ræður á útifundum þá er ég alveg tilkippileg í slíkt af og til.“

 

Áran erfið og þung

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir segist vera Vestfirðingur að ætt og uppruna, en hún fæddist og ólst upp í Reykjavík. Hún gekk í Hlíðaskóla og segist hafa verið skólasystir Brynjars Níelssonar og Gústafs, bróður hans, og fleiri sem hrelldu hana og sem hún hrelldi á bernskuárum sínum þegar hún gekk með járnstaf í hönd og stofnaði leynifélög og skaut þeim skelk í bringu.

„Þeir voru bara skemmtilegir strákar. Okkur stóð svolítill stuggur af þeim, stelpunum, í leikjum og öðru.“

Aftur að járnstafnum. „Ég lamdi engan með þessum staf, en ég var andskoti vígaleg með hann.“

Hún var send í sveit vestur á firði á sumrin til fólksins síns og svo varð pabbi hennar sýslumaður, bæjarfógeti og lögreglustjóri fyrir vestan og flutti fjölskyldan til Ísafjarðar árið 1973.

„Eftir það hafa tengsl mín við Ísafjörð verið mjög sterk því að eftir að ég fór svo suður í háskólann þá kom ég aftur 2001 og var í 16 ár fyrir vestan. Ég kom svo suður aftur sem þingmaður.“

Á síðu Alþingis má meðal annars finna þetta um feril Ólínu: „Stúdentspróf MÍ 1979. BA-próf í íslensku HÍ 1985. Cand.mag.-próf í íslenskum bókmenntum og þjóðfræði HÍ 1992. Stjórnunarnám við viðskipta- og hagfræðideild HÍ 1998–1999. Kennsluréttindi á framhaldsskólastigi 2001. Dr. phil. í íslenskum bókmenntum HÍ 2000. Vann við fiskvinnslu, var ritari og stundaði almenn skrifstofustörf 1975–1985. Blaðamaður á NT, fréttastjóri á Alþýðublaðinu 1985–1986. Frétta- og dagskrárgerðarmaður á RÚV 1986–1990. Stundakennari í þjóðfræðum við Háskóla Íslands 1992–2000. Forstöðumaður þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands 1998–2000. Skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 2001–2006. Verkefnisráðinn sérfræðingur við Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands 2006–2009. Borgarfulltrúi í Reykjavík 1990–1994, í borgarráði 1992–1994. Í stjórn Dagvistar barna 1990–1994. Formaður sveitarstjórnarráðs Alþýðuflokksins 1991–1993. Í stjórn Strætisvagna Reykjavíkur 1994–1998. Í stjórn Neytendafélags höfuðborgarsvæðisins 1995–1996. Varaformaður Kvæðamannafélagsins Iðunnar 1996–1998. Formaður Íbúasamtaka Vesturbæjar 1998–2000. Varaformaður Menningarráðs Vestfjarða frá 2007. Formaður stjórnar Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða 2001–2006. Formaður Vestfjarða-akademíunnar 2005–2008.“

Skólameistari Menntaskólans á Ísafirði 2001-2006. Þar voru erjur. Gekk hún ósár frá þeim leik?

Lítill minnihluti starfsmanna sem stóð fyrir þessum illindum.

„Já, það myndi ég nú alveg segja. Ég var mjög sátt við það hvað ég náði miklum árangri fyrir Menntaskólann á Ísafirði og það varð mikil breyting á skólanum á meðan ég var skólameistari þó að ég segi sjálf frá. Svo komu upp deilur síðustu tvö árin sem ég var í starfi. Mér verður stundum hugsað til þess þegar ég er að fylgjast með Sólveigu Önnu og Eflingu; mér finnst nú ýmislegt kunnuglegt í þeim atgangi, eins og því sem ég gekk í gegnum. Svo áttaði ég mig á því að ég vildi ekki eyða lífi mínu í þetta. Ég var búin að gera það sem ég vildi gera fyrir skólann, ég var búin að gera mitt besta og þó að þetta væri lítill minnihluti starfsmanna sem stóð fyrir þessum illindum þá var áran orðin svo erfið og þung að ég hugsaði með mér að ég ætlaði ekki að eyða lífi mínu í þetta. Ég var búin að gera það sem ég gat og ég steig bara til hliðar. Og það var alfarið og algjörlega mín ákvörðun að fara og kom ýmsum í opna skjöldu. Ég man að Sjálfstæðismenn reyndu á þeim tíma að láta líta út fyrir að ég hefði verið rekin, en það var ekki þannig. Ég ákvað að stíga til hliðar vegna þess að ólíkt því sem ýmsir halda þá er ég friðarins manneskja, þó ég geti verið föst fyrir ef að mér er sótt.“

Alveg grjóthörð.

