Matthew Lynn, pistlahöfundur hjá Telegraph fer nokkuð hörðum orðum um hertogaynjuna Meghan Markle og þættina sem hún hugðist búa til í samstarfi við Netflix. Teiknimyndaþættirnir áttu að hverfast um ævintýri tólf ára stelpu sem er undir miklum áhrifum af áhrifamestu konum mannkynssögunnar.
Bresk blöð keppast nú við að fullyrða að hertogaynjan Meghan Markle sé „niðurlægð“ eftir ákvörðun streymisveitunnar Netflix að hætta við teiknimyndaþætti hennar Pearl.
Lynn segir meðal annars að hann sé nokkuð viss að ákvörðun Netflix sé fullkominn vitnisburður um það að það sé ekki eftirspurn eftir „pólitísk réttþenkjandi,“ og „woke“ þáttum eins og þessum.
Þá fullyrðir pistlahöfundurinn að slíkar áherslur reki áhorfendur í burtu, frekar en að laða þá að. „Þessar áætlanir endurspegluðu það versta við Woke-flix,“ skrifar Lynn.
Ætti ekki að vera með pólitíska hugmyndafræði
Netflix tilkynnti á dögunum að fyrirtækið hyggðist hætta við framleiðsluna en streymisveitan er í mikilli krísu þessa dagana. Hún tilkynnti meðal annars tap í fyrsta sinn og fækkun áskrifenda, sem forsvarsmenn Netflix segjast ætla að bregðast við, meðal annars með því að hætta við framleiðslu á efni.
„En þetta nær svo miklu dýpra en það. Mjög fljótlega mun skemmtanaiðnaðurinn verða aftur það sem hann hefði alltaf átt að vera; skemmtanaiðnaður. Gildi hans ættu hvorki að vera til vinstri né hægri við miðjuna, og fyrir utan nokkur augljós mörk eins og að koma í veg fyrir rasisma og kvenfyrirlitningu, ætti hann ekki að prómótera neina pólitíska hugmyndafræði,“ skrifar pistlahöfundurinn.