„Ég get það alveg. En ég býð alltaf friðinn og vil helst hafa hann.“

 

20 milljónir

Það var haustið 2018 sem Þingvallanefnd auglýsti starf þjóðgarðsvarðar á Þingvöllum laust til umsóknar. Ólína sótti um og var í hópi 20 umsækjenda. Tveir þóttu vera hæfastir: Hún og Einar Á. E. Sæmundsen, sem síðar var ráðinn þjóðgarðsvörður. Ólína kærði niðurstöðuna til kærunefndar jafnréttismála og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Þingvallanefnd hefði brotið jafnréttislög með því að ráða Einar. Þegar upp var staðið komst ríkið að samkomulagi um 20 milljóna króna bótagreiðslu til Ólínu sem kærunefnd jafnréttismála hafði metið hæfasta.

Það voru náttúrlega sjálfstæðismenn sem stóðu í vegi fyrir mér.

„Það voru náttúrlega Sjálfstæðismenn sem stóðu í vegi fyrir mér. Þetta varð pólitískt af því að það var ég sem sótti um. Ég hef grun um að það hafi verið á bak við tjöldin búið að ákveða að Einar Sæmundsen fengi þetta starf, vegna þess að það var alveg fyrirséð að Ólafur Haraldsson, sem var Þingvallaþjóðgarðsvörður, var að hætta vegna aldurs. Það var náttúrlega vitað. En þegar hann hætti vegna aldurs þá var staðan ekki auglýst heldur var settur maður í tímabundna stöðu og það var Einar Sæmundsen. Þannig að hann fékk heilt ár til að máta sig í starfinu og svo sótti hann um. Þá hefði maður átt að átta sig á því að það stóð til að ráða hann. En hann hafði hins vegar ekki þær forsendur sem ég hafði; bæði stjórnunarreynslu, menntun og bara ýmislegt sem ég taldi auðsýnt að ég hefði fram yfir hann. Þannig að þeir hafa kannski ekki áttað sig á því að svona manneskja eins og ég myndi sækja um þetta starf; hafa talið þetta auðveldan leik. En hann varð það nú ekki.“

Og það varð að borga Ólínu bætur.

„Þeir brutu á mér stjórnsýslulög. Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að þeir hefðu gerst brotlegir gagnvart mér og þá var ekki um neitt annað að ræða eins og ríkislögmaður upplýsti í blaðaviðtali; skaðabótaskyldan var augljós. Þannig að það var samið um skaðabætur.“

Reyndi þetta á Ólínu? Tók málið á?

„Svona mál tekur að sjálfstöðu alltaf á því þú leggur sjálfa sig svolítið að veði. Mér finnst að fjölmiðlar og aðrir mættu taka meira tillit til þess þegar fólk stendur í svona stríði; það hafa komið upp svona mál, líka eftir að þetta var eins og til dæmis með Hafdísi Ólafsdóttur og Lilju Alfreðsdóttur sem gekk fram hjá henni í starf ráðuneytisstjóra. Þetta tekur náttúrlega gríðarlega á þann sem er að leita réttar síns, en ekki þannig að ég væri neitt að bugast yfir því, en auðvitað tók þetta á. Ég var mjög fegin þegar því lauk.“

 

Hundurinn

Ólína, sem í dag starfar sem íslenskukennari í hlutastarfi við Menntaskólann á Laugavatni og Háskólann á Biförst, skrifar bækur og vinnur sem fararstjóri á sumrin, hefur um árabil verið virk í björgunarsveitarstörfum.

„Ég er aðeins farin að minnka afskipti mín af björgunarsveitarstörfum; það er aðallega vegna þess að hundurinn minn, leitarhundurinn minn sem hefur verið minn helsti félagi í björgunarsveitarstarfinu, hann Skutull minn, er orðinn gamall og fer bráðum að sigla út úr veröldinni. Þannig að ég hef ekki getað tekið útköll með hann í meira en ár og þá hefur mín virkni aðeins minnkað. En ég þjónaði nú Landsbjörg og mínu samfélagi í gegnum björgunarsveitirnar í 14 ár, svoleiðis að ég get alveg vel við unað. Ég var lengst af með Skutul; ég var reyndar með annan hund á undan honum og tók þá aðallega leitarútköll.“

Ólína er spurð hvað sé eftirminnilegast úr björgunarsveitarstarfinu.

Þarna mátti litlu muna að illa færi.

„Það er svo margt sem við Skutull höfum gengið í gegnum saman í björgunarhundasveitinni. Leitin að Birnu Brjánsdóttur var mér mjög eftirminnileg og bara nokkur útköll sem við fórum í. Sá sem ekki hefur staðið sjálfur í útköllum á erfitt með að setja sig í sporin – hvað gerist þegar maður stendur einn uppi á miðri heiði og er að leita að týndri manneskju. Mér er líka mjög minnisstætt atvikið sem varð upp undir Langjökli fyrir um tveimur árum, þegar hátt á fjórða tug manna var næstum orðinn úti þar í misheppnaðri jöklaferð sem fór öll úr böndum. Börn og fullorðnir. Þarna mátti litlu muna að illa færi. Ég stóð í þeirri aðgerð ásamt fleirum og við settum upp aukaviðbúnaðarstöð fyrir fólkið þegar það var að koma beint niður af jöklinum áður en haldið yrði með það niður að Gullfossi þar sem beið svo formleg fjöldahjálparstöð. Ég held við höfum tekið mjög farsæla ákvörðun þar, þar sem við tókum svolítið málin í okkar hendur og ákváðum að hjúkra fólkinu og hlúa að því áður en haldið yrði áfram með það. Mér er sú nótt mjög eftirminnileg.“

Hún talar líka um það að vinna með hundi. Að þjálfa björgunarhund, vinna með honum og ná þessu ótrúlega vinnusambandi sem myndast milli manns og hunds. „Til að byrja með er þetta leikur fyrir hundinn. Öll þjálfun gengur út á það að þetta sé leikur og skemmtilegt en svo eftir því sem fram í sækir og maður fer að fara í útköll og annað, þá kemur alvaran í þetta og það er svo merkilegt að finna hvernig skepnan skilur það þegar þetta færist af því stigi að vera leikur yfir í það að hundurinn er farinn að vinna með þér og hann gerir allt sem hann getur til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Ég hef komið heim með hundinn minn blóðrisa á þófum og örmagna af því að þeir gefast aldrei upp og aldrei hætta þeir. Þegar ég hugsa um það sem við Skutull minn höfum átt síðustu 12 árin á þessum vettvangi þá get ég sagt að ég ber virðingu fyrir þessari dýrategund, hundinum.“

Ólína viðurkennir að sig langi stundum til þess að þjálfa annan hund og halda áfram. „Ég er í fullu fjöri og myndi treysta mér til að halda áfram. Ég ætla að sjá til. Ég ætla ekki að gera Skutli það að taka annan hund á meðan hann er ofan jarðar.“

Fjöllin lokka og laða og hefur Ólína starfað sem leiðsögumaður á sumrin eins og þegar hefur komið fram. Hún segir að það sé hvergi betra að vera en á fjöllum. Hver finnst henni vera fallegasti staður á Íslandi?

„Það er Hornbjarg. Eiginlega úr öllum áttum. Kálfatindar og hvort sem þú horfir úr Látravíkinni yfir. Og líka bara Hornstrandirnar. Logn, kyrrðin að kvöldi dags, bjargið og fjöllin speglast í skyggðum haffletinum og sólin að setjast. Þú heyrir gagg í tófu einhvers staðar og finnur lykt af þangi, baldursbrá og fjörukáli. Þetta er bara paradís á jörð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